HVAÐ EF?
Árið 2005 var forvarnarsýningin Hvað ef? frumsýnd í Hafnarfjarðarleikhúsi og eftir það var ekki aftur snúið. Nú hafa um 25 þúsund manns séð sýninguna og sjálfur hef ég orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá hana tvisvar sinnum, fyrst í Kassanum og síðan aftur á aðalsviði Þjóðleikhússins sl. þriðjudagskvöld þegar efnt var til stórsýningar á verkinu. Leikararnir, þau Guðmundur Ingi, Ólöf Jara Skagfjörð og Ævar Þór Benediktsson, komast vel frá vandasömum hlutverkum þar sem gamni og alvöru er blandað saman á áhrifaríkan hátt.
Ég er víst ekki unglingur lengur og kannski orðið heldur langt um liðið síðan þá. En þegar ég ræddi um það atriði sýningarinnar sem mest áhrif hafði á mig þá kom í ljós að einmitt sama atriði virðist ná augum og eyrum fjölmargra unglinga, nefnilega myndræn umfjöllun um áhrif eiturlyfjaneyslu á heilann - um hvernig vímuefni draga úr getu okkar til að framkalla sjálf þau efni sem gera okkur hamingjusöm. Mér þótti einnig áhugaverð sú áhersla að fá unglinga sem á annað borð ákveða að bragða áfengi, til að fresta því eins lengi og þeir mögulega geta því hvert ár, hver mánuður, hver vika sem líkaminn fær að þroskast án þess getur skipt sköpum.
Þrautseigja Gunnars og félaga finnst mér bæði lofsverð og þakkarverð og óhikað mæli ég með þessari sýningu. Því spurningin er brenndandi: Hvað ef?
Sjá einnig:
umfjöllun frá því í október á síðasta ári:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvad-ef
Heimasíða:
http://www.540floors.com/hvadef/
Umfjöllun nú:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/11/15/25_thusund_manns_sed_hvad_ef/ http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/11/15/25_thusund_manns_sed_hvad_ef/
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27357