HVAR LIGGUR ÁBYRGÐ ÍSLANDS?
Víða um heim eru blikur á lofti.
Milljónir manna hafa flúið heimkynni sín vegna hernaðar heima fyrir. Og flóttamannavandinn vindur upp á sig, nú síðast í Kúrdistan.
Í öðru lagi eru illvirki hafin til skýjanna sem aldrei fyrr; ríki og öflugar stríðshreyfingar beita þannig kúgun og ofbeldi sem minnir á margt það versta úr myrkri fortíð. Kannski ekki að undra því þangað virðist förinni heitið. Í vikunni kom í ljós að Saudi Arabar vilja ekki vera minni ofbeldisfantar en ISIS trúbræður þeirra og keppinautar.
Í þriðja lagi eru kjarnorkuvopn aftur á dagskrá. Eitt frumstæðasta ríki veraldarinnir gumar af tilraunum sínum við kjarnorkusprengjuna en sem kunnugt er kveðast Norður-Kóreumenn hafa sprengt í tilraunaskyni í vikunni.
Getum ekki firrt okkur ábyrgð
Í öllum tilvikum eru gerendur ofbeldisins fjarri okkur landfræðilega en ekki er þar með sagt að við getum firrt okkur ábyrgð. Á vandamálum stríðshrjáðs heims eru ekki alltaf til einfaldar lausnir en þær eru þó til oftar en margir vilja vera láta. Ef allir horfðu í eigin barm og tækju á þeim hluta vandans sem er að finna heima fyrir má ætla að við byrjuðum á því að þokast fram á við.
Flóttamannavandinn
Ég efast ekki um að það er erfitt fyrir smáríkið Ísland að hafa sig yfirleitt í frammi á fundum hernaðarbandalagsins NATÓ þar sem ákvarðanir eru teknar. Enda mun hafa farið lítið fyrir okkar mönnum á NATÓ fundinum í Brussel í júlílok þegar Tyrkir fengu grænt ljós á að ráðast á Kúrda til að veikja réttindabaráttu þeirra í Tyrklandi.
Allir sem til þekkja vita að allar götur frá því flokkur Erdogans forseta missti meirihluta sinn í þingkosningum í Tyrklandi um miðjan júní hafa stjórnvöld staðið fyrir ofbeldishrinu gegn Kúrdum til þess að eyðileggja friðarferli sem nú hefur varað um nokkurra missera skeið og orðið til þess að Tyrkir almennt voru farnir að líta Kúrda jákvæðari augum en áður. Á ofbeldisöldunni sem Erdogan skóp, reið flokkur hans síðan til valda að nýju með hreinan meirihluta í þingkosningum í byrjun nóvember. Í kjölfar kosninganna hefur enn verið hert á ofsóknum gegn Kúrdum í austurhluta Tylklands. Í neyðarkalli sem nýlega barst frá kúrdískum verkalýðssamtökum segir að tvö hundruð þúsund manns hafi þurft að flýja heimili sín af völdum þessa ofbeldis. Ef ekki verður lát á má ætla að þetta flóttafólk leiti norður á bóginn.
Hvernig væri að erindrekar ríkisstjórnar Íslands hreyfðu þessu máli á næsta NATÓ fundi? Og það með afdráttarlausum hætti! Það yrði lóð á þá vogarskál að draga úr flóttamannavandanum.
Illvirki bandalagsríkja
Ýmsar kenningar eru uppi um hvað valdi fjöldaaftökunum í Saudi Arabíu í byrjun árs. Sumir telja Saudi Araba vilja hleypa upp nýgerðu samkomulagi Bandaríkjanna og Íran, aðrir að þetta sé liður í innbyrðis valdaátökum mismunandi hópa innan Sunni hreyfingar Múhameðstrúar og snúist um ítök í arabaheiminum. Enn fleiri skýringar eru uppi.
Það sem ég tel hins vegar að við eigum að staðnæmast við, er að ofbeldið í Saudi Arabíu er látið óátalið af hálfu bandalagsríkja Íslands og ekkert slíkra ríkja hefur gagnrýnt Bandaríkjastjórn fyrir umfangsmestu vopnasölusamninga til Saudi Arabíu í sögunni en síðustu samningarnir voru undirritaðir fáeinum dögum fyrir fjöldaaftökurnar.
Ef ISIS hefði myrt fjörutíu og sjö fanga á einum degi í höfuðvígi sínu í Raqqa í Sýrlandi og flesta með því að höggva af þeim höfuðið hefði verið rekið upp ramakvein í okkar heimshluta. En þegar slíkt gerist í Ryad í Saudi Arabíu - bandalagsríkinu góða, heyrist hvorki hósti né stuna. Og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna lætur við það eitt sitja að fordæma árás á sendiráð Saudi Arabíu í Íran.
Hergagnasamningar Bandaríkjanna hafa verið gagnrýndir af hálfu Amnesty International sem segir þá brot á ATT samningunum sem kveða á um að sala á vopnum sem vitað er að beitt er gegn óbreyttum borgurum skuli teljast ólögleg. Alþjóðanefnd Rauða Krossins hefur gert lista yfir eitt hundrað árásir Saudi Araba á sjúkrahús í Jemen. Ekki er úr háum siðferðissöðli að detta fyrir Bandaríkjamenn því sjálfir hafa þeir tekið þátt í árásum á saklausa borgara með drónum í Jemen og víðar.
Hvernig væri að erindrekar ríkisstjórnar Íslands hreyfðu þessu máli á næsta NATÓ fundi? Og það með afdráttarlausum hætti!
Kjarnorkusprengjan og við
Árið 1970 gekk í gildi samningur um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Þessi samningur endurspeglar vel völdin í heiminum. Hann kveður á um að óátalið sé að fimm ríki hafi kjarnorkusprengjur í vopnabúrum sínum og vel að merkja þetta eru ríkin sem ráða lögum og lofum hjá Sameinuðu þjóðnum með fastafulltrúa í Öryggisráðinu: Bandaríkin, Rússland, Kína, Frakkland og Bretland. Ekki hafa öll ríki heims undirgengist samkomulagið, ekki Indland, Pakistan, Súdan og Ísrael en þrjú þessara ríkja hafa komið sér upp kjarnorkuvopnum að því er talið er. Norður Kórea sagði sig frá samkomulaginu árið 2003 og við þekkjum eftirleikinn sem síðast var staðfestur í vikunni.
Hvernig væri að kjarnorkuveldin horfðust í augu við að aldrei, ekki undir neinum kringumstæðum, yrði forsvaranlegt að beita kjarnorkuvopnum, hvorki í sókn né í vörn og að þeim beri að eyða eigin vopnum.
Hvernig væri að erindrekar ríkisstjórnar Íslands töluðu slíku máli innan NATÓ og annars staðar?
Engin lausn án lýðræðis.
Ég hef reyndar ekki trú á því að orð okkar á fundum NATÓ breyttu einhverju en við gætum sýnt vilja okkar í verki með því að ganga út úr bandalaginu eftir að á þetta hefur verið látið reyna án árangurs.
Og varðandi hinar einföldu lausnir sem vikið var að í upphafi, þá rúmast þær undir regnhlífinni lýðræði. Það er umhugsunarvert að lausnir stórveldanna á taflborði sýrlenskra valdastjórnmála, svo nærtækasta dæmið sé notað, snúast aldrei um þetta hugtak heldur hvað komi hagsmunum viðkomandi stórveldis best.
Hvernig væri að Íslendingar gerðust málsvarar lýðræðisins, að allar friðartilraunir miðist við lýðræðislegar lausnir, ekki hagsmuni Assads og Pútins, Obamas eða Erdogans, hvað þá þeirra sem kunna það eitt að drepa andstæðinga sína með sveðjum?