Fara í efni

HVER ER GLÆPUR BJARNA OG ER HANN EINN UM ÞANN GLÆP?

Umboðsmaður Alþingis segir Bjarna Benediktsson hafa skort hæfi við sölu á 22,5% hlut af eign ríkisins í Íslandsbanka. Og höfuðástæðan? Faðir hans hafi verið í hópi kaupenda en það gangi ekki upp með hliðsjón af stjórnsýslulögum.
Um þetta er ekki annað að segja en að umboðsmaður sé þarna að sinna lögboðinni skyldu sinni og að það beri honum að gera.

Sama má segja um alþingismennina sem eiga að sinna aðhaldshlutverki gagnvart framkvæmdavaldinu og gerðu það með sínum hætti í þessu tilviki; hver á fætur öðrum hafa þeir fagnað úrskurði umboðsmanns og sagt Bjarna frábærlega ábyrgan að segja af sér. Hann hafi ekki hagað sér í samræmi við regluverkið og axli nú ábyrgð – að vísu með því að hafa stólaskipti. Það virðist vera almennt mat stjórnarandstöðunnar að glansinn hafi aðeins farið af hetjudáð Bjarna við að hverfa ekki hreinlega frá borði.

Og verkalýðshreyfingin, hún var í áfalli vegna sölunnar - það erað segja, ekki yfir því að bankinn væri seldur heldur hvernig. Á þeim forsendum sagði ASÍ og einnig VR sig frá viðskiptum við Íslandsbanka. Traustið væri horfið. Eitthvað held ég að hafi skort á að almenningur hafi skilið af hverju goðin reiddust þann daginn. Hvaða traust, til hverra, til hvers? Sjálfur var ég að vona að til stæði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar - þarna horfði eg einkum vonaraugum til VR - að setja á laggirnar samfélagsbanka. Því myndi ég fagna.

En þannig hefur umræðan verið, ekki um söluna heldur hvernig að henni var staðið.


Auðvitað ættu þau öll að segja af sér

Getur verið að þegar betur er að gáð þá hafi allur mannskapurinn átt að segja af sér, öll ríkisstjórnin og þorri þingmanna?

Getur verið að höfuðglæpurinn hafi ekki verið reglugerðarbrot – þótt það sé ekki til að gera lítið úr - heldur brot gegn þjóðinni; að alvarlegasta brotið hafi verið pólitískt, nefnilega að selja verðmæta (og arðbæra) eign frá þjóðinni og ranglætið sem í því fólst að tryggja ekki öllum bröskurum, erlendum og innlendum, jafnnstöðu við jötuna, hafi verið hégómi á við hitt, að svipta þjóðina eign sinni?

Ég hallast að því.

Og eftir að ljóst er að halda eigi einkavæðingunni áfram hallast ég að því að öll ríkisstjórnin ætti að segja af sér. Og helst stjórnarandstaðan líka. Hún er ekkert síður viljug að greiða fyrir frekari einkavæðingu. Eina krafa stjórnarandstöðunnar er jafnstaða við jötuna.

Rifjum upp:

Hvað sagði hún Guðrún Johnesn um sölu banka?

Það var í ársbyrjun 2021 að ríkisstjórnin hafði ákveðið að hefja sölu Íslandsbanka. Samkvæmt skoðanakönnunum gekk það þvert á þjóðarvilja. Þetta er grundvallaratriði sem má aldrei gleymast því það skýrir reiði þjóðarinnar sem jafnan er reynt að sefa þegar eitthvað fer (tímabundið) úrskeiðis. Þá er vísifingur á lofti og síðan fylgja einstaklingsbundnar mannfórnir – á neðri hæðunum.

Á þessum tíma í ársbyrjun 2021 – eins og reyndar alltaf þegar “söluferlin” hefjast – voru ýmsir sem sögðu að ekki væri nóg með að einkavæðing fjármálakerfisins gengi þvert á þjóðarvilja heldur einnig þvert á heilbrigða skynsemi. Áhrifaríkust í þeim hópi þótti mér vera Guðrún Johnsen, hagfræðingur við viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og ráðgjafi VR. Hún talaði skýrt og varaði við sölunni við þær aðstæður sem þá voru uppi. Sannfærandi var sú ábending hennar að ekki væri alltaf allt sem sýndist, til dæmis ekki allt fengið með hæstu söluverði.
Þetta ættum við allt að þekkja. Vogunarsjóðir kaupa stundum á hrakvirði þótt einnig séu þeir tilbúnir að yfirbjóða ef þeir telja að lánasafn fjármálastofnana bjóði upp á mörg fórnarlömb fyrir rukkara sem ekki eru vandir að virðingu sinni. Fjárfestarnir vita sem er að virðingin er auðkeypt með góðum bónusum. Nákvæmlega þannig var það í bankahruninu fyrir hálfum öðrum áratug.

Umræða um bankasölu hefur fylgt okkur síðustu ár. Ég hef tekið þátt í þeirri umræðu nánast alltaf þegar tilefni hafa gefist til og það hefur verið óþægilega oft. Sjaldnast hef ég staðnæmst við persónur og leikendur eins og stundum er sagt, heldur horft á það hvað kerfisbreyting hefur í för með sér. En að sjálfsögðu hef ég horft til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka því þar liggur ábyrgðin, þar eru hinar afdrifaríku ákvarðanir teknar.

Allt er hægt ef menn bara vilja

Sú krafa sem á að reisa á hendur stjórnmálunum er að ekki aðeins að þau láti af einkavæðingaráráttu sinni heldur losi fjármálakerfið – og byrji þá á hinu ríkisrekna – undan eyðileggjandi gróðahyggju. Þetta er kosturinn við almannarekið kerfi, að einmitt þetta er hægt að gera í krafti eignarhaldsins ef viljinn er fyrir hendi.

Hér að neðan birti ég sýnishorn slíkra skrifa til þess að minna á að bankasala snýst um pólitík, ekki aðeins um einstaklinga sem fá það hlutverk að framkvæma ákvarðanir stjórnmálamanna. Vilji menn finna siðleysi þá hefji þeir leitina í pólitíkinni því þar er það að finna. Stjórnmálamenn hafa reynt í þessu ferli öllu, eins og stundum áður, að þvo hendur sínar með því að reka mann og annan. En ég heyri ekki betur en þeir ætli að halda óbreyttri stefnu, halda áfram að selja en nú þannig að fólk komi síður auga á siðleysið.

Glæpavæðing fjármálakerfisins

Bankastjórn Íslandsbanka byrjaði á því að reka bankastjóra þegar bankasalan komst í opinbera umræðu. Var sá bankastjóri óheiðarlegur? Mig grunar að svo hafi alls ekki verið. Fáir hafa þó áhuga á að vita það, allra síst þeir sem kveða upp stærstu dómana. Rekið hina seku er hrópað. Fæstir vita þó hver sektin var, hún er bara eitthvað sem liggur í loftinu. Og fyrir nákvæmlega hvað var bankinn sektaður? Hefði ef til vill ekki verið sektað ef vogunarsjóðir eða aðrir erlendir “fagfjárfestar” – fínna getur það varla orðið – hefðu keypt á hærra verði en selt var? Og vel að merkja, hafa ber í huga að stærstu erlendu fjárfestarnir eru upp til hópa samsafn aðila með vægast sagt vafasamt orðspor. Það leyfi ég mér að fullyrða og hef stundum gert áður og þá rökstutt með dæmum.

Hvatning til lesenda

Ég hvet lesendur síðunnar að lesa þessa stuttu texta sem vísað er í hér að neðan. Slóðirnar gætu verið miklu fleiri. En þarna er vitnað í íslenska stjórnmálamenn, það er þess virði að rifja upp og íhuga hvað raunverulega fyrir þeim vakir. Þá erum við líka farin að ræða um kjarna málsins, pólitíkina í einkavæðingu bankanna. Hún vill skolast af þegar hinir raunverulega ábyrgu hvítþvo sig með sjónhverfingum.

Sannið svo til. Eftir brottrekstur nokkurra starfsmanna, sem þegar er yfirgengið, og nú með stólaskiptum í Stjórnarráðinu verður haldið áfram á sömu braut eins og ekkert hafi í skorist. Þannig mun þessu vinda fram þar til almenningur setur stjórnmálunum fótinn fyrir dyrnar og segir að nú sé þetta orðið gott.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/raett-um-sidlausa-solu-a-banka

https://www.ogmundur.is/is/greinar/til-hamingju-thatcher

https://www.ogmundur.is/is/greinar/bjarni-og-benedikt-nokkrar-stadhaefingar-og-ein-spurning

https://www.ogmundur.is/is/greinar/sama-lidid-komid-a-kreik-fair-til-varna-fyrir-almenning