Fara í efni

HVER ER TILGANGURINN MEÐ ÚTTEKT Á STRÆTÓ BS?

Nýlega birti Deloitte úttekt sína á Strætó bs samkvæmt beiðni stjórnar fyrirtækisins. Sannast sagna er alltaf ástæða til að leggja við hlustir þegar slíkar úttektir líta dagsins ljós því oftar en ekki virðast þær sniðnar að fyrirfram gefnum niðurstöðum.

Í skýrslunni, sem má nálgast í heild sinni á heimasíðu Strætó bs ( bus.is ) er vissulega margt fróðlegt að finna og gagnlegar ábendingar t.d. um að samsetning eignaraðlia og flókin stjórnsýsla sé að sumu leyti til trafala.

Verra er hins vegar að sjá nú örla fyrir gömlum einkavæðingardraugum. Í skýrslunni er það nefnilega gert tortryggilegt að Strætó skuli yfirleitt lúta stjórn kjörinna fulltrúa. Í skýrslunni segir þannig: ”Pólitísk afskipti af starfsemi Strætó hafa verið töluverð og eru skaðleg fyrirtækinu. Þau koma í veg fyrir að hægt sé að marka trúverðuga stefnu fyrir félagið, stuðla að ómarkvissri stjórnun og grafa undan trúverðugleika stjórnar og stjórnenda og umboði þeirra til að taka sjálfstæðar og faglegar ákvarðanir. Þá rýrir þetta traust viðskiptavina og starfsmanna á stjórnendum fyrirtækisins og er því skaðlegt ímynd þess.”
Þetta er sver yfirlýsing. Er það virkilega óeðlilegt að kjörnir fulltrúar almennings hafi skoðanir á þessari almannaþjónustu og afskipti ef því er að skipta? Svertir það ímynd fyrirtækisins? Hvað eru menn að fara? Í úttektarskýrslunni eru rifjaðar upp vangaveltur úr fimm ára gamalli skýrslu þáverandi stjórnarmeirihluta í Reykjavík, sem BSRB gagnrýndi harðlega á sínum tíma. Þar segir m.a.: “ Skoða skal markvisst hvort hagkvæmt sé að auka útboð og lækka með því einingarkostnað.” Bíðum nú við. Nákvæmlega þetta hefur verið rækilega rannsakað og hjá BSRB höfum við fylgst með því hvernig “einingarkostnaðurinn” hefur verið lækkaður í ýmsum grannríkjum okkar með því að fækka starfsmönnum og rýra kjör þeirra með tilstilli útboða. Af hálfu BSRB hefur þessari leið því algerlega verið hafnað.
Fyrir rúmum áratug var SVR gert að hlutafélagi um skeið með þeim afleiðingum að kjör starfsmanna hröpuðu. Skyldi stjórn Strætó bs vera farin að gæla við þennan gamla draum? Ef svo er þarf stjórnin að  koma hreint fram og segja hug sinn. Það kunna þá ýmsir að vilja tjá sig um slík áform.