Fara í efni

HIÐ ÓSAGÐA Á ALÞINGI

Þingsalur 2
Þingsalur 2

Nú þykir mikilvægt að fá því framgengt á Alþingi að tryggt verði að mál sem ekki fást afgreidd á einu þingi fái að lifa til næsta þings þannig að ekki verði nauðsynlegt að endurvekja þau í þingsal.

Kostirnir við þetta yrðu þeir að líkur væru á því að á endanum fengist sérhvert mál afgreitt með atkvæðagreiðslu. Það væri í sjálfu sér góðra gjalda vert því þingmenn væru með þessu móti knúðir til þess að taka afstöðu til allra þeirra þingmála sem fram væru lögð á Alþingi.

Á þessu eru þó fleiri hliðar en ein.

Iðulega leggja þingmen fram mál sem þeir vita að njóta ekki stuðnings meirihluta í þinginu eða úti í þjóðfélaginu. Þingmálið er hins vegar lagt fram til þess fyrst og fremst að skapa umræðu og reyna með því móti að afla málefninu fylgis. Út á þetta ganga þingstörfin að einhverju leyti, nefnilega að nýta Alþingi sem umræðuvettvang um málefni sem þingmenn telja brýnt að nái eyrum samfélagsins.

Við þessar aðstæður þykir þingmönnum ekki verra að fá tækifæri á hverju þingi til að efna til málfundar um slík pólitísk hugðarefni sín. Sofni mál af þessu tagi hins vegar ekki í nefnd í lok hvers þings eins og nú er raunin, þyrfti ekki lengur að endurvekja þau í þingbyrjun að hausti með nýrri umræðu.

Þetta vita margir þingmenn en heykjast á að segja upphátt því hver vill viðurkenna að hann trúi því ekki að hans mál njóti ekki stuðnings þingsins þegar til kastanna kemur og allar hinar brilljant ræður hafa verið fluttar því til stuðnings.