Fara í efni

HVER Á AÐ HIRÐA FÉÐ?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 03/04.09.16.
Má setja nokkur hundruð milljónir í prívatvasa? Spurt er að gefnu tilefni, umræðunni um kaupauka til umsýslunarmanna þrotabúa föllnu bankanna. Eigendur þeirra, kröfuhafarnir, hafa nú ákveðið að egna fyrir þessa málaliða sína með gulrót mikilli úr skíragulli. Þá muni þeir ganga hart fram í því að keyra upp söluverð á eignum búanna. Umsýslunarmenn og eigendur græði, því báðir fái meira í sinn hlut.
Og ekki nóg með þetta. Þeir sem vilja finna þessum greiðslum málsbætur segja að þegar upp er staðið þá græðum við sennilega öll. Kröfuhafarnir séu nefnilega margir útlendingar en fjárgæslumennirnir íslenskir - sumir allavega - og muni þeir greiða skatt af feng sínum, sem við síðan getum notað í Landspítalann.

En eftir stendur spurningin hvort það geti verið rétt að borga nokkrum einstaklingum margfaldar ævitekjur verkamanns - og vel að merkja, til viðbótar himinháum launum.

Í vikunni var á Alþingi fjallað um rannsóknarskýrslu á orsökum þess að sparisjóðakerfið hrundi í fjármálakreppunni miklu. Skýrslan varpar ljósi á þróun sparisjóðanna, hvernig lagaumhverfi þeirra var, allar götur frá miðjum níunda áratugnum, markvisst breytt úr eins konar samfélagsstofnunum yfir í harðsnúna viðskiptabanka.

Menn kann að reka minni til þess að upp úr aldamótum var sagt að í sparisjóðum væri mikið „fé án hirðis" og lægi mikið við að finna fjárhirða fyrir þetta munaðarlausa fé. Var lögum og reglum því breytt til að svo mætti verða. Var nú hart gengið fram í því að beintengja hagsmuni eigenda sjóðanna, svokallaðra stofnfjáreigenda, við reksturinn. Því meira fé sem stofnfjáreigendur fengju ofan í sinn eigin vasa þeim mun betur mætti ætla að þeir gegndu hlutverki hins góða fjárhirðis.

Ekki var nóg með að stofnfjáreigendur, sem áður var bannað að braska með bréf sín, fengju nú lausari taum til að bæta eigin hag með prívatbraski með bréfin sín, heldur mátti nú líka borga þeim arð, jafnvel þau ár sem tap væri á rekstrinum! Allt var þetta réttlætt með þeim meintu sannindum að hefðu menn prívatgulrót jafnan í augsýn myndu þeir vinna harðar að því að skila ávinningi sem á endanum væri í allra þágu. Út á þetta gekk kenningin.


Vissulega var það svo að margir sparisjóðanna féllu aldrei í gildru Mammons enda var þar að finna margt yfirvegað og hófsamt fólk, líka í röðum stofnfjáreigenda. Þeir höfðu, vel að merkja, keypt bréf sín upphaflega til að styrkja sparisjóðina sem mikilvægar þjónustustofnanir við nærsamfélagið og kom aldrei í hug neitt prívat pot.

Því er hins vegar ekki að leyna að með blöndu af lagabreytingum, gullgulrótum og hættulega gölnum tíðaranda varð til í fjármálakerfinu öllu, nokkuð sem kalla má siðrof. Hugtakið fjárhirðir fékk nú tvíræða merkingu.

Ég tel ástæðu til að óttast að hið sama gæti hent okkur að nýju. Hvernig á að fyrirbyggja að slíkt gerist? Auðvitað skiptir lagaumgjörðin miklu máli. En hún nægir ekki. Hófsemi verður ekki tryggð með lagabókstaf. Okkur verður raunverulega að finnast eitthvað bogið við það að setja ævitekjur verkamanns í vasa nokkurs manns.
Ég legg til að við höldum okkur við gamlan og góðan skilning á því hvað það merkir að vera góður fjárhirðir.

Við þurfum að hlúa að lífsgildum sem ég leyfi mér að fullyrða við vitum öll innst inni, að gera okkur gott, bæði sem einstaklingum og sem samfélagi.