Fara í efni

HVAÐ Á LEIFSSTÖÐ AÐ VERÐA STÓR?

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 06/07.02.12.
Þeir sem koma til Þingvalla á álagstímum skilja hvers vegna talað er um að æskilegt væri að draga úr umferð þangað þegar svo ber undir. Til stendur að selja okkur aðgang að þjóðgarðinum með einhvers konar bílastæðagjaldi en óvíst er hver fælingarmáttur þess yrði. Hugmyndir um gjaldtöku á öðrum ferðamannastöðum hafa verið viðraðar. Þá fyrst færi fælingin að segja til sín þegar alls staðar væri rukkað. Landinn yrði þar með að láta sig hafa takmarkanir á aðgengi að náttúru eigin lands. Ekki er hægt að mismuna eftir þjóðerni, svo mikið vitum við.

En finnast ekki aðrar lausnir?

Eitt er víst, að vandinn hverfur ekki. Alla vega ekki á meðan ferðaskrifstofur og flugfélög auglýsa Ísland allt hvað af tekur. Ég efast um að nokkurt land sé eins mikið auglýst og Ísland er um þessar mundir. Fleiri, fleiri, meira, meira. Og síðan er hamast við að hótelvæða landið. Þótt hótelin spretti upp eins og gorkúlur hafa menn vart undan í hótelsmíðinni. Og allra síst geta menn hlaupið nógu hratt í Leifsstöð.

Á sjónvarpsskjá var okkur nýlega birt risaflæmi sem átti að sýna fyrirhugaðan vöxt flughafnarinnar. Svæðið var gríðarstórt. Og til að manna mannvirkið og annast þjónustu þar þótti fyrirsjáanlegt að flytja þyrfti inn nokkur þúsund manns.

Og síðan koll af kolli. Fljótlega yrði að fjölga stöðumælavörðum á Þingvöllum, takmarka umferð í Landmannalaugar og Þórsmörk og til að komast að Herðubreið þyrfti að sækja um með þriggja ára fyrirvara.

Jafnvel okkur, sem fögnum ferðamennsku sem eftirsóknarverðum atvinnuvegi, hrýs hugur við þessari þróun.

Ferðatengdur iðnaður sem hlúir að landinu og menningunni, bæði arfleifðinni og einnig því sem nú lifir og dafnar með lista- og safnafólki okkar, getur snúist upp í andhverfu sína, orðið að ömurlegum gróðapolli sem fúskarar göslast í. Og hæglega kæmust þeir upp með það, því Ísland yrði með þessu móti einnota. Þangað kæmi ferðalangurinn bara einu sinni. En þá væri bara að auglýsa meira. Markaðurinn er ótæmandi.

En þarf ekki aðeins að hægja á þessu gangverki? Að við látum okkur nægja milljón ferðamenn á ári enn um sinn en stefnum ekki, alla vega ekki strax, á tvær eða þrjár.

Gæti komið til greina að í Leifsstöð væri tekin ákvörðun um að hægja á stækkun og fjölgun afgreiðslusvæða? „Því miður, allt uppbókað! Það er opið á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði, en hér er fullt."

 Í stað þess að loka Þingvöllum og selja aðgang að Gullfossi, þá væri hemlað í Reykjanesbæ.

Ef til vill þykir mörgum goðgá að hugsa á þennan veg. Ferðafyrirtækjunum  verði skilyrðislaust að þjóna. En eiga duttlungar þeirra og gróðamöguleikar að ráða för, jafnvel á kostnað náttúru og þeirra gæða sem við viljum vera þekkt fyrir?