HJÁ DÓMARAFÉLAGI ÍSLANDS
Dómarafélag Íslands bauð mér að ávarpa aðalfund félagsins sem formaður Stjórnskipunar- og eftirliitsnefndar Alþingis. Fundurinn var haldinn í Þjóðmenningarhúsinu. Formaður félagsins, Skúli Magnússon, setti fundinn og flutti athyglisverða ræðu um dómskerfið og boðaðar breytingar á því. Horfði hann þar einkum til fyrirhugaðs millidómstigs. Hvatti hann til vandaðra vinnubragða og að þær breytingar á kerfinu sem ráðist yrði í þyrfti að hugsa alveg til enda og tryggja með nægilegu fjármagni að þær yrðu raunverulega til góðs. Ella væri betra heima setið.
Innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, tók í reynd undir með Skúla Magnússyni að þessu leyti. Fór hún mjög vel yfir sviðið og reifaði ýmis álitamál sem þyrfti að gaumgæfa. Sagði hún að millidómstig ætti að geta orðið að veruleika á árinu 2018 en setti þó skýra fyrirvara á fyrrgreindum forsendum. (sjá nánar: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/styrking-domskerfisins-med-millidomstigi-og-oflugri-stjornsyslu-er-forgangsmal)
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands flutti ræðu sem mér þótti bæði skemmtileg og vekjandi. Hann talaði fyrir sjálfstæði dómskerfisins, það mætti aldrei þjóna löggjafanunum eða tíðarandanum. Um þetta leyfði ég mér að efast innra með mér án þess þó að vera viss í minni sök! Sagði ég við Reimar að loknu erindi hans að mig langaði nú í fimm tíma málstofu um boðskap hans!
Ég kunni að meta hve eindregið hann talaði fyrir mildi í dómum og vitnaði í ýmsa heimspekinga máli sínu til stuðnings. Nietzsche hefði jú sagt að í baráttunni við skrímslin yrðum við að gæta okkar á því að verða ekki sjálf að skrímslum. Og svo lengi gætum við rýnt niður í svartnættis-hyldýpið að svartnættið næði tökum á okkur.
Erindi mitt náði ekki þessari dýpt en er eftirfarandi:
„Ég vil færa Dómarafélagi Íslands þakkir fyrir að bjóða mér sem formanni Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til þessa fundar. Þennan virðingarvott við nefndina ber að þakka og virða en hann speglar jafnframt víðan sjóndeildarhring Dómarafélagsins, þann ásetning þess að láta ekki sitja við það eitt að horfa innávið, til þeirra sem fara með dómsvaldið, heldur einnig til hinna tveggja þátta ríkisvaldsins, það er löggjafans og framkvæmdavaldsins en auk fulltrúa Alþingis ávarpar hér einnig ráðherra dómsmála.
Allir þessir þrír þættir ríkisvaldsins þurfa vissulega að vera vel meðvitaðir hver um annan, hafa skilning á stöðu hvers um sig og mikilvægi samspilsins þeirra á milli.
Í seinni tíð hefur gustað nokkuð um þessar grunnstoðir lýðræðisins og má rekja það til þeirra þjóðfélagshræringa sem urðu í tengslum við efnahagshrunið og afleiðingar þess. Þá urðu til hundruð ef ekki nokkur þúsund nýir lögfræðingar í landinu, héldu oft til á Austurvelli, að vísu án prófs en fullir sjálfsöryggis og vissu um að þeirra sýn á málin væri nokkurs virði. Þetta byltingarkennda andrúmsloft var að mörgu leyti hressandi. En það er líka eldfimt eins og dæmin sanna.
Þannig nýtur Alþingi minna trausts en við flest vildum og dómstólarnir eru engan veginn lausir við gagnrýni. Ekki svo að skilja að Alþingi og dómstólar eigi að vera hafnir yfir gagnrýni. En þessar grundvallarstofnanir lýðræðisþjóðfélagsins þurfa hins vegar að njóta trausts og virðingar og sú virðing þarf að vera verðskulduð.
Alþingi er að taka sig á að ýmsu leyti. Rannsóknarskýrslur sem unnar hafa verið á vegum þingsins bera þessu vott. Ábendingum sem þar hafa komið fram er smám saman fundinn farvegur inn í þingsköpin og sama gildir um hvers kyns formfestu í vinnubrögðum. Skýrslur Ríkisendurskoðunar og Umboðsmanns Alþingis eru teknar alvarlega og á ýmsum sviðum eru teikn um að framkvæmdavaldið sé einnig að bæta sig hvað alla formfestu áhrærir. Víða er þó langt í land.
Formfesta er mikilvæg. Hún auðveldar markviss vinnubrögð, er forsenda gangsæis og í ríki þar sem formgalla-réttarfarið gerist sífellt fyrirferðameira er grundvallaratriði að löggjafinn og stjórnsýslan bregðist ekki hvað form og formfestu áhrærir. Ekki þykir mér framtíðarsýnin eftirsóknarverð ef réttarfarsþróun hér á landi gengur miklu lengra í þessa átt enda getur tiltrú á dómstólana beðið hnekki ef fólk fær þá tilfinningu að réttlætið skipti minna máli en formið. Glæpur sem öllum er augljós verði látinn óátalinn því formgallar á einhverju stigi valdi því að réttlætið nái ekki fram að ganga.
Svarið við þessu er aukin árvekni innan stjórnsýslunnar og af hálfu löggjafans um óðafinnanleg vinnubrögð og gæði lagasetningar. Ef til vill þarf réttarkerfið og þeir sem þar starfa að einhverju leyti einnig að horfa í eigin barm hvað þetta varðar.
þessar vikurnar rýnir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skýrslu Umboðsmanns Alþingis með tilliti til hugsanlegra brotalama í lagaumgjörð og framkvæmd innan stjórnsýslunnar. Nefni ég ekki einstök dæmi sem eru til skoðunar en þau eru nokkur.
Opinská og málefnaleg gagnrýni er okkur öllum mikilvæg.
Mín skoðun er sú að dómstólarnir kunni að gjalda fyrir vantrú fólks á því að staðið sé eðlilega að skipan dómara. Ég tel að þarna þurfi endurskoðunar við. Í fyrsta lagi höfum við brugðist í því að taka tillit til kynjasjónarmiða. Sjálfur er ég andvígur kynjakvótum en lágmark hefði verið af hálfu þeirra aðila sem skipa í hæfnisnefnd um embætti dómara að gæta þar kynjajafnræðis. Þar hefur þingið brugðist og einnig Dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands en þessir aðilar allir virtu ítrekað að vettugi allar óskir af hálfu ráðherra dómsmála um að hafa hliðsjón af kynjasjónarmiðum. Þetta þekki ég því ég var ráðherrann sem setti slíkar óskir fram.
Annað sem veldur því að fólk hefur vantrú á skipan í dómarastöður er hve náin tengsl virðast vera á milli dómstólanna sjálfra og þeirra sem tilnefna. Þykjast menn jafnvel greina klíkumyndun. Ekkert skal ég fullyrða um slíkt. En spurningin snýst ekki aðeins um það hvort rétt er. Hitt skiptir ekki síður máli hver tilfinning almennings er því hún ræður trausti fólks á dómstólunum.
Fyrr á tíð var framkvæmdavaldið einrátt um skipan dómara. Ekki þótti það æskileg skipan mála og var þá horfið til þess fyrirkomulegs sem við nú búum við. Ég tel að þetta þurfi að endurskoða á nýjan leik og að þarna þurfi að finna heppilegt samspil fagmannlegra áhrifa og lýðræðislegrar aðkomu Alþingis, hugsanlega með auknum meirihluta.
Eitt vil ég nefna sem framfaraspor og það er vinna endurupptökunefndar sem gerir kleift að taka upp fyrri dómsmál. Guðmundar- og Geirfinnsmál eru nú til skoðunar hjá þessari nefnd sem kunnugt er. Lengi hefur það viðhorf verið ríkjandi í þóðfélaginu að dómar í þessu máli hafi verið kveðnir upp á röngum forsendum. Ítarleg rannsókn á vegum Innanríkisráðuneytisins bendir og til þess að svo hafi verið. Kerfi sem ekki getur leiðrétt hugsanleg mistök grefur undan eigin trausti.
Gagnrýni á dómskerfið úr heimi stjórnmálanna og þess vegna á einstaka dóma, er eðlileg og ekkert við hana að athuga svo lengi sem hún er sanngjörn og málefnaleg. Sem þáverandi ráðherra gagnrýndi ég harkalega úrskurð Hæstaréttar í janúar 2011 um ólögmæti Stjórnlagaþingskosninga. Fannst þá og finnst það enn vera svartur blettur á réttarkerfinu. Það breytir því ekki og breytti því ekki á sínum tíma að ég virti niðurstöðuna og þeim sem voru ósáttir við þá afstöðu mína á þeim tíma úr mínum eigin pólitíska ranni, sagði ég og segi enn: Kerfin bætum við með málefnalegri gagnrýni en ekki síður með því að sýna þeim virðingu og taka þau alvarlega.
Að lokum vil ég segja að ég hef trú á íslenska réttarkefinu og ber virðingu fyrir því. Þrátt fyrir alla gagnrýni á skipan í dómstólana er mannval þar gott. Íslenskir dómararar eiga lof og virðingu skilið. Því fyrir henni er full innistæða."