Fara í efni

HLUTHAFA TILKYNNT UM ARÐ

Fyrir nokkru síðan færði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mér að gjöf hlutabréf í Landsbankanum hf. Hlutabréfið var upp á 300 krónur og sagði Pétur að hér eftir gæti ég ekki talað um braskarana á hlutabréfamarkaði án þess að horfa í eigin barm, og minnast þess að ég væri sjálfur í þessum hópi. Handhafi hlutafjár í Landsbankanum hf hlyti að gæta hófs í yfirlýsingum sínum. Margir höfðu lúmskt gaman af þessu uppátæki Péturs H. Blöndals. Þó held ég að flestum finnist innst inni að öfgarnar í fjármálalífinu sé að finna í veruleikanum en ekki í því sem sagt er um þann veruleika. Hvað um það, með reglulegu millibili fæ ég tilkynningar frá Landsbankanum hf um aðskiljanlega hluti sem tengjast hag okkar braskaranna, hvort við séum ekki sáttir við að fara yfir á rafrænt form og svo framvegis.

Síðan er það náttúrulega arðurinn. Þá er nú hátíð í bæ þegar tilkynnt er um hann. Okkur hluthöfum Landsbankans hf var kynnt þetta bréflega 9. mars. Í bréfinu til mín sagði að hlutafjáreign mín hafi verið "í lok dags þann 4. febrúar sl. að nafnvirði kr. 300. Arður af nafnverðseign þinni er kr. 60. Fjárhæðin, eftir að 10% fjármagnstekjuskattur hefur verið dreginn frá , er kr.54 og hefur sú fjárhæð verið lögð inn á reikning ..."

Þessi arðgreiðsla hefur orðið mér umhugsunarefni. Hvorki verður mikið gert fyrir 300 krónur né 60 krónur. En bætum nokkrum núllum aftan við þessar upphæðir þá eru peningarnir farnir að skila sínu. Einhvers staðar eru hendurnar sem tóku á móti eitt þúsund sex hundruð og tuttugu milljónum króna (1.620.000.000)  sem Landsbankinn hf tilkynnti 9. mars að greiddar yrðu út sem arður. Flestir eiga hluthafarnir án efa meira en 300 króna bréf. Þetta eru sérstakir skjólstæðingar ríkisstjórnarinnar. Eins og fram kemur í bréfinu sem vitnað var í hér að framan lætur hún okkur borga lítinn 10% skatt, launamenn næstum fjórum sinnum meira.

Þannig hefur hlutabréfið sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins færði mér að gjöf orðið til að minna mig á þann veruleika sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt þátt í að skapa á Íslandi á undanförnum árum, fyrst með aðstoð Alþýðuflokksins sáluga og síðan Framsóknarflokksins.