Hvað vakir fyrir Kaupfélagi Skagfirðinga?
Í lögum um fjármálafyrirtæki eru ákvæði sem hafa það að markmiði að tryggja dreifða eignaraðild í sparisjóðum landsins. Í 70. grein laganna segir m.a. "Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan atkvæðisrétt nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum sparisjóðs. Þó er einstökum stofnfjáreigendum aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggjast á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðs."
Í Skagafirði hafa staðið deilur um yfirráð yfir Sparisjóði Hólahrepps. Kaupfélag Skagfirðinga á þar stofnfé og í seinni tíð hafa undirstofnanir og dótturfyrirtæki kaupfélagsins og síðan í ofanálag einstakir stjórnarmenn á þessum bæjum öðlast stofnhluti. Þykir öðrum stofnfjárhöfum kaupfélagsmenn vilja gerast nokkuð fyrirferðamiklir og bent á framangreinda 5% reglu. Fjármálaeftirlitið virðist hafa verið nokkuð vaklandi í túlkunum sínum en þó heldur hallast á sveif með kaupfélagsmönnum í tilraunum þeirra til að klífa 5%-múrinn.
Í dag gerist það síðan að kaupfélagsstjórinn í Skagafirði, Þórólfur Gíslason, sendir inn á borð Efnahags- og viðskiptanefndar erindi með ósk um að lögum verði breytt á þann veg að 5% reglan verði hreinlega numin brott. Í röksemdafærslu kaupfélagsstjórans segir m.a. um núverandi aðstæður: "Aðilar með 27% stofnfjár neita þeim aðilum sem sviptir hafa verið atkvæðisrétti að selja mökum sínum eða öðrum fjölskyldumeðlimum stofnféð til þess að deilan um sviptingu atkvæðisréttar verði ekki lengur til staðar, en hún er uppi vegna þess að þessir aðilar vinna hjá samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga ( starfsmenn KS samstæðunnar eru nú um 500-600) Rétt er að geta þess að ef þeir hættu að vinna hjá Kaupfélagi Skagfirðinga eða félögum á vegum þess þá fá þeir atkvæðisréttinn...."
Að sjálfsögðu er þetta rétt ályktun en er það boðlegt virðulegu Kaupfélagi Skagfirðinga að ganga þetta langt til þess að stjórnendur og áhrifamenn í Kaupfélaginu innlimi Sparisjóð Hólahrepps í sitt ríki? Eftir því sem ég fregna snýst deilan ekki um stofnfjárhluti starfsmanna Kaupfélagsins almennt heldur um lykilaðila sem stýra því fyrirtæki og þar með yfirráð Kaupfélags Skagfirðinga yfir Sparisjóði Hólahrepps.