Fara í efni

HÚN HEITIR SVANDÍS !

Valgerður Bjarnadóttir skrifar  ágætar "Vangaveltur um prófkjör" í Fréttablaðið í dag. Greinin hefst á þessum orðum: "Forystukona vinstri grænna í borgarstjórnarkosningunum í vor sagði í útvarpsþætti um daginn eitthvað í þá áttina að hún teldi stjórnmál snúast um lífsviðhorf, meðal annars þess vegna hefði hún efasemdir um prófkjör stjórnmálaflokka sem væru öllum opin, líka þeim sem ekki væru flokksbundnir. Ég er hjartanlega sammála konunni um að stjórnmál snúist um lífsviðhorf en er samt ekki viss um að það leiði mig til sömu niðurstöðu um hvernig haga eigi vali á framboðslista stjórnmálaflokka, eða hverjir megi koma að slíkum ákvörðunum…"
Það sem ég furða mig á er að sú kona, sem Valgerður Bjarnadóttir gerir að umræðuefni í blaðagrein sinni, "forystukona vinstri grænna",  skuli ekki fá að njóta nafns síns. Ekki bara hennar sjálfrar vegna heldur kjósenda einnig. Mér finnst nefnilega kjósendur í Reykjavík eigi að fá að kynnast Svandísi Svavarsdóttur rétt einsog Degi, Vilhjálmi eða hvað þeir nú heita allir. Persónulega finnst mér reyndar hún eigi meira erindi til kjósenda en þeir allir til samans.