HEIÐURSMAÐUR GEFUR ÍSLENSKA FÁNANN
Ég varð í gær þess mikla heiðurs aðnjótandi að taka við íslenska fánanum að gjöf frá Pétri Kristjánssyni, sem Reykvíkingum og landsmönnum mörgum er að góðu kunnur fyrir óeigingjörn störf um áratugaskeið. Varla hefur sá atburður átt sér stað í höfuðborginni þar sem þurft hefur að setja upp öflugan eða flókinn hljóðbúnað að Pétur hafi ekki stýrt þar málum.
Pétur Kristjánsson er auk þess ötull félagsmálamaður, vakinn og sofinn í starfi fyrir Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og þar með BSRB.
Við afhendingu fánans lagði Pétur áherslu á nauðsyn þess að hafa íslenska fánann í heiðri og skyldu Vinstri græn minnast þess í komandi kosningabaráttu og í kjölfarið, hugsanlega við stjórnvöl landsins, að þeim vegnaði vel sem héldu í heiðri það sem íslenskt er.
Ég met mikils þessa gjöf Péturs Kristjánssonar og þann hug sem að baki henni býr.
Um gjöf Pétur Kristjánssonar var fjallað í Morgunblaðinu í dag:
"PÉTUR Kristjánsson, áhugamaður um rétta notkun á íslenska fánanum, gaf á aðventunni forsætisráðuneytinu fána á stöng sem hann hafði sjálfur smíðað að mestu. Ekki reyndist pláss fyrir fánastöngina í híbýlum ráðuneytisins og var Pétur beðinn að fjarlægja fánann sem hann og gerði. Að endingu fann Pétur gjöfinni eiganda í Ögmundi Jónassyni þingmanni Vinstri grænna.
Tilgangurinn með gjöfinni var að vekja athygli ráðuneytisins á notkun fánans en Pétri finnst hann of lítið notaður á opinberum vettvangi. Hann hafi í sumar reynt að ná sambandi við Geir H. Haarde forsætisráðherra til að bjóða honum fánastöngina en ekki náð í ráðherrann en rætt málið við starfsmenn ráðuneytisins. Að sögn Péturs gaf hann þeim sjálfdæmi um hvernig stöngin yrði á litinn en fékk aldrei skýr svör um það. Hann lét þetta ekki á sig fá heldur smíðaði fánastöng með fæti og kom henni til skila í ráðuneytið.
Hinn 22. desember var hringt frá ráðuneytinu og honum tjáð að ekki væri pláss fyrir stöngina í híbýlum þess og hann beðinn að fjarlægja hana og varð Pétur við því. "Ég fór og náði í stöngina og hún er nú bara uppi á skrifstofu hjá mér í vinnunni," segir Pétur sem gaf síðar Ögmundi Jónassyni stöngina sem hann þáði með þökkum.
Fánanum of lítið hampað
Pétur segir að í raun hafi gjöfin verið gárungsháttur en hann hefði þó talið að einhvers staðar væri pláss fyrir stöngina, t.d. í fundarsal ráðuneytisins, sumarbústaðnum á Þingvöllum eða í ráðherrabústaðnum. Fánanum væri alltof lítið hampað af ráðherrum og þingmönnum og tími væri kominn til að gera bragarbót þar á. Pétur hefur lengi haft áhuga á réttri notkun íslenska fánans og hefur ritað nokkrar greinar um það í dagblöð, sú nýjasta birtist í Morgunblaðinu á Þorláksmessu.Halldór Árnason ráðuneytisstjóri sagði í samtali við Morgunblaðið að því miður hefði ekki fundist staður fyrir stöngina innan veggja ráðuneytisins, þ.m.t. í bústaðnum á Þingvöllum og ráðherrabústaðnum."