Fara í efni

HVAÐ ER TIL RÁÐA EF VIÐ VILJUM EKKI STUÐIÐ?

 

Páll Óskar Hjálmtýsson, hljómlistamaður með meiru, er með allra geðþekkustu mönnum og held ég að óhætt sé að segja að hann sé einn þeirra sem elskaður er af þjóðinni. Það er eflaust skýringin á því að milliliður á orkumarkaði flíkar honum nú mjög í augslýsingaherferð sem eflaust kostar sitt.

Orkusalan, sem svo er nefnd, er slíkur milliliður og hefur á að skipa myndarlegri sveit starfsmanna eins og sjá má á heimasíðu. Þetta fyrirkomulag byggir á viðskiptamódeli sem fylgdi fyrstu orkupökkunum þar sem kveðið var á um aðgreiningu á framleiðslu, dreifingu og smásölu á raforku.  

Með því að fá okkur til að taka þátt í meintu stuði sem orkusalan segir að sé í boði er meiningin að fá okkur öll til að líta á rafmagn sem hverja aðra markaðsvöru og að stuðið sé ó því fólgið að finna hvar lægsta orkuverð er í boði hverju sinni. Með árvekni kvölds og morgna, og helst öllum stundum, gætum við hugsanlega lækkað útgjöld heimilisins eða fyrirtækisins um nokkrar krónur, því meira er það nú ekki sem býðst í fyrirheitna landinu sem lofað var í upphafi aldar þegar haldið var út á braut markaðsvæðingar á rafmagni. En nú er sem sagt minnt á fjörið og þá skemmtun sem sé að hafa á markaðstogi raforkunnar.  

Hingað hafa á undanförnum rúmum tveimur áratugum komið sérfræðingar á vegum Evrópusambandsins, all kyns fræðimenn og forsvarsmenn sambandsins á þessu sviði, til að telja okkur trú um að allt yrði betra aðeins ef við tileinkuðum okkur þankagang viðskiptanna.

Við höfum hins vegar flest engan áhuga á að hugsa á þennan veg. Við viljum fá vatnið okkar úr Gvendarbrunnunum OKKAR, og rafmagnið frá virkjununum OKKAR á hagstæðu verði. Svo viljum við geta rifist um það hvort æskilegt sé að selja rafmagn til stóriðju og á hvaða prís. Þar kann eitt að hafa verið rétt í gær en ekki í dag og annað á morgun. Það eigi að vera viðfangsefni stjórnmálanna, lýðræðsins, en vel að merkja OKKAR ákvörðun. Allt slíkt vald er nú smám saman verið að færa frá okkur. Og enn verður bætt í með næstu pökkum. Hér á síðunni hefur Kári farið lið fyrir lið yfir Orkupakka 4 sem bíður afgreiðslu hér á landi.  

Úr Stjórnarráðinu var okkur hins vegar sagt að orkupakkarnir skiptu okkur í raun og sann engu máli en að þvi marki sem þeir skiptu máli þá væri það neytendum til stórgagns; að halda því fram að á teikniborðinu væri orkumarkaður miðstýrður frá Brussel væri hrein firra.

Annað er svo sð koma í ljós – sífellt betur.

Allt minnir þetta mjög á umræðuna upp úr aldamótum þegar hún var að hefjast, öll gagnrýni sögð vera misskilningur og rangtúlkanir.

Nú spyrja menn hvað sé til ráða. Ég beindi þeirri spurningu til Kára, hins afkastamikla rannsakanda og skríbents.

Hans svar var þetta:   
Þetta er góð spurning. Nokkur atriði hljóta að koma til skoðunar:

1) að losna sem fyrst, helst með samningum, undan þeim hluta EES-samningsins sem snýr að orku.

2) að þingið setji lög [er ósammála því að það sé ekki fær leið] um BINDANDI ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU um orkumálin

3) koma stjórnarskrármálum í viðunandi horf, hvað snertir ALVÖRU auðlindaákvæði.

Ef menn viðurkenna að þingið geti bundið sjálft sig með þingsályktun, þá er er lagsetning auðvitað fær leið og ekki síður. Sérlög um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál.

Þessar leiðir gætu gagnast gegn ráninu mikla.
Kær kv.
Kári

Á heimasíðu minni er að finna marga tugi greina um þessi mál allar götur frá því fyrir aldamót og læt ég fylgja þrjár slóðir, nánast af handahófi:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/bakstur-orkumalastjora

https://www.ogmundur.is/is/greinar/einkavaeding-raforkugeirans-bitnar-a-almenningi

https://www.ogmundur.is/is/greinar/einkavaedingin-segir-til-sin-i-raforkugerianum