HLÝTUR ÞETTA ÞÁ EKKI AÐ VERA GAGNKVÆMT BOGI NILS OG FÉLAGAR?
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sagðist í sjónvarpsviðtali á miðvikudag “aldrei sjálfur” hafa verið “hrifinn af miklum ríkisafskiptum.”
Þessi orð lét hann falla á sama tíma og hann leitar aðstoðar ríkisins til að tryggja félaginu framhaldslíf.
Daginn eftir mætti svo samgönguráðherrann í sama sjónvarpssett og sagði þennan forstjóra hafa viðskiptaáætlun sem væri mjög sannfærandi.
Að flugfélag skuli við núverandi aðstæður vera talið búa yfir viðskiptaáætlun sem sé mjög sannfærandi er út af fyrir sig ekki mjög traustvekjandi, hvorki af hálfu forstjóra né ráðherra.
Ef Íslendingar telja sig þurfa að eiga flugfélag, það sé hluti af grunn innviðum samfélagsins, þá verður svo að vera og ganga alla leið. Spurningin er hvernig það skuli gert, stofna Flugfélag Íslands frá grunni, hugsanlega í samstarfi við lífeyrissjóðina eða að stíga inn í núverandi Icelandair. Þarna þarf skarpa hagsmunagreiningu af hálfu ríkisins og lífeyrissjóðanna.
Áform fjárfestanna í Icelandair eru að öllum líkindum þau að fá vilyrði fyrir ríkisstuðningi, sem verði víkjandi a la Vaðlaheiðargöng, bjóða síðan út aukið hlutafé. Allir í góðum málum nema þá kannski skattgreiðendur.
Þorra starfsmanna Icelandair hefur nú verið sagt upp störfum svo ríkið taki á sig launagreiðslurnar í uppsagnarfresti og má spyrja hvort búa megi svo um hnúta að stimpla þennan ríkisstuðning að einhverju marki sem eignarhlut í fyrirtækinu – því verði það reist við má fyrr en síðar hefja endirráðningu.
Telji forstjórinn aðkomu ríkisins ekki eftirsóknarverða þá hlýtur ríkið að sama skapi að spyrja sjálft sig sömu spurningar um hverja það vilji hafa við stjórnvölinn fari svo að ríkisstuðningur verði fram reiddur í einhverju formi. Maður skyldi ætla að gagnkvæm virðing yrði að vera fyrir hendi.
Hvers vegna skyldi almenningur vilja hafa við stýrið fólk sem er andsnúið aðkomu samfélagsins að rekstrinum nema til að hafa gott af?
Með innkomu ríkisins þyrfti að taka allt til endurmats og þá ekki síst hin frábæru viðskiptamódel sem öllu eiga að bjarga og nótabene áttu öllu að bjarga en gerðu ekki – löngu fyrir kórónavírusinn.
Fyrsta sem þyrfti að endurskoða er þenslumódelið sem flugreksturinn hefur verið byggður á. Það módel gengur út á það að taka þenslu opnum örmum og jafnframt stuðla að þenslu sem frekast má vera.
Þetta á að vera liðin tíð – segir móðir jörð og þar með skynsemin.