Himinlifandi Ásta
Í morgun var ég í þætti Þorfinns Ómarssonar ásamt þeim Bryndísi Hlöðversdóttur þingmanni Samfylkingarinnar og Ástu Möller varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins. Það vakti athygli að Ásta lék við hvern sinn fingur. Ekki svo að skilja að hún sé ekki lífsglöð manneskja, en greinilegt var að nú var sérstakt tilefni til að gleðjast. Ásta Möller hefur nefnilega verið helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins varðandi markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og greinilegt var að þeir tónar sem borist höfðu á öldum ljósvakans og í morgunblöðunum frá landsfundi Samfylkingarinnar kættu hana mjög. Össsur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar boðaði sem kunnugt er stefnubreytingu flokksins í heilbrigðismálum en hingað til hefur Samfylkingin sagst vera andvíg markaðsvæðingu innan velferðarþjónustunnar. Öll munum við eftir daðri Sighvats Björgvinssonar við markaðshyggjuna í byrjun tíunda áratugarins og tilraunum þá til að innræta sjúku fólki svokallaða kostnaðarvitund. Sjúklingur með kostnaðarvitund var vel meðvitaður um hvað hann kostaði skattborgarann. Ekki mjög geðsleg hugsun enda ekki haldið fram af krötum í seinni tíð. Nú bregður hins vegar svo við að Samfylkingin tekur undir með Verslunarráði Íslands sem haldið hefur uppi stöðugum kröfum fjárfesta, sem ólmir vilja græða á sjúku og öldruðu fólki. Ekki set ég Ástu Möller og hennar líka undir þá regnhlíf. Ásta er hjúkrunarfræðingur sem jafnframt trúir á markaðslögmálin. Ekki er neina gróðaglýju að sjá í augum hennar. En skyldi hún og skoðanasystkini hennar í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni hafa íhugað hvar þeirra vegferð endar? Össur segist ætla að beita sér fyrir ítarlegri rannsókn á því. Mér skilst að til standi að gefa út bók þegar búið er að kanna málið. Hefði ekki verið nær að byrja á því að kanna málið og taka afstöðu í ljósi þeirra niðurstaðna sem fengjust? Um þá niðurstöðu mætti þess vegna gefa út bók.
Staðreyndin er hins vegar sú að um einkavæðingu og einkaframkvæmd í velferðarþjónustunni hafa verið gefnar út ótal rannsóknarskýrslur. Þær segja okkur að reynslan af þessum kerfisbreytingum sé hörmuleg: kostnaðarsamara og ranglátara kerfi. Viljum við það?