Fara í efni

HVATNING FRÁ BSRB: VERJUM VELFERÐINA


Í dag birtist í Morgunblaðinu grein eftir þau Garðar Hilmarsson, formann Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Kristínu Á Guðmundsdóttur, forrmann Sjúkraliðafélags Íslands en bæði eru þau í stjórn BSRB. Í þessari grein birtast skýr skilaboð frá forystu BSRB til Alþingis sem nú ræðir um Fjárlög ríkisins fyrir komandi ár. Greinarhöfundar hvetja fjárveitingarvaldið til að verja velferðarkefið áföllum sem séu fyrirsjánaleg ef opinberum stofnunum verði áfram sniðinn þröngur stakkur. Þau vísa til manneklu sem orðin sé slík á ýmsum stofnunum að beinlínis stefni í neyðarástand ef fjárhagur þeirra verði ekki stórbættur svo og kjör starfsfólksins.
Eftirfarandi úr grein þeirra Garðars og Kristínar hlýtur að verða okkur öllum til umhugsunar: Í rauninni er það fráleitt að við skulum nú í byrjun 21. aldarinnar – þegar ríkidæmi þjóðarinnar hefur aldrei verið meira – þurfa að leggjast í vörn fyrir velferðarkerfið. Í reynd ættum við að vera í stórfelldri sókn á öllum sviðum velferðarþjónustunnar því þegar allt kemur til alls nýtur samfélagið sem heild góðs af. Því öflugra velferðarkerfi sem við byggjum upp þeim mun betra verður þjóðfélag okkar. Það er til hagsbóta fyrir alla, einstaklinginn, fjölskylduna og fyrirtækin að hafa góð sjúkrahús, dvalarheimili fyrir aldraða, góða skóla, góðar almenningssamgöngur, löggæslu, brunavarnir, raforku- og vatnsveitur og annað sem telst til grunnþjónustu í nútímasamfélagi.“

Hér að neðan er umrædd  grein úr Morgunblaðinu sem birtist undir fyrirsögninni, Stórbæta þarf kjör innan almannaþjónustunnar.“:

Á UNDANFÖRNUM árum hafa í æ ríkari mæli borist fréttir frá ýmsum stofnunum almannaþjónustunnar þar sem fram kemur að það vanti fólk til starfa. Þær stéttir sem oftast hafa verið nefndar í þessu sambandi eru sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar þótt einnig eigi þetta við um fjölmargar aðrar stéttir og starfshópa. Fréttir af manneklu hafa borist af sjúkrahúsum, stofnunum fyrir aldraða, stofnunum fyrir fatlaða og nú í sumar einnig frá löggæslunni. Þessar staðreyndir allar ættu að vera yfirvöldum og þar með viðsemjendum launafólks innan almannaþjónustunnar sem blikkandi viðvörunarljós.

Vandinn vindur upp á sig

Í ályktun sem nýafstaðinn aðalfundur BSRB sendi frá sér er beinlínis talað um að víða stefni í hreint neyðarástand. Þar segir m.a.: „Ljóst er að gera þarf stórátak til þess að efla grunnþjónustu samfélagsins ef ekki á illa að fara. Mjög alvarlegar blikur eru nú á lofti. Sums staðar er manneklan slík að horfir beinlínis til landauðnar. Á sjúkrahúsum og dvalarheimilum fyrir aldraða, á stofnunum fyrir fatlaða, innan löggæslunnar og víðar í grunnþjónustu samfélagsins verður sífellt erfiðara að ráða fólk til starfa á þeim kjörum og við þau skilyrði sem starfsfólki eru búin. Manneklan veldur síðan enn meira álagi á starfsfólkið og vinda erfiðleikarnir þannig upp á sig. Samfélagið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að ef lengur verður látið reka á reiðanum stefnir í óefni, ef ekki neyðarástand.“

Enda þótt manneklan í sjúkra- og aðhlynningarstörfum hafi í för með sér alvarlegustu afleiðingarnar og geti hreinlega leitt til neyðarástands fyrir skjólstæðinga velferðarþjónustunnar verður einnig að skoða af miklu raunsæi hvað gerist ef erfiðleikum er háð að manna almenn skrifstofustörf. Án skipulagningar starfseminnar, bókhalds og annars utanumhalds um rekstur skapast fljótlega ringulreið. Fjármálastofnanir sem á undanförnum árum hafa vaxið og dafnað sem aldrei fyrr soga nú til sín starfsfólk og oftast á mun betri launakjörum en ríki og sveitarfélög bjóða upp á. Ef launakjörin á þessum sviðum opinberrar stjórnsýslu verða ekki löguð í komandi kjarasamningum er ljóst að ríki og sveitarfélög geta ekki keppt við einkamarkaðinn. Þessa er t.a.m. tvímælalaust farið að gæta hjá Reykjavíkurborg og er það á ábyrgð kjörinna forsvarsmanna borgarinnar að gæta hagsmuna hennar sem atvinnurekanda.

BSRB hvetur til framfarasóknar

Það sem hér hefur verið nefnt er fyrst og fremst til varnar starfsemi á vegum hins opinbera. Varað er við því að ef ekki er tekið markvisst á kjaramálum starfsfólks innan samfélagsþjónustunnar muni það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Í rauninni er það fráleitt að við skulum nú í byrjun 21. aldarinnar – þegar ríkidæmi þjóðarinnar hefur aldrei verið meira – þurfa að leggjast í vörn fyrir velferðarkerfið. Í reynd ættum við að vera í stórfelldri sókn á öllum sviðum velferðarþjónustunnar því þegar allt kemur til alls nýtur samfélagið sem heild góðs af. Því öflugra velferðarkerfi sem við byggjum upp þeim mun betra verður þjóðfélag okkar. Það er til hagsbóta fyrir alla, einstaklinginn, fjölskylduna og fyrirtækin að hafa góð sjúkrahús, dvalarheimili fyrir aldraða, góða skóla, góðar almenningssamgöngur, löggæslu, brunavarnir, raforku- og vatnsveitur og annað sem telst til grunnþjónustu í nútímasamfélagi.

Í þessum anda ályktaði fyrrnefndur aðalfundur BSRB. Þar sagði að brýnt væri að gervöll velferðarþjónustan væri „í stöðugri framför og veiti samfélaginu öllu þá bestu þjónustu sem völ er á“. Til að þetta megi takast verður að búa betur að starfsfólki innan almannaþjónustunnar en nú er gert, bæði varðandi launakjör og starfsskilyrði almennt.

Garðar er formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og gjaldkeri BSRB. Kristín er formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Bæði eru í stjórn BSRB.