HVAÐ SEGJA SKATTSKRÁRNAR OKKUR?
Birtist í Blaðinu 05.08.07.
Samband ungra Sjálfstæðismanna efnir þessa dagana til árlegs framtaks til verndar mannréttindum hátekjufólks. Baráttan gengur út á að koma í veg fyrir að upplýst sé um tekjur þessa fólks. Þessar upplýsingar varpa ljósi á samfélagið og skiptingu verðmætanna. Það hefur stundum verið sagt að mikilvæg forsenda lýðræðis séu upplýsingar og má furðu sæta að ungt fólk sem gjarnan vill kenna sig við frelsi, sbr. „frjálshyggja“, skuli beina hugsjónastarfi sínu í þá átt að slökkva á kastljósunum sem fjölmiðlar beina árlega að tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu en það gerist jafnan þegar skattskrárnar eru birtar.
Ég tel reyndar að unga frjálshyggjufólkið ætti að beina baráttu sinni í gagnstæða átt því það er að mínu mati áhyggjuefni að í þjóðfélaginu almennt er smám saman verið að loka á upplýsingar sem snúa að kjörum og kjaraskiptingu. Þannig reynist sífellt erfiðara að fá upplýsingar um launakjör í fyrirtækjum og stofnunum. Það á einnig við um hið opinbera þótt skýr ákvæði séu um það í lögum að leynd skuli ekki hvíla á launakjörum opinberra starfsmanna. Samtök launafólks hafa andæft launaleyndinni og staðhæft að í skjóli hennar þrífist margvíslegt misrétti, þar á meðal kynbundið launamisrétti.
Upplýsingar veita aðhald
Upplýsingar um skattgreiðslur veita án efa aðhald gagnvart skattsvikurum. Þannig veigra þeir sem samfélagið veit að lifa sældarlífi sér við því að verða sjálfum sér til háðungar með því að bera „vinnukonuútsvar“. Bíræfnustu skattsvikararnir hafa reyndar margir hverjir forðað sér úr landi þar sem þeir geta möndlað með sín skattamál í því skjóli sem ungir Sjálfstæðismenn eiga sér draum um að geta búið þeim hér á landi. Það vekur athygli við birtingu skattskrárinnar nú hve margt af þessu fólki er komið úr landi og er af þeim sökum ekki að finna í skattskrám. Auðmannaflóttann úr landi upplýsa skattskrárnar okkur um með þögn sinni.
Persónulega er ég tilbúinn að taka ofan fyrir þeim fjármálamönnum sem halda tryggð við sitt samfélag. Það á við um skattakóngana sem gætu viljað sverja sig í andlegt slekti með mönnum á borð við Þorvald í Síld og Fisk sem hér á árum áður kvaðst stoltur greiða skatt af hverri krónu til að hér gæti þrifist gott samfélag.
Hitt er svo annað mál að ekki er ég fyrir mitt leyti reiðubúinn að skrifa upp á þá framsetningu sumra fjölmiðlamanna að samfélagið sé nánast komið á framfæri hjá auðmönnum. Hvað skyldi vera hægt að framfæra marga ellilífeyrisþega fyrir framlag eins bankastjóra, eða reka marga skóla? Á þessa lund var spurt í einhverjum fréttatímanum, og nánst tekin bakföll af undrun og aðdáun.
Auðmenn á framfæri almennings
Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að þessir fjárfestar eru á okkar framfæri en ekki öfugt. Þeir eru að höndla með framlag okkar – almennings - til samfélagsins. Hver einasti einstaklingur í landinu er þannig að greiða inn í lífeyrissjóði allt að fimmtung allra tekna sinna, fjármagn sem síðan er að verulegum hluta á markaði, m.a. í höndum fjármálamanna til ráðstöfunar. Sama gildir um hina himinháu vexti – einhverja þá hæstu í heimi – sem við greiðum fyrir afnot af fjármagni. Allt telur þetta í arðsemi og launagreiðslum. Er að undra að samfélagið vilji fá skattgreiðslur þessara aðila? Og er það ekki hinn eðlilegasti hlutur að við fáum upplýsingar um laun þeirra og kjör? Að sjálfsögðu.