HEITT HJARTA, GRÆNIR FINGUR
1. maí ávarp á samkomu Vinstri grænna í Kópavogi .
Í gamla daga var stundum sagt um sósíalista að þótt teórian væri klár, væri praxísinn oft smár.
Á þessu hafa vinstri græn tekið. Vinstri stendur fyrir lífsviðhorf, fyrir félagshyggju; græn fyrir lífsstíl, fyrir framkvæmdina. Félagshyggja er ung hugmynd, auðhyggja og valdhyggja gamlar hugmyndir. Auðhyggjan reynir að endurnýja sig með liðsinni frá fyrrverandi vinstrisinnum. Með því að klæða hugmyndir auðhyggjunnar í föt félagshyggjunnar ætla Samfylking og Sjálfstæðismenn að hefja nýtt skeið í stjórnmálasögunni. Framlag Samfylkingar felst í að krefjast almannaþjónustu fjármagnaða með sköttum og framlag Sjálfstæðismanna er að krefjast þess að þessi almannaþjónusta verði einkarekin. Með þessari ólíklegu samvinnu á að færa þróunina afturábak og nota stofnanir samfélagsins sem innheimtustofnun fyrir auðmenn. Þetta er sama hugmyndin og um ríkisútvarp sem sjálfstætt hlutafélag í eigu hins opinbera.
Félagshyggja er ekkert annað en heilbrigð skynsemi. Þetta viðurkenna allir í dag í orði. Skattheimta og meðferð almannafjár er mikill ábyrgðarhlutur. Sá sem lætur af hendi fjármuni til félagslegra þarfa á rétt á því að kjörnir fulltrúar hafi eftirlit með ráðstöfun fjárins og rekstri þeirra stofnana sem veita samfélagsþjónustuna. Það er ekki hægt að reka félagshyggju samkvæmt lögmálum markaðar. Gæði umönnunar eru ekki vara. Almenningssamgöngur eru ekki vara. Þú velur ekki strætóferð eftir gæðum vagnsins. Þú þarft einfaldlega að komast leiðar þinnar á ákveðnum tíma, burtséð frá verði eða gæðum. Þú velur ekki rafmagn eftir gæðum. Þú ákveður ekki að hætta nota rafmagn eða vatn vegna þess að þér finnst verðið of hátt. Þú getur hins vegar, og þér að meinalausu, sagt upp Stöð 2 eða sleppt því að kaupa þér ís eða frestað því að fara í frí til útlanda og svo framvegis.
Þú frestar ekki hjartaaðgerð, né heldur skoðar maður litprentaða bæklinga - svo illa er enn ekki komið - til að velja spítala, maður frestar ekki matarinnkaupum vegna þess að strætóinn frá besta rekstraraðilanum keyrir bara eftir klukkan 8. Við verðum að gera greinarmun á samfélagsþjónustu og vöru. Við verðum líka að stöðva þá þróun að flytja rekstur samfélagsþjónustu burt frá daglegu eftirliti kjörinna fulltrúa, sem hægt er að draga til ábyrgðar og krefjast upplýsinga og svara.
Hugmyndafræði Vinstri Grænna er skýr: Við teljum að samfélagsleg þjónusta - sú þjónusta sem samfélagið kemst ekki af án - eigi að vera í höndum hins opinbera. Við teljum að almennur rekstur atvinnufyrirtækja eigi að vera í höndum einkaaðila. Núverandi valdhafar virðast hafa öfuga stefnu: Þeir vilja færa rekstur almannaþjónustu til einkaaðila en nota skattpeninga til að ábyrgjast einkarekstur, einkum og sér í lagi stóriðju og bankarekstur. Ríkið er í stórkostlegum ábyrgðum vegna virkjanaframkvæmda og óbeinum ábyrgðum vegna fjárhættuspils íslensku bankanna.
Næg atvinna er lífsgæði. Hagvöxtur er ekki lífsgæði. Hagvöxtur er ekki forsenda nægrar atvinnu. Hagvöxtur er forsenda ákveðinnar tegundar atvinnu. Það þarf að endurskilgreina hagvöxt. Umferðarslys eykur hagvöxtinn, aukinn mengun eykur havöxtinn, eyðilegging Þjórsárvera eykur hagvöxtinn. Bók Andra Snæs Magnasonar minnir mann á það sem maður vissi. En framsetningin er svo sterk og svo mögnuð að hún opnar nýja sýn á möguleika okkar á að lifa við næga og gefandi atvinnu, án þess að gefa eftir þau verðmæti sem mestu máli skipta: umhverfið, heilbrigt líf, nærgætni við sjúka og aldraða.
Félagshyggja er í stöðugri þróun og Vinstri Græn eru kyndilberar nýrrar hugsunar og nýrrar bjartsýni. Auðvitað er hægt að gefast upp einsog Samfylking gerir og ganga út í sólarlagið arm í arm með Sjálfstæðisflokknum. Nútímalegt par við fyrstu sýn, en fyrst og fremst þreytulegt. Draumar lífs þeirra hafa lit sínum glatað. Sjálfstæðismenn og Samfylking eru komin á hugmyndafræðilegan eftirlaunaaldur og þurfa stöðuga þerapíu í nefndum, endurnýjunarhópum og ráðum til að peppa upp nýja og spennandi stefnu.
Vinstri Græn þurfa þess ekki. Öllum er stefnan ljós. Öflug opinber samfélagsþjónusta, heilbrigt líf, raunveruleg náttúruvernd. Fyrir okkur eru heldur engar flækjur í framkvæmdinni. Öflug opinber samfélagsþjónusta krefst þess að hún verði sett efst í forgangsröðina þegar almannafé er ráðstafað, heilbrigt líf þarfnast nægrar og heilbrigðrar atvinnu, að óheyrilegur ójöfnuður verði ekki látinn líðast einsog nú gerist, og að umhverfið verði ekki selt stórglæpamönnum á sviði náttúrueyðileggingar.
Þetta eru einfaldar hugmyndir og framkvæmanlegar. Þær snúast ekki um að verða stærsti skoðanalausi flokkurinn, ekki um að verða með dularfullum hætti nútímalegur, sem enginn veit hvað þýðir. Við þurfum að vinna hugmyndum okkar fylgi, sýna fram á framkvæmanleika þeirra og besta leiðin er auðvitað að við fáum að spreyta okkur. Það er vont að kjósa fólk til að stýra samfélagsþjónustu sem er á móti henni, fólk sem vill með öllum ráðum koma henni fyrir kattarnef. Það er vont að kjósa fólk til að stýra samfélagsþjónustu sem vill losna undan því hlutverki. Það er afar auðvelt að innheimta skattfé og afhenda það þriðja aðila. Þá losnar maður við ábyrgðina. Það er sagan um litlu gulu hænuna.
Vinstri Græn vilja bera ábyrgð og fylgja hugmyndum sínum eftir, framkvæma þær með þeirri nærgætni sem sá einn getur sýnt sem trúir á þær. Og þar erum við fremst og öruggust.
Fyrsti maí er baráttudagur verkalýðsins. Menn rifja upp gamla tíma, draga lærdóma af reynslu liðinna ára og horfa til framtíðar. Í dag eru baráttufánar dregnir að húni. Þeir eru rauðir, litur baráttu og funa. Rauður er okkar litur. Einng hinn græni litur náttúrunnar. Við höfum heitt hjarta og græna fingur.Við erum Vinstri Græn.
Til hamingju með daginn.