LÍTIÐ GERT ÚR ÞÆTTI LÚÐVÍKS
Ekki var gert mikið út þætti Lúðvíks Jósepssonar í landhelgismálinu í nýlegu aukablaði Morgunblaðsins um það mál. Þetta má furðu sæta en fyrir þá sem til þekkja þá á þessi "gleymska" sér fordæmi þegar Lúðvík og Morgunblaðið eru annars vegar. Þessi "gleymska" á sér nefnilega sögulegar rætur - m.a. fylgispekt við vestræn hernaðaröfl. Að þessu vék ég nýlega í grein sem er að finna á meðfylgjandi vefslóð:
http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1953&gerd=Frettir&arg=7
Í greininni segir m.a.: "Fyrrum sjávarútvegsráðherra og einn helsti brautryðjandi í útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar, Lúðvík Jósefsson, skýrði vel frá því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn gátu ekki stutt hugmyndir ráðherrans um útfærslu landhelginnar í 12 mílur, í lok 6. áratugarins. Forystumenn í þeim flokkum gátu ekki stutt þetta þjóðþrifamál á þeim forsendum að það gengi gegn hagsmunum Breta, sem var ein öflugasta aðildarþjóðin að Atlantshafsbandalaginu. Þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning íslensku þjóðarinnar við þessa útfærslu, fordæmi annarra landa fyrir 12 mílna landhelgi, hroka Breta í okkar garð sem og stjórnarsáttmála er Alþýðuflokkurinn var bundinn af, fannst þessum tveimur flokkum mikilvægara að njóta virðingar hjá Atlantshafsbandalaginu. Á þeim forsendum voru þessir flokkar tilbúnir að gera málamiðlanir sem höfðu stórlega tafið sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og skaðað þar af leiðandi langtímahagsmuni okkar. Um þetta mál sagði Lúðvík: „Um það er ekki að villast að það sem stóð í vegi fyrir eðlilegum vinnubrögðum íslenskra manna og íslenskra stjórnmálaflokka var bandalagið við þjóðir Vestur-Evrópu og Bandaríkin. Sífellt var látið í það skína að Íslendingar væru að „rjúfa samstöðu vestrænna þjóða" veikja Atlantshafsbandalagið ef þeir aðhefðust það í landhelgismálinu sem Bretar gætu ekki unað við.""