Horfa kvótakóngar til orkugeirans?
Birtist í Morgunblaðinu 21.12.2002
Síðasta mál á dagskrá Alþingis fyrir þinglok var heimild til þess að breyta Norðurorku í hlutafélag, minni háttar mál að sögn iðnaðarráðherra og í ofanálag samkvæmt beiðni heimamanna á Akureyri. Undir þetta tóku þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Þingmenn VG vildu hins vegar efna til umræðu um málið. Enginn stjórnarsinni treysti sér til að taka þátt í þeirri umræðu af málefnalegri alvöru. En hvað sögðu þingmenn VG?
Í fyrsta lagi var bent á að skipulag raforkumála bæri að skoða heildstætt og með hagsmuni þjóðarinnar allrar í huga, að áður en ráðist væri í skipulagsbreytingar af þessu tagi þyrfti að liggja fyrir fastmótuð framtíðarsýn í orkumálum landsmanna. Fyrir þinginu liggja órædd drög að nýju raforkulagafrumvarpi og einnig er órædd framtíðarsýn í vatnsveitumálum. Enginn stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar vék orði að þessum frumvörpum, enda nýframkomin.
Í öðru lagi þarf að ræða hvort heppilegt sé að stoðkerfi samfélagsins á borð við orkuveitur, að ekki sé minnst á vatnsveitur, séu settar á markað. Í því samhengi þarf að kanna reynslu annarra þjóða – og reyndar okkar eigin líka. Þannig er rétt að spyrja hvort það veki engar óþægilegar minningar fréttirnar af braskinu með fjármuni Landssímans þegar menn nú berja augum í frumvarpi um Norðurorku opna heimild til að ráðast í hvers kyns "viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni." Stjórnendur hlutafélagsins Landssímans töpuðu hundruðum milljóna króna á hlutabréfabraski; köstuðu út um gluggann almannafé eins og ekkert væri sjálfsagðara. Var það ekki Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarefndar, sem fórnaði höndum af þessu tilefni og sagði að það hefði aldrei verið meiningin að gera Landssímann að braskbúllu?
Hvað þessum þætti viðvíkur – þ.e.a.s. rekstrarforminu - má segja að stjórnarliðar hafi sýnt vott af lífsmarki í umræðunum og telst það sannast sagna til frétta. Björn Bjarnason staðhæfði að hlutafélagsformið hentaði þessum rekstri vel og það væri á ábyrgð stjórnvalda að skapa starfseminni eins ákjósanlegt lagaumhverfi og kostur er. Þetta innlegg stjórnarsinna hefði verið fagnaðarefni ef vilji hefði verið til að rökstyðja staðhæfinguna eftir að hún hafði verið véfengd með veigamiklum rökum.
Í fyrsta lagi var bent á að unnt væri að veita orkufyrirtækjum allt það svigrúm sem þau þurfa á að halda innan byggðasamlagsformsins eða sameignarfélagsformsins. Í öðru lagi hafi það sýnt sig að hlutafélagsformið sé afar slæmt rekstrarform frá sjónarhóli samfélagsins; eigendur hlutafélaga séu ekki áreiðanlegir bakhjarlar og að verðlagsþróun í einkavæddum hlutafélögum komi neytendum í koll þegar til lengri tíma sé litið. Í þessu sambandi er rétt að leggja áherslu á að hugsa þarf til langs tíma og með það í huga að raunverulegur hlutabréfamarkaður verði notaður en til þess er leikurinn með hlutafélagavæðingu almenningsfyrirtækja að sjálfsögðu gerður. Nánari rök fyrir þessu eru eftirfarandi:
Eðli málsins samkvæmt sækja hlutafjáreigendur fyrst og fremst í fjárfestingar sem gefa mestan arð. Það hefur í för með sér að þeir eru ótryggir bakhjarlar. Nýleg dæmi um þetta er franski eða öllu heldur fjölþjóðlegi risinn Vivendi Universal. Hlutabréf í því fyrrirtæki sem er eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heimsins hafa á einu ári fallið um 80%. Ástæðuna má ekki hvað síst rekja til mjög glannalegra fjárfestinga sem fyrirtækið réðst í undir stjórn forstjóra þess til sex ára, Jean-Marie Messier, en undir hans leiðsögn varð Vivendi að öðru stærsta fjölmiðlunarfyrirtæki heims! Franskar fjármálastofnanir þurftu að grípa til sérstakra aðgerða til að draga úr söluæði sem greip um sig í tengslum við skuldakreppu Vivendi.
Eitt stærsta orkufyrirtæki Bretlands, British Energy, sem framleiðir og selur 25% rafmagns í Bretlandi hefur að undanförnu ítrekað sent út viðvörun um að án frekari aðstoðar frá opinberum aðilum stefni í gjaldþrot fyrirtækisins. Hlutabréf í fyrirtækinu kolféllu í september sl. Þetta gerðist þrátt fyrir neyðaraðstoð bresku ríkisstjórnarinnar að upphæð 410 milljónum breskra punda sem veitt var til endurskipulagningar á fjármálum fyrirtækisins. Markaðsvirði hlutafjárins er komið niður í 173,8 milljónir punda, samanborið við rúmar 2000 milljónir punda fyrir ári síðan. Þannig hefur verðgildi hlutabréfa fallið um 91% á einu ári og aldrei verið lægra í sögu fyrirtækisins. Fulltrúi stofnunar sem á hlutabréf í British Energy lét hafa eftir sér að ríkisstjórnin hafi með fjárstyrk sínum bjargað fyrirtækinu tímabundið frá gjaldþroti. Eftir sé hins vegar að finna svar við þeirri grundvallarspurningu hvað verða megi fyrirtækinu til bjargar til framtíðar litið en það tapi nú á framleiðslu rafmagns. Með öðrum orðum, þegar mest þarf á að halda hlaupa hlutafjáreigendur á brott.
Varðandi orkuverð er t.a.m. fróðlegt að líta á umfjöllun í norska Dagblaðinu frá 22. september en þar var sýnt fram á að markaðsvæðing hafi sprengt upp raforkuverð í Noregi. Vitnað er í talsmann norska Neytendaráðsins, Per Anders Stalheim. Hann segir að norsk raforkufyrirtæki raki saman milljörðum. Hagnaðurinn í rafmagnsgeiranum sé ævintýralegur. Árið 2000 hafi hagnaður norskra rafveitna verið um 11,6 milljarðar n.kr. og rafveiturnar hafi greitt 3,7 milljarða n.kr. í arð til eigenda sinna. Þetta er orðinn markaður þar sem menn "háfa inn peninga", segir Stalheim.
Það hlýtur að verða þeim sem hagnast hafa mest í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum umhugsunarefni hvar auðveldast verði í framtíðinni að háfa inn gróðann. Skyldu kvótakóngar hugsa á þennan veg?