HUGMYNDA- OG HAGSMUNAHEIMUR ÞORSTEINS PÁLSSONAR
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins , ráðherra og þingmaður flokksins um langt árabil, skrifar pistil í Fréttablaðið nú um helgina þar sem hann líkir Framsóknarflokknum við fasíska flokka í Evrópu, „þjóðernispopúlista".
Kröfur sem Framsókn hafi reist á hendur fjármálakerfinu telur Þosteinn vera til marks um þjóðhættulegan popúlisma og með þessari afstöðu nýrrar forystu flokksins hafi „böndin við hugmynda- og hagsmunaheim gamla Framsóknarflokksins ... trosnað" .
Almennt er það mat manna að afstöðu nýrrar forsystu Framsóknarflokksins til fjármálakerfisins og loforðum hennar um skuldaleiðréttingu geti flokkurinn þakkað velgengni sína í síðustu kosningum. Líka hinu að hafa sagst vilja rjúfa gömul tengsl við „hugmynda- og hagsmunaheim" Framsóknarflokksins eins og þau birtust á árunum sem Þorsteinn Pálsson og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum voru í hvað nánustu samstarfi við Framsókn. Þá var byrjað að einkavæða og ganga erinda auðvaldsins fyrir alvöru. Eitt fyrsta verkið á þeirri vegferð var að gefa SR Mjöl pólitískum vildarvinum innan úr hagsmuna- og hugmyndaheiminum sem þeir deildu á þessum árum, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. Allt þetta þekkir Þorsteinn Pálsson enda sjálfur einn af helstu verkstjórunum .
Ég skal játa að allar götur frá hruni þótti mér Framsóknarflokkurinn hins vegar með rétta sýn á skuldavandann og niðurfærsluleið Hagsmunasamtaka heimilanna studdi ég fram til ársloka 2010. Það gerði Framsókn líka. Þegar árið 2010 var úti þóttu mér verða þáttaskil einsog ég hef margoft fært rök fyrir. Það breytir því ekki að að allt fram á þennan dag hefur mér þótt jákvætt að heyra Framsóknarflokkinn tala með hrútshornum við fulltrúa fjármálakerfisins, iðulega á eindregnari hátt en gert var í tíð fyrri stjórnar. Það er við þessu sem Þorteini Pássyni virðist helst hrylla.
Þegar afstöðunni til fjármálakerfisins, alla vega um ýmsa þætti þar, sleppir þá skilja leiðir og sýnist mér Framsóknarflokkurinn stefna hraðbyri inn í hugmynda- og hagsmunaheiminn, sem Þorsteinn Pálsson þekkir svo ágætlega; heim einkavæðingar og hagsmunagæslu fyrir auðvaldið. En fyrir áhugafólk um pólitíska sögu, þá á „gamli" Framsóknarflokkurinn sér eftirsóknarverðari fyrirmyndir en þær sem við fengum að kynnast á níunda áratugnum, síðari hluta tíunda áratugarins og fyrstu fimm árum nýrrar aldar; samstarfsárunum við Sjáfstæðisflokkinn.
En það var ekki bara Framsókn sem komst inn í Stjórnarráðið vegna hinnar meintu „popúlísku" afstöðu til fjármálakerfisins og skuldavandans. Það gerði Sjálfstæðisflokkurinn líka. Hann er því ábyrgur fyrir meintum „popúlískum" loforðum Framsóknarflokksins um fjármálakerfið og skuldavandann. Þetta sýnist mér Þorsteinn vilja sverja af flokksfélögum sínum í nýrri maraþon ritröð hans sem hófst á leiðarasíðu helgarútgáfu Frétablasins fyrir nokkru.
Ég hvet Þorstein Pálsson til að skrifa næst um pólitíska ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Hvað á að kalla það þegar stjórnmálaflokkur kemur sér í valdaaðstöðu á fölskum forsendum? Og hvað ber honum að gera ef hann verður uppvís að því að beinlínis leggja sig fram um að framfylgja ekki loforðum sínum?