HVER KANN EKKI AÐ TELJA?
Annað hvort er það svo, að heimildarmaður fjölmiðla um fjöldann í kröfugöngu og útifundi í Reykjavík í gær, kann ekki að telja eða sá hinn sami er að reyna að falsa söguna. Þannig sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins frá því í fréttum í gær að fjögur hundruð manns hefðu tekið þátt í kröfugöngu verkalýðsfélaganna í Reykjavík og átta hundruð manns hefðu sótt útifundinn á Ingólfstorgi. Blaðið er í dag með flennifyrirsögn á forsíðu um fjögurhundruðmenningana!
Svipað var upp á teningnum í fyrra því einnig þá var fréttaflutningurinn fjarri öllum sanni og áhersla margra fjölmiðla greinilega að gera lítið úr þeim fjölda sem tók þátt í útifundi verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Þess má geta að áætlað er að komið hafi sjö hundruð manns í 1. maí kaffi BSRB í gær og hef ég frétt af mjög fjölmennum öðrum samsvarandi samkomum. Auðvitað er einhver hópur, einkum eldra fólks, sem ekki tekur þátt í göngu og útifundi þótt flestir geri það. Af þessu má augljóst vera þúsundir manna tóku þátt í hátíðahöldunum í gær.
Ég var í Reykjanesbæ á fjölmennum fundi í Stapanum en af frásögnum manna að dæma um hátíðahöldin í Reykjavík og margmenninu í 1. maí kaffi verkalýðsfélaga og stjórnmálaflokka, var þátttaka miklu meiri en fjölmiðlar greina frá og segja myndir frá göngunni, útifundinum á Ingólfstorgi og í BSRB kaffinu sína sögu eins og sjá má HÉR á heimasíðu samtakanna.