Fara í efni

HEFURÐU SPURT LAXINN?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 0.8/09.08.15.
Á dögunum skaut bandarískur tannlæknir ljón í Simbabwe. Þetta var vinsælt ljón og ekki farið að reglum við drápið. Síðan hefur tannlæknirinn ekki átt sjö dagana sæla enda með dýraverndunarsamtök heimsins á bakinu.

Málið hefur vakið umræðu sem spunnist hefur í margar áttir. Þar á meðal hefur verið fjallað um réttmæti sportveiðimennsku.

Á Íslandi skemmta menn sér við veiðar. Þeir eltast við rjúpu á haustin, skjóta hreindýr og gæs, að ógleymdum laxinum og silungnum sem margir veiða sér til ánægju. Svo er það sjóstangaveiðin. Sjálfur þekki ég ánægjuna af henni. Bæði við að draga þann gula úr sjó  í góðum félagsskap undir íslenskum bláhimni og síðan að neyta hans, helst með heimaræktuðum kartöflum og salati. Himneskt.

Það er óneitanlega eitthvað sérstakt við þetta. Fiskinn, salatið og kartöflurnar er vissulega hægt að kaupa úti í búð og spara sér mikla fyrirhöfn. En það er ekki það sama. Það er nefnilega samhengið allt sem þarf að horfa til.

Veiðimennirnir láta sér ekki nægja soðna villibráðina. Þeir grafa og reykja og síðan er smakkað og kjamsað og spjallað.  Er betra að reykja silunginn svona en ekki hinsegin? Mörgum finnst jólin ósköp rýr án rjúpna. Allt er þetta spurning um hefðirnar sem við erum alin upp við.

Í seinni tíð hefur verið gerð mikil tilraun sem  gengur út á að skapa nýjan sið í veiðimennskunni; innleiða þá hefð að veiða sér aðeins til skemmtunar, ekki til matar. Þannig er það í mörgum laxveiðiám að veiðimanninum er gert að sleppa þeim fiski sem bítur á agnið. 

Þetta er gert að sögn til að vernda laxastofninn.  Það er gott og göfugt markmið. En einhvern veginn finnst mér við þarna komin út á ranga braut. Skemmtunin er þá bara að fanga bráðina. Bláhiminninn er vissulega enn til staðar og félagsskapurinn við náttúruna og vinina. En síðan ekki söguna meir.

Er virkilega í lagi að setja öngul í lax og þreyta hann þar til hann er örmagna og nær dauða en lífi; láta hann síðan lausan til þess eins að bíða eftir næsta sportveiðimanni sem endurtekur leikinn?

Ég spurði eitt sinn einn kunnasta baráttumann Íslands fyrir viðgangi laxastofnsins og þá jafnframt gegn ofveiði í hafi úti og í laxveiðiánum. Fyndist honum þetta vera í lagi; að veiða eingöngu sér til skemmtunar en ekki til matar. Væri þetta góð meðferð á dýrum?

„Hefurðu spurt laxinn", svaraði hann að bragði. „Ég held að hann vilji frekar láta sleppa sér en drepa sig."

Ég sannfærðist ekki.