HÖRÐUR VILJHJÁLMSSON KVADDUR
Minningarstundin í Garðakirkju á Álftanesi þriðjudaginn tuttugasta og annan nóvember síðastliðinn var í fullkomnu samræmi við þann mann sem þar var minnst. Þetta var Hörður Vilhjálmsson, fyrrum fjármálastjóri Ríkisútvarpsins með meiru. Reyndar mörgu meiru því hann átti að baki farsælan feril sem stjórnandi og ábyrgðarmaður víða í atvinnulífinu þegar hann gerðist fjármálastjóri Ríkisútvarpsins undir lok áttunda áratugarins.
Þá var þar útvarpsstjóri Andrés Björnsson tengdafaðir minn. Með þeim tókst þegar gott samstarf og síðar mikil og og góð vinátta. Ég var á þessum árum um nokkurra ára skeið formaður Starfsmannafélags Sjónvarps og sat sem slíkur í framkvæmdastjórn stofnunarinnar þar sem þeir voru að sjálfsögðu einnig útvarpsstjórinn og fjármálastjórinn. Náin samvinna þeirra var öllum augljós, fullkomið traust og gagnkvæm virðing.
Á þessum árum voru nokkrar róstur innan hreyfingar opinberra starfsmanna, faghópar brutust út úr blönduðum starfmannafélögum, gengu úr Bandalagi starfsmanna ríkisins, BSRB, og í raðir háskólamenntaðra starfsmanna, BHMR. Þetta gerðist einnig í Sjónvarpinu þar sem mín starfsstétt, fréttamenn, vildi nú láta líta á sig sem háskólaborgara. Þessu var ég mjög andvígur og hreyfði mig hvergi þegar þetta kall kom. Sat ég því eftir í mínu blandaða félagi.
Fjármálaráðuneytið kunni þessu illa, vildi hafa allt straumlínulagað sem kannski von var. Var mér nú sagt að hafa vistaskipti. Þegar ég ekki hlýddi því var þess gætt að ég fylgdi ekki launaþróun hins menntaða manns – þótt ég hefði menntunina til að bera ekki síður en aðrir kollegar mínir.
Svona gekk þetta fyrir sig um allangt skeið, sennilega um tvör ár. Aldrei hafði ég orð á þessu þótt ég væri orðinn launalægstur allra fréttamanna á Ríkisútvarpinu.
Það gerði hins vegar fjármálastjórinn. Þegar Hörður um síðir varð þessa var brást hann hart við og sagði þeim í Arnarhváli að þetta væri nokkuð sem hann tæki ekki í mál, ranglæti sem hann ætlaðist til að yrði lagað þegar í stað. Varð sú niðurstaðan.
Þessi litla dæmisaga er einmitt það; dæmisaga um störf Harðar Vilhjálmssonar, dæmi um að hann þoldi ekki ranglæti og hitt að þegar hann beitti sér þá var á hann hlustað. Orð þessa hægláta manns vógu nefnilega þungt. Aldrei fylgdi honum hávaði en þeim mun meiri var þunginn í orðum hins réttsýna hógværa manns.
Og þannig var þessi minningarathöfn í Garðakirkju, falleg og hógvær. Séra Hjálmar Jónsson messaði, rakti lífshlaup Harðar og vitnaði í kveðskap hans sem var meiri en ég hafði gert mér grein fyrir og las jafnframt ljóð eftir dótturson Harðar sem greinilega hafði erft skáldagáfu afa síns.
Þau Hörður og kona hans Hólmfríður Friðbjörnsdóttir voru samhent hjón. Þannig höfðu þau jafnan birst mér. Á þessum tíma árs, á aðventunni komu þau jafnan færandi hendi á heimili tengdaforeldra minna. Þetta gerðu þau einnig eftir andlát Andrésar tengdaföður míns. Tengdamóðir mín, Margrét Helga Vilhjálmsdóttir, kvaðst alltaf hlakka til þess að fá þau í heimsókn, þeim fylgdi andi jólanna. Jólaheimsóknin brást aldrei svo lengi sem hún lifði.
Og það veit ég að svo lengi sem fjölskylda tendaforeldra minna lifir mun hún minnast þessara einstöku hjóna, Harðar og Hólmfríðar með virðingu og hlýju.
Forystumenn Ríkisútvarpsins við opnun Rásar tvö árið 1983. Frá vinstri Markús Á. Einarsson formaður Útvarpsráðs, Hörður Vilhjálmsson, fjármálastjóri Ríkisútvarpsins, þá framkvæmdastjórinn Guðmundur Jónsson og loks Andrés Björnsson útvarpsstjóri.