HVAÐ SEGJA STJÓRNMÁLAMENN ÞEGAR GRUNNNET SÍMANS ER SELT ÚR LANDI?
Fjárfestingarsamsteypa með aðsetur í París er í þann veginn að eignast Mílu, grunnnet íslenska símakerfisins. Í fjölmiðlum er vísað til þessa fyrirtækis sem “sjóðastýringarfyrirtækis” að nafni Ardian SA.
Þegar Landssíminn var gerður að hlutafélagi á sínum tíma sagði þáverandi samgönguráðherra: "Í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði alfarið í eigu ríkisins."
Svo kom forstjóri af frjálshyggjukantinum Brynjólfur Bjarnason sem sagði: "Það er að mínu mati mjög æskilegt … að Síminn verði áfram að einhverju leyti í eigu Íslendinga".
“Að einhverju leyti.” Grunnnetið?
Brynjólfur vildi þó ekki lofa upp í ermina og bætti við: “það er þó erfitt að stýra því þegar vara er boðin til sölu."
“Vara”!
Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/aeskilegt-ad-siminn-verdi-ad-einhverju-leyti-i-eigu-islendinga
Við sem vildum ekki láta svipta þjóðina eignarhaldi á Símanum reyndum að finna nýja varnarlínu. Aðskilja bæri grunnnetið hinu hlutafélagsvædda símafyrirtæki. Það var gert um síðir og áttu engin eignatengsl að vera milli grunnnetsins og Símans. Ekki gátu stjórnendur Símans setið á sér og fengu þeir prívat og persónulega með velviljaðri hjálp að kaupa sig inn í grunnnetið líka.
Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvad-segja-eigendur-simans-um-skammarverdlaunin
Og nú er semsagt verið að selja grunnnetið til franskra braskara.
Það sem mér finnst stórfenglegast er “að ef endanlegir samningar náist muni Síminn og Ardian einnig vinna með hinu opinbera að upplýsingagjöf og öryggismálum varðandi hagsmuni landsmanna. Þegar séu undirbúningsviðræður að slíku fyrirkomulagi hafnar, en þar er um að ræða að tryggja að rekstur innviða félagsins samrýmist þjóðaröryggishagsmunum.”
https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2021/10/18/siminn_langt_kominn_med_solu_a_milu/
Er það samgönguráðherrann, formaður Framsóknarflokksins, sem á í þessum viðræðum eða er það Þjóðaröryggisráðið með Katrínu Jakobsdóttur formann VG og Guðlaug Þór Sjálfstæðisflokki innanborðs sem ræða þessi mál? Væri ekki rétt að upplýsa þjóðina nákvæmleqa um þessi viðskipti öll og þá einnig hvort til tals hafi komið að ríkið tæki grunnnetið til sín? Hvað hefur verið rætt við Ardian SA varðandi “hagsmuni landsmanna”? Það er jú rétt sem segir í kyninngarauglýsingu Mílu að um er að ræða Lífæð samskipta.
Nú segir Katrín Jakobsdóttir i fréttum að það sé verið að kanna hvernig hægt sé að tryggja þjóðarhagsmuni "óháð eignarhaldi."
Því er fljótsvarað: Það er ekki hægt.