Fara í efni

HERHVÖT HILDAR



Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 30/31.07.22.
Um miðjan júlí birtist hressilega herská grein í Morgunblaðinu. Yfirgangur skógræktarböðlanna var fyrirsögnin. Sennilega er það þetta sem átt er við þegar talað er um gagnsætt tungumál. Samt segir þetta ekki allt um boðskap höfundarins, Hildar Hermóðsdóttur. Við lestur greinarinnar kemur í ljós að því fer fjarri.

Best gæti ég trúað að henni sé ekkert sérlega í nöp við skógræktarfólk. Það hafi þó sannfæringu þótt umdeilanleg sé.

En hverjum er þá spjótum beint að? Það skyldi þó aldrei vera ég og þú? Fólkið sem með andvaraleysi og rolugangi, sem einhvern tímann var kallaður svo, lætur yfirgang gagnvart íslenskri náttúru viðgangast; lætur sér fátt um finnast þegar framandi ágengum trjágróðri er „plantað í valllendismóa sem gjörbreytir gróðurþekjunni, kæfir hinn fíngerða íslenska gróður, blóm og berjalyng og hrekur mófuglinn brott úr kjörlendi sínu.“

Og enn segir Hildur: „Þar sem plantað er meðfram vötnum og vegum hindra hávaxin tré brátt útsýni til fjalla og víðerna og víða munu fyrr en varir klettar, gil og lækir hverfa á kaf í trjágróður.“ Íslensk náttúra þurfi nú á vernd að halda gagnvart þeim sem telja öllu fórnandi til að kolefnisjafna og bjarga þar með heiminum. Árangurinn í þessu heimsstríði muni láta á sér standa segir Hildur Hermóðsdóttir en fórnarkostnaðurinn ekki. Hann sé þegar orðinn sýnilegur í bókhaldi náttúrunnar.

En hvar er þá herhvötin? Eftir að vekja athygli á andvaraleysi fjölmiðlafólks og náttúruverndarsamtaka lætur Hildur það skiljast að hnefinn þurfi að ganga í borðið: „Umhverfissamtök virðast láta sér fátt um finnast þrátt fyrir hið afdrifaríka inngrip í íslenska náttúru. Engin eða lítil umræða fer fram, málið aðeins skoðað og kynnt frá einni hlið, eins og reyndar er títt um íslensk þjóðfélagsmál. Er ekki tími til kominn að skoða þessar umfangsmiklu aðgerðir í víðara samhengi? Hví spyrja ekki fréttamenn ágengra spurninga? Hví láta ekki umhverfissamtök til sín taka? Hver er afstaða umhverfisráðherra?“
Þar til þessi umræða hafi farið fram eigi að setja öll meiriháttar skógræktaráform í biðstöðu þangað til ljóst sé orðið hver langtímaáhrif þeirra gætu orðið. Allir sem unna landinu eigi að krefjast þessa.
Þetta er með örðum orðum herhvötin: Vaknið.

Undir allt þetta vil ég taka. Mér finnst skógrækt reyndar sums staðar prýðileg og meira að segja mjög eftirsóknarverð en að sjálfsögðu aðeins þar sem hún á við. Og til að finna það út hvar hún eigi við þarf umræðu, kröftuga umræðu, því svarið snýst um tilfinningar og viðhorf þar sem sitt sýnist hverjum.
Fyrir hálfri öld var deilt um skógrækt og það hressilega. Fyrir braðgðið reyndum við öll að móta okkur skoðun. Það gerist jafnan þegar alvöru umræða fer fram og þjóðfélagið vakir fyrir bragðið.

Það er rétt hjá Hildi Hermóðsdóttur að nánast umræðulaust er verið að breyta ásýnd Íslands. Og ég vil bæta því við að það er ekki bara gert með trjágróðri heldur einnig vegakerfi sem á að verða svo fullkomið að enginn þurfi að slá af hámarkshraða á leiðinni frá Hellu til Reykjavíkur, sama skuli gilda um Vesturland og þetta sé bara byrjunin, fara verði allan hringinn í fjórbreiðu. Það er hægt að stytta akstur frá Hellu til Reylkavíkur um hálftíma, sagði þingmaður í útvarpsviðtali fyrir nokkrum dögum. Bara ef við höfum fjórar akreinar alla leið með mislægum gatnamótum. Þetta er það sem allir vilja bætti hann við.
Í hljóðstúdíói var enginn til andsvara. Engin Hildur að tala fyrir hönd þeirra sem vilja aðra ásýnd en hraðbrautarinnar; engin rödd að benda á að landið sem við kynnumst út um bílrúðu á fjögurra akreina hraðbraut, sums staðar enn fleiri eins og í Ölfusi, er ekki sama landið og við sjáum úr hægfara umferð á hóflegri vegum sem hlykkja sig eftir landinu. Þennan mun þekkja þau sem hafa ferðast um heiminn og reynt hvort tveggja.  
Það er rangt að „allir vilji þetta.“ Eflaust þó margir. Allir þeir sem gera þá kröfu eina að komast allt, alltaf og hindrunarlaust.
En fyrrnefndum þingmanni vil ég benda á að við erum mörg sem gefum ekkert fyrir hindrunarlaust vegakerfi ef það þýðir að tæta þurfi upp landið til að greiða fyrir hraðakstri svo allir komist í vinnuna hálf tíma fyrr en ella; við erum mörg sem höfnum himinháum fjárframlögum í vegi sem ættu að fara í skóla og heilbrigðisþjónustu. Svo er það náttúrlega mengunin. Á hún ekki að vera mál málanna? Eða er hún bara til að tala um?
Mótsagnir hrannast upp og vekja spurningar. Og vel að merkja. Út á það gekk herhvöt Hildar, að spyrja gagnrýnið og af alvöru.
Það er nefnilega hárrétt sem hún segir.  Það er verið að breyta Íslandi, hanna nýtt land.
En hönnuðirinir þurfa að koma víðar að en frá talsmönnum furunnar og bílsins.