Fara í efni

HIÐ ÞRÖNGA OG HIÐ VÍÐA SJÓNARHORN

ein -vidsyn
ein -vidsyn

Þessa dagana er mikið fjallað um peningamál/gjaldmiðlamál og efnahagsmál almennt í ljósi þeirrar kreppu sem nú gerir usla víða um lönd, ekki síst í Evrópu.

Hið einfalda...


Íslendingar hafa heldur betur fengið að kynnast hruni fjármálakerfis. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ sagði í RÚV á föstudag að íslenskt launafólk hefði getað staðist hrunið ef við hefðum haft sterkan gjaldmiðil. Með öðrum orðum, þótt bankakerfið (og þá væntanlega einnig lífeyrisskerfið) hryndi,  þá væri hagur launafólks tryggur svo lengi sem gjaldmiðillinn væri traustur!  Og Gylfi og Ólafur Darri, hagfræðingur ASÍ, hömruðu síðan saman á því að evran væri lausnarorðið. Undarleg tímasetning miðað við hvernig komið er fyrir evrunni! Þar fyrir utan virðist sjónarhorn þeirra ASÍ manna æði þröngt, alla vega borið saman við sýn Nóbelsverðlaunahafans í hagfræði Josephs Stieglitz.

...og hið flókna


Þannig sýnir Joseph Stieglitz fram á samhengi óhóflegrar skuldsetningar á einkamarkaði  annars vegar og klyfja sem af þessum sökum hlaðast á ríkissjóði innan Evrópusambandsins hins vegar og tiltekur þar sérstaklega Írland og Spán þar sem allt efnahagskerfið - þar á meðal að sjálfsögðu launafólk - hefur orðið fyrir ómældum skakkaföllum af völdum kreppu. Stieglitz segir að fólk geti náttúrlega flúið afleiðingar kreppunnar, þar á meðal skuldbindingar hins opinbera, líkt og fólk getur hér á landi flust úr skuldsettum byggðarlögum. Hann segir: „Frjálst flæði vinnuafls þýðir ...að einstaklingar geta einfaldlega valið hvort þeir vilji greiða skuldir foreldra sinna eða ekki. Ungir Írar geta sloppið við að greiða skuldbindingarnar sem ríkisstjórnir þeirra tóku á sig til að bjarga bönkum með því einfaldlega að flytja úr landi. Búferlaflutningur er talinn vera til góða, þar sem vinnuaflið fer þangað sem það nýtist best."
Hvað þá með Bandaríkin sem búa við sameiginlegan gjaldmiðil og frjálst flæði peninga og vinnuafls? Jú, fólk getur flust milli fylkja sem þá grefur undan því svæði sem flutt er frá, nokkuð sem alríkissstjórnin í Washington getur mætt með millifærslum, „union transfer", en það segir Stieglitz vera eitur í beinum Þjóðverja og fleiri innan Evrópusambandsins. Það er vandinn segir hann, Evrópusambandið skorti vilja og hafi auk þess ekki yfir að ráða þeim tækjum sem þurfi til að bregðast við kreppum, þ.e. sameiginlegum stýrivöxtum eða gengisfellingum. Hitt geti þá gerst að innri gengisfelling eigi sér stað.

Hvernig bjarga megi sjálfum bjargvættinum


Mjög athyglisverða grein eftir Stieglitz er að finna  um þetta efni á vef Landsbankans. Greinin heitir „Hvernig má bjarga evrunni?" - hinni sömu evru og framangreindir Gylfi og Ólafur Darri telja allra meina bót.: http://umraedan.landsbankinn.is/skodun/2011/12/09/Hvernig-ma-bjarga-evrunni