Fara í efni

HVAR ER SÓMAKENNDIN PÁLL?


Árni Guðmundsson, háskólakennari og fyrrum æskulýðsfrömuður í Hafnarfirði, kom með ágæta ábendingu á heimasíðu sinni eftir að ég talaði fyrir frumvarpi mínu og Þuríðar Backmans um áfengisauglýsingar. Hann benti á að RÚV hefði slegið því upp að ég vildi banna áfengisauglýsingar þegar veruleikinn væri sá að þær væru bannaðar lögum samkvæmt en bannið hins vegar ekki virt. Frumvarp mitt gengur enda út á að markmið laganna verði virt en til þess þarf  að stoppa upp í lögin. http://addigum.blogspot.com/2010/03/pravdisk-fyrirsogn-ruv.html#links
Þess má geta að þessi fyrrum félagi minn í BSRB, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar um árabil,  hefur að öðrum ólöstuðum beitt sér af meiri krafti en flestir fyrir því að áfengi sé ekki auglýst. Ásamt fleira fólki kom hann á laggirnar samtökum sem sinna þessu baráttumarkmiði sérstaklega. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum
Í framsögu minni um umrætt frumvarp lagði ég áherslu á mikilvægi þess að í samfélaginu giltu skýrar reglur og lög og að þeim bæri að hlíta. Ef banna á auglýsingar á tiltekinni vöru þá skal það bann virt. Ef við erum banninu ósammála þá breytum við lögunum. Það á við um áfengisaglýsingar einsog annað.
Í Ríkisútvarpinu er áfengissauglýsingabannið virt að vettugi nær daglega. Líka í Kastljósinu. Það er svolítið kindugt því Kastljósið hefur áður sýnt að það vill vera sérlega sómakært þegar áfengi er annars vegar. Um það gat ég sérstaklega í framsöguræðu minni og beindi þeirri spurningu til útvarpsstjóra hvar sómakenndin væri nú. Hvort ekki væri ráð að sýna hana í verki og framfylgja lögum sem kveða á um að áhorfendum sé hlíft við áreitni vínsala.
Framsöguræða mín  á þingi: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20100323T150903&horfa=1
mbl.is: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/03/24/ogmundur_segir_ruv_brjota_afengislog/