Fara í efni

ÖRORKA - STARFSGETA

Um þessar mundir er talsvert rætt um svokallaðan áfallatryggingasjóð, en hugmyndir um hann hafa verið að þróast í samtölum fulltrúa Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins undanfarna mánuði. Hugmyndirnar eru ekki fullmótaðar, en grunnhugsunin virðirst vera sú að lækka kostnað samfélagsins af örorku annars vegar en bæta um leið stöðu öryrkja. Fljótt á litið sýnist þetta tvennt vera ósamrýmanlegt en svo þarf ekki að vera.

Stærsti ágalli þess kerfis sem nú er við lýði er að endurhæfingarúrræði eru af alltof skornum skammti og atvinnuendurhæfing svo gott sem engin. Þeir sem verða fyrir alvarlegum slysum eða veikindum og meðfylgjandi örorku hafa ekki átt kost á annarri endurhæfingu en þeirri sem kann að gera þá sjálfbjarga til að annast um sjálfa sig. Hugmyndirnar um áfallatryggingasjóð verður því að skoða í samhengi við tillögur sem komu frá nefnd á vegum ríkisvaldsins, en í áliti nefndarinnar er komist að því að breyta skuli örorkumati þannig að í stað þess að meta örorku skuli metin starfsgeta.

Hvað þetta mun hafa í för með sér er ekki einfalt að átta sig á. Þó sýnist ljóst að hver sá sem í dag er metin 75% öryrki og talinn óvinnufær mun eftir svona breytingar, ef fram ná að ganga, verða talin hafa 25% starfsgetu og telst því ekki með öllu óvinnufær.

Til þess að svona breytingar laski ekki stöðu öryrkja er því mikilvægt að koma upp margfalt öflugri endurhæfingu en nú stendur til boða og hún verður að hefjast strax og hægt er eftir slys eða veikindi og standa óslitið þangað til sjúklingurinn hefur náð þeim bata og starfsorku sem möguleg er, því þá er til þess ætlast að öryrkinn leiti sér að vinnu. Það eitt er ekk einu sinni nóg - það verður að "halda utan um" þann sem verið er að endurhæfa og leiða hann í gegnum nýtt ferli, sem getur verið nám eða vinna á allt öðru sviði en viðkomandi vann á áður.

Atvinnurekendur og stjórnendur fyrirtækja hafa allt vald til að ráða og segja upp starfsmönnum sínum, síðasta orðið er hjá þeim. Þeir verða naumast skyldaðir til að taka í vinnu starfsmann með 25% starfsorku, ekki síst ef þeim stendur til boða annar með fulla starfsorku. Öryrkinn sem þannig háttar til um getur því hæglega lent á skelfilegum hrakhólum þar sem menn sýnast gera ráð fyrir því að lífeyrir hans yrði þá 75% (af hverju er mér ekki ljóst). Hér skiptir atvinnuástand og búseta öllu máli. Dragi verulega úr framboði á störfum frá því sem nú er getur auðveldlega farið svo að maður með 25% starfsgetu fái alls ekkert að gera, eins þótt hann sé allur af vilja gerður. Í annan stað skiptir búsetan miklu máli. Setjum okkur í spor sjómanns á Tálknafirði, sem yrði fyrir slysi. Eftir endurþjálfun lendir hann í því að fá alls enga vinnu í samræmi við starfsgetuna í sinni heimabyggð. Honum sýnast allar bjargir bannaðar nema að flytja þangað sem von er um atvinnu í samræmi við starfsgetuna, en á sjó fer hann aldrei aftur, einfaldlega vegna þess að enginn getur stundað sjómennsku nema vera vel á sig kominn. Hvað á hann að gera? Flytja frá verðlausum eignum á höfuðborgarsvæðið? Hvað kostar það og hver á að bera þann kostnað?

Öflug endurhæfing (sem hefði átt að standa til boða fyrir löngu) og ný skilgreining á örorku getur því vissulega lækkað kostnaðinn við örorkulífeyri með því að koma fleirum til hlutastarfa (vonandi sem flestum í fullt starf), dregið úr nýgengi örorku. Á hinn bóginn verður að gæta þess að ekki myndist gloppur þar sem misréttið eykst, sumir öryrkjar komist greiðlega í viðráðanlegt hlutastarf á meðan aðrir eiga þess engan kost.

Enda þótt áfallatryggingasjóður sé ekki hluti af þessari hugmynd (um að meta starfsgetu í stað örorku) vakna líka spurningar um áhrif hans. Grundvallarspurningin er auðvitað sú hvort aðilar vinnumarkaðarins geti samið sín í milli um víðtækar breytingar á velferðarkerfinu, þ.m.t. að færa hluta þess frá almannatryggingum yfir til sín. Þetta hlýtur að vera í hæsta máta flókið og verður naumast gert nema í samvinnu við ríksvald og Alþingi. Þar sem áfallatryggingasjóðurinn er enn á vinnslustigi er erfitt að staðhæfa neitt um hverju hann muni breyta, en talsverð hætta sýnist blasa við af sömu ástæðum og nefndar voru hér að framan. Formaður Öryrkjabandalagsins hefur látið þau orð falla að hér sé á ferðinni stærsta atlaga að almannatryggingakerfinu síðan því var komið á laggirnar. Þetta eru stór orð og ég fæ ekki séð að hann finni þeim örugglega stað, mér hefur þá a.m.k. sést yfir þau.

Fyrir því eru auðvitað mörg fordæmi að aðilar vinnumarkaðarins semji við ríkisvaldið um tilteknar lagabreytingar, til að bæta kjör launafólks eða bótaþega. Það ætti eins að vera hægt nú eins og áður. Á hinn bóginn þarf örugglega að fara varlega í að færa einhvern hluta almannatryggingakerfisisns yfir til aðila vinnumarkaðarins. Megin hugsun almannatrygginga byggir á því að ríki og sveitarfélög tryggi þegnunum lágmarkstekjur til að lifa af.

Því er sérstök ástæða til að hvetja verkalýðshreyfinguna til að fara varlega, því að þeir sem hér um ræðir eiga enga beina aðkomu að kjarasamningum og eru þolendur slysa eða alvarlegra veikinda, sem ekki aðeins leiðir til skertrar starfsorku heldur einnig minni lífsgæða. Því er hér í lokin bent á hugmynd sem er svona: Um leið og starfsgeta er metin eftir endurhæfingu og öryrkja úrskurðaðar bætur fái hann einnig eingreiðslu vegna skertra lífsgæða, greiðslu sem er nógu há til að gera viðkomandi kleift að búa í haginn í ljósi breyttra aðstæðna. Eins og nú er verður ekki séð að skert lífsgæði séu nokkurs metin, þvert á móti verða þolendurnir að una við skertar tekjur samhliða skertum lífsgæðum. Um slíkar greiðslur yrði að sjálfsögðu að setja reglur sem tryggðu bótaþegum þolanlegt jafnræði.

Að síðustu þetta: Gæti ekki verið skynsamlegt að taka þessar miklu breytingar í skrefum á nokkrum árum, byrja á því að stórefla starfs- og endurhæfingu og sjá hvort á þann hátt dragi ekki úr nýgengi örorku, taka til dæmis í þetta verkefni fimm ár og meta stöðuna að þeim loknum.

hágé.