Fara í efni

"HETJUHER Í ÞÁGU LÍFSINS"

Gengið til kirkju 1
Gengið til kirkju 1

Sjómannadagurinn er stór dagur á Íslandi. Hann er haldinn hátíðlegur um land allt með margvíslegum hætti. Sem innanríkisráðherra kem ég formlega að hatíðahöldunum með því að sækja hátíðlega minningarathöfn um látna sjómenn í Fossvogskikjugarði í Reykjavík. Þar stendur borðaklædd Landhelgisgæslan heiðursvörð, dómkirkjuprestur mælir blessunarorð og Hver á sér fegra föðurland ómar yndislegum tónum trompetsins út yfir Fossvoginn. Sérstaklega yljaði um hjartarætur að fulltrúar Færeyja - borgarstjórinn í Þórshöfn ásamt fulltrúum færeyskra sjómanna - skyldu hafa verið viðstaddir athöfnina og minnst látinna sjómnna með blómsveig.
Að lokinni athöfninni var haldið til kaffisamsætis í safnaðarheimili Dómkirkjunnar í boði Sjómannadagsráðs.  Síðan var gengið til kirkju þar sem biskup Íslands predikaði. Flutti hann mjög áhrifaríka predikun.  Biskup sagði meðal annars:
„Sjómannadagur er dagur minninga og fyrirbæna, og hátíð samstöðu og samhugar með þeim sem sækja sjó og fjölskyldum þeirra, sem og þeim sem vinna að hagsmunum sjómanna, umfram allt slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands. Þar er sannkallaður hetjuher í þágu lífsins.  Sjómannadagur er þakkarsveigur þjóðar, þakkarsveigur og virðingar.  Við erum háð hafinu og því sem það gefur. Já, og í því sem tengist sjó, sjósókn og glímunni við Ægi, liggja rætur sjálfsmyndar, auðs og ákvörðunar þjóðarinnar. Sjómannadagur er mikilvæg áminning um þá staðreynd."

Um gengið á menningarverðmætunum

Biskup gerði að umtalsefni hve mikilvægt væri að varðveita og gæða lífi í samtímanum það besta úr meningararfleifð okkar. Sorglegt væri ef gleymt væri, týnt og glatað "allt sem best og fegurst var ort og tjáð, kennt og numið:  trúin, vonin og kærleikurinn. Þá væri þjóðarskútan á grunn gengin, þjóðin komin á vonarvöl.  Af því að styrkur þjóðar felst ekki í veraldarauði og valdi, yfirburðum tækni og véla, heldur í skaphöfn og innræti einstaklinganna sem þjóðina mynda, dyggðum, göfgi, aga og andlegu atgervi. Gjaldmiðill okkar í þeim efnum virðist um þessar mundir æði veikburða og laskaður, því miður, við höfum um of lotið að því lága og ljóta, og því sem kitlar lægstu hvatir, og því er þjóðarsálin íslenska í háska stödd. Við þurfum ný og skýr viðmið, annað gengi á meginverðmætum. Ég er ekki í vafa um í hverju  þau viðmið og verðmæti eru fólgin. Það er trúin sem  hefur mótað og nært hið besta og fegursta í menningu okkar og samfélagi, og er enn hamingjuleið og heilla einstaklingum og þjóð."

Og þar hvíldi höndin...

Mér þótti við hæfi þegar biskup stanæmdist við óeigingjörn störf björgunarsveitanmna: "Og margvíslegir eru þeir englarnir sem Guð sendir til verndar og bjargar. Hann lýsti því hollenski ferðamaðurinn sem hrapaði við Dyrhólaey. Þegar   björgunarmaðurinn birtist og lagði hönd sína á öxl hans og þar hvíldi hún, þessi trausta, hughreystandi hönd. Svona sögur eru alltaf að gerast, og mikið eiga margir mikið að þakka vökulum, styrkum, viðbragðsskjótum og hjartahlýjum björgunarmönnum og gæslumönnum. Svo má ekki gleyma tæknibúnaði og margvíslegum öryggisbúnaði, sem er óumræðileg blessun. En búnaður og tækni er ekki einhlítt. Það er styrkur mannsins, líkamlegt og andlegt atgervi og hjartalag sem úrslitum veldur."
Minnisvarði
Við minnisvarða íslenskra sjómanna í Fossvogskirkjugarði. Meðal viðstaddra voru auk undirritaðs Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu, Þórunn J. Hafstein skrifstofustjóri, Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.
Gengið til kirkju 2
Gengið til messu í Dómkirkjunni.

Umfjöllun Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28089