HVAÐ SEGJA ALÞINGISMENN UM SIÐBLINDU ÞJÓÐSKRÁR?
Þjóðskrá hefur falið lögbrotafyrirtækinu Hagkaupum að hafa með höndum afhendingu vegabréfa og annarra skilríkja fyrir sína hönd.
Á sama tíma og öll helstu lýðheilsusamtök, forvarnarsamtök og foreldrasamtök landsins svo og samtök allra heilbrigðisstétta hafa sent frá sér yfirlýsingar þar sem hvatt er til ábyrgrar áfengisstefnu og varað við því að undan henni verði grafið með ólöglegri áfengissölu, gengur Þjóðskrá fram fyrir skjöldu og felur þeirri verslun sem er stórtækust í lögbrotunum að taka að sér opinbera stjórnsýslu!
Vitað er að fjöldi einstaklinga og samtaka hafa leitað til stjórna lífeyrissjóða landsmanna sem eru stærstu eigendur Hagkaupa og hvatt þá til þess að draga eiganrhlut sinn út úr þessri starfsemi í samræmi við yfirlýsta stefnu um siðlegar fjárfestingar.
Rekstraraðilar Hagkaupa eru að sjálfsöðgu himinlifandi yfir siðblindu stjórnenda Þjóðskrár eins og fram kemur á vefsíðu Vísis:
«Við vorum himinlifandi að fá þessa fyrirspurn frá Þjóðskrá því við sem þjónustufyrirtæki erum stöðugt að leita nýrra leiða til að mæta betur þörfum viðskiptavina okkar. Við erum því stolt af því að vera valin í þetta samstarf af ríkisstofnun sem þorir að hugsa út fyrir boxið, eins og sagt er. Það verður án efa mikil breyting fyrir viðskiptavini Þjóðskrár að geta komið þegar þeim hentar til að sækja skilríki sín og við hlökkum til að taka á móti þeim öllum” segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups.»
https://www.visir.is/g/20242637941d/skilriki-afhent-i-hagkaupum-i-skeifunni
Ólögleg áfengissala Hagkaupa hefur verið stunduð í skjóli dómsmálaráðherra landsins. Hvað segir Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra um þetta ráðslag, er þetta síðasta útspil ef til vill samkvæmt hennar fyrirmælum? Hvað ætla lífeyrissjóðirnir að gera? Eru þeir virkilega allir liðónýtir þegar til kastanna kemur og ekkert að marka hástemmdar yfirlýsingar þeirra um siðlegar fjárfestingar? Hvað segja núverandi alþingismenn og hvað segja þau sem vilja setjast á Alþingi? Áfengissala og lýðheilsa hljóta að eiga vera kosningamál! En fyrst þarf að spyrja ráðherra ríkisstjórnarinnar hvort þetta sé með þeirra velþóknun.
---------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.