HEFÐU BB OG SIJ NÁÐ PRÓFI Í HÚSMÆÐRASKÓLANUM?
Kvennalistinn stærði sig af því forðum daga að fylgja hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður. Sú hagfræði byggði á því sem kallað hefur verið heilbrigð skynsemi og því sem húsmæður, sem stýrðu búi sínu, höfðu lært af reynslu eða í námi.
Nú fara með fjármálin og samgöngumálin á Íslandi menn sem ég hef miklar efasemdir um að hafi til að bera hyggindi hinnar hagsýnu húsmóður og eftir að hafa hlustað á þá ráðherrana Bjarna Bendiktsson og Sigurð Inga Jóhannsson í fjölmiðlum í dag leyfi ég mér að efast um að þeir hefðu náð prófi í Húsmæðraskólanum.
Vaxandi efasemdir um viðbrögð ríkisstjórnarinnar
Reyndar er ég farinn að hafa vaxandi efasemdir um viðbrögð ríkisstjórnarinnar almennt við yfirvofandi efnahagsþrengingum. Þau byggja á nokkuð glannalegum fyrirheitum og fjárútlátum og þegar talsmaður peningafrjálshyggjunnar á Alþingi botnar framhaldið eins og Bjarni Benediktsson gerði í dag rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.
Formúlan er þessi: Áður hefur Seðlabanki heimilað bönkum að prenta peninga til lánveitinga og ríkissjóður hefur lofað hér og lofað þar, lítið verið rætt um væntanlega skuldadaga. Þar til nú að fjármálaráðherra sagði í dag að verja þyrfti heilbrigðiskerfið, menntakerfið og almannatryggingar. En peningar væru þó ekki til í ríkissjóði, bætti hann við. Hins vegar væru nægir peningar til í landinu! Þá þyrfti einfaldlega “að leysa úr læðingi.”
Hvaða fjármuni ætlar ríkisstjórnin að leysa úr læðingi?
Við augum blasir hvernig það má gera, selja banka, selja flughafnir (sala Leifsstöðvar hefur verið undirbúin), selja orkufyrirtæki (Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði er þegar farinn að íhuga að selja sinn hlut í HS orku), selja banka (þegar á teikniborðinu) og selja Landsvirkjun. Síðan má náttúrlega “leysa úr læðingi” peninga í vösum vegfarenda. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um samgöngumál er kveðið á um einkaframkvæmd verkefna “þar sem einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta“ og er honum heimilt samkvæmt frumvarpinu að innheimta veggjöld sem geti “ í heild eða að hluta staðið straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri af fjárfestingu mannvirkis.”
Ætla að leyfa fjárfestum að féfletta okkur!
Í seinni tíð hefur ein röksemdin fyrir vegtollum verið sú að hefðbundin skattlagning á umferð komi til með að breytast, eldsneytisskattar dragist saman samhliða því sem rafknúnir bílar ryðji sér til rúms. En bíðum við, hér er ekki verið að tala um skatttekjur til ríkissjóðs í gegnum vegatolla heldur til fjárfesta til að standa straum af kostnaði þeirra og arðgreiðslum í þeirra vasa!
Nú þarf að passa upp hverja krónu og halda sjó
Svo má spyrja að hætti hinnar hagsýnu bústýru: Ef það er nú svo að halda þurfi í hverja einustu krónu svo við séum aflögufær til að fjármagna heilbrgðiskerfið, menntakerfið og almannatryggingar, getur það þá verið forgangsverkefni að byggja nýja brú yfir Ölfusá og tvöfalda Hvalfjarðargöng – akkúrat núna? Þetta eru hvorki mannfrekustu verkefnin sem við blasa né mest aðkallandi. Er það ekki akkúrat núna sem við reynum að halda sjó og koma í veg fyrir að innviðir samfélagsins bresti?