HEILSUVERND MEÐ RÉTTU BANKAKORTI
Það er engin tilviljun að Helgi Guðmundsson, rithöfundur, þjóðfélagsrýnir og fyrr á tíð forystumaður í verkalýðshreyfingu og pólitík, skuli á sínum tíma hafa verið fenginn til að ritstýra Þjóðviljanum, málgagni íslenskra sósíalista. Það var vegna þess að hann hafði pólitískt auga fyrir stefnum og straumum í þjóðfélaginu og bar hugsjónir í hjarta í anda félagshyggju. Það gerir hann vissulega enn. Það er auk þess svo að Helgi Guðmundsson er enn orðaður við Þjóðviljann. Nú er það hins vegar heitið á blogg-síðu hans sem vistuð er ... Já, hvar skyldi það nú vera annars staðar en á Moggavefnum. Öðru vísi mér áður brá.
En boðskapurinn og viðhorfin eru hin sömu. Og nú spyr Þjóðviljaritsjórinn gamli um „Heilsuvernd með réttu bankakorti." Hann víkur þar sérstaklega að Heilsuverndarstöðinni ehf og samningi sem þetta nýja fyrirtæki hefur gert við Kaupþing á sviði heilbrigðisþjónustu. Helgi Guðmundsson sýnir einkarekstrar/einkavæðingartilburðum ívið meira umburðarlyndi en ég geri - þó er ég síður en svo andvígur öllum einkarekstri innan heilbrigðisþjónustunnar einsog margoft hefur komið fram - en nú er honum nóg boðið. Ég birti pistil Helga Guðmundssonar, hágé, í heild sinni hér að neðan og auk þess netslóð Þjóðviljaritjórans á Mogganum!
----------------------------------------------------------------
Helgi Guðmundsson:
Heilsuvernd með réttu bankakorti
Heilsuverndarstöðin ehf., sem starfar samkvæmt leyfi heilbrigðisráðuneytisins, hefur tilkynnt um samstarf fyrirtækisins við Kaupþing. Þeir viðskiptavinir bankans sem hafa tiltekin kort fá forgang að þjónustustöðvarinnar, en auk þess betri kjör en aðrir.
Nú er best að fara varlega í fullyrðingar, þar sem orðin einkavæðing og einkarekstur í heilbrigðisþjónustu vefjast fyrir mörgum. Um árabil hafa einkaaðilar veitt sjúklingum þjónustu af ýmsum toga, en almannatryggingar greiða kostnaðinn (að sínum hluta). Við sem erum andvíg einkavæðingu heilbrigðisþjónustu höfum í raun ekki haft við þetta margt að athuga, enda liggja sterk rök til þess að afköst heilbrigðisþjónustunnar hafi aukist með þessum hætti. Heilsugæslustöðvar á vegum hins opinbera og læknamiðstöðvar á vegum lækna virðast hafa gengið ágætlega saman, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Hér skal þó tekið fram að undirrituðum er ekki kunnugt um samanburð á kostnaði þessara tveggja rekstrarforma.
Með samningi við Kaupþing er Heilsuverndarstöðin ehf. hinsvegar að fara inná nýja braut. Hún virðist ætla að raða sjúklingum í forgang eftir viðskiptum þeirra við þriðja aðila. Ef þú ert "góður" viðskiptavinur Kaupþings og færð gullkort eða platínukort (hvað svo sem öll þessi kort bankans annars heita) þá ertu sjálfkrafa framar í röðinni hjá Heilsuverndarstöðinni en þeir sem ekki hafa slík kort. Hvernig þetta á að fara fram er undirrituðum ekki ljóst, en það hlýtur að gerast þannig að sjúklingar sem til stöðvarinnar leita verða fyrst spurðir hvort þeir séu með hin umræddu kort. Við getum hugsað okkur að 20 manns séu á biðstofu stöðvarinnar. Þá hljóta ritarar að kalla upp: Þeir sem hafa gull- eða platínukort hjá Kaupþingi, vinsamlegast setjist á stólana hægra megin. Þar á eftir eru þeir afgreiddir fyrst, greiða auk þess lægra gjald að sögn, síðan kemur röðin að hinum.
Enda þótt þjónusta Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. sé ekki beinlínis einkavæðing heilbrigðisþjónustu eins og almennt er á hana litið er hér farið inná braut sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur einkavæðingar. Sjúklingur sem hefur tiltekin viðskipti við þriðja aðila hefur forgang að þjónustu stöðvarinnar. Hér er verið að blanda saman gersamlega óskyldum hlutum. Getur það virkilega komið lækni við hver er viðskiptabanki sjúklingsins? Í fljótu bragði verður þar að auki ekki betur séð en að forgangur af þessu tagi sé ólöglegur. Læknar eiga að veita sjúklingi það þjónustu sem í þeirra valdi stendur, óháð efnahag eða öðrum þáttum. Getum við átt von á því að sá sem verslar fyrir tiltekna upphæð, t.d. í Nóatúni eða IKEA, komist í forgangsröðina? Hvar endar sú þróun sem hér er greinilega komin í gang?
Og það er fleira merkilegt við starfsemi þessa fyrirtækis. Á heimasíðu þess stendur meðal annars:
"Helstu verkefni:
• Hjúkrunarstörf innan bráðadeilda sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, dvalarheimila, heilsugæslustöðva,..." Dokum aðeins við: Getur verið að innan tíðar verði allt komið í graut á spítölum, hjúkrunarheimilum, dvalarheimilum og heilsugæslustöðvum landsins. Þar starfi starfsfólk viðkomandi stofnunar og við hlið þess starfsfólk Heilsugæslustöðvarinnar ehf. væntanlega þar á ofan á allt öðrum kjörum en fastráðnir starfsmenn?
Ef þetta er ekki að smeygja einkavæðingunni með ísmeygilegum hætti uppá þjóðina er ég illa svikin. Að koma henni á smátt og smátt, undir því yfirskyni að mismunandi rekstrarform geti farið saman, er líklegasta leiðin til að koma einkavæðingu í kring í rólegheitum og það án þess að nokkur taki eftir.
hágé.
Netslóð Þjóðviljans: http://thjodviljinn.blog.is/blog/thjodviljinn/