HVAÐ SÖGÐU ÞAU ÞÁ?
Í fjölmiðlum er nú sagt frá því að við stjórnarmyndunarborðið ræði menn uppstokkun ráðuneyta.
Hvers vegna?
Skilja má að með fjölgun ráðuneyta verði auðveldara að finna fleiri áhugasömum ráðherraefnum samastað í Stjórnarráðinu.
Auðvitað á stjórnsýslan að taka breytingum. Þar með talið Stjórnarráðið.
Á kjörtímabilinu 2009 til 2013 var síðast gerð uppstokkun á Stjórnarráðinu. Það var gert vegna bágrar stöðu ríkissjóðs. Ætlaður tilgangur var að spara peninga. Sameining ráðuneyta reyndist kostnaðarsöm - og hver sem áhrifin verða til langs tíma - þá náðist ekki sparnaður til skamms tíma eins og að var stefnt.
Nú á aftur að stokka upp. Að þessu sinni með fjölgun ráðuneyta sem áður segir. Væri ekki nær að gefa sér nokkur ár til verksins og láta langtíma hagsmuni ráða för en ekki stjórnmálamenn í pólitískri andnauð?
Man ég það ekki rétt að talsmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu ákaft á þennan veg á árum áður? Mér finnst ég heyra óminn af orðum Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur frá þessum tíma.
Fróðlegt væri að fljótvirkur fréttamaður fletti þessu upp.