Fara í efni

HEILBRIGÐISRÁÐHERRA, VÍST ER ÞÖRF Á STÖKKBREYTINGU!

Birtist í Morgunblaðinu 24.09.05.
Fyrir stuttu skrifaði ég grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: "Aðstaða dvalarheimila fyrir aldraða verði jöfnuð!" Fyrirsögnin er lýsandi fyrir innihald greinarinnar. Í henni er gerð grein fyrir því hvernig hlutafélagið Öldungur hf., sem rekur dvalarheimilið Sóltún fái "...hlutfallslega miklu meira fjármagn úr ríkissjóði en aðrar öldrunarstofnanir, hvort sem þær eru sjálfseignarstofnanir eða í öðrum samfélagslegum rekstri". Ég minnti á fyrri skrif mín um þetta efni og sagði að það hefði komið mér á óvart hve lítinn áhuga fjölmiðlar hefðu sýnt "því hróplega ranglæti og mismunun sem dvalarheimili aldraðra búa við, að ekki sé minnst á hagsmuni skattgreiðenda". Ég sagðist ekki sjá ofsjónum yfir framlagi "til þeirrar ágætu stofnunar sem Sóltún er, að því undanskildu að sjálfsögðu, að skattfé, sem varið er til velferðarmála á að mínu mati ekki erindi í vasa fjárfesta. Mér svíður hins vegar að ekki sé búið eins vel að öðrum stofnunum hvað opinber fjárframlög snertir".

Upplýsandi úttekt Morgunblaðsins

 

Því ber að fagna að nú hefur Morgunblaðið heldur betur gert bragarbót á því þriðjudaginn 20. september er ítarleg umfjöllun um þá mismunun sem dvalarheimilin búa við. Í inngangi að umfjöllunum blaðsins segir: "Hið einkarekna hjúkrunarheimili Sóltún fær hærri greiðslur frá ríkinu en önnur slík heimili. Umbjóðendur annarra heimila kvarta yfir því að fá ekki að sitja við sama borð." Í úttekt Morgunblaðsins er þannig komist að þeirri niðurstöðu að meira skattfé fari í einkareksturinn og er lögð á það áhersla í fyrirsögn. Út í þetta eru nokkrir forsvarsmenn dvalarheimila fyrir aldraða síðan spurðir og einnig Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra. Um framlag ríkissjóðs segir Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarforstjóri Sóltúns : "Ég hélt, satt best að segja, að þetta væri sú lína, sem stjórnvöld hygðust leggja fyrir okkar eldri borgara framvegis, og því finnst mér fréttir af tvíbýlum á Selfossi ekki nógu góðar þegar viðurkennt er orðið að vistmenn skuli búa við þau grundvallarmannréttindi að vera ekki með ókunnuga herbergisfélaga inni hjá sér þegar t.d. þarf að skipta um bleiur, baða og mata. Það er heldur ekki í lagi að vera nánast bara með ófaglært fólk í vinnu. Ég vil vissulega lyfta öldrunarþjónustunni á hærra plan, en það kostar auðvitað meira fé..." Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra segir það vera rétt að Sóltún fái hlutfallslega meira en önnur heimili og kveðst kannast við óánægju forsvarsmanna þeirra heimila vegna þessa: "Ég hef margoft rætt við þessa menn, en við höfum því miður ekki haft afl til þess að taka Sóltúns-samninginn upp alls staðar. Ef við ætlum okkur að lyfta öðrum heimilum upp í þann "standard", sem er á Sóltúni, þá þurfum við einfaldlega meira fjármagn inn í þennan rekstur..." Heilbrigðisráðherra segir hins vegar engar "stökkbreytingar" á borðinu, "alla vega ekki á næstu fjárlögum..."
Nú spyr ég, hvers vegna ekki? Hvers vegna eru menn til dæmis reiðubúnir að setja fleiri hundruð milljónir til að kaupa sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og ausa fé í ýmis umdeild verkefni en vanrækja síðan elstu kynslóðina þannig að margt fólk fái ekki búið við mannréttindi á lokaskeiði ævinnar. Þetta er röng forgangsröðun og vil ég taka undir með hjúkrunarforstjóra Sóltúns að lyfta beri öldrunarþjónustunni á æðra plan.

Aldraðir hafa ekki tíma til að bíða

 

Ég leyfi mér að fullyrða að dvalarheimili aldraðra á Íslandi eru almennt mjög vel rekin og þar er almennt veitt afbragðs þjónusta. Þessu hef ég haft tækifæri til að kynnast. Staðreyndin er hins vegar sú að langir biðlistar eru eftir því að komast inn á þessi heimili og í allt of mörgum tilvikum er ekki hægt að bjóða upp á aðstöðu sem skyldi. Það gengur ekki að bjóða fólki sem er aldrað en heilbrigt upp á herbergi með ókunnugum herbergisfélögum eins og hjúkrunarforstjóri Sóltúns segir réttilega. Það þarf að útrýma biðlistum aldraðra á dvalarheimili og lyfta síðan öllum upp á þann "standard" sem heilbrigðisráðherra vísar til í yfirlýsingum sínum. Til þess þarf að auka framlagið úr ríkissjóði til dvalarheimila aldraðra. Þetta kostar peninga en ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar væri þessu fylgjandi. Ég held reyndar að þjóðin ætlist til þess. Þess vegna er nú þörf á stökkbreytingu. Aldraðir hafa ekki tíma til að bíða.