Hver má tala um SPRON?
Nú er komið á daginn að ekki verður hægt að ná saman fundi í Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins um málefni sparisjóðanna fyrir þingbyrjun vegna deilna um hver sé hæfur og hver vanhæfur til að fjalla um málið. Í hnotskurn snýst málið um að formaður nefndarinnar Pétur H. Blöndal er sjálfur hagsmunaaðili í hinum harðvítugu átökum um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, og hefur hann reyndar staðið í fararbroddi stofnfjárfesta, sem hafa viljað hagnast á hlut sínum umfram það sem við mörg teljum vera í samræmi við lög og vissulega þær hefðir sem sparisjóðirnir hvíla á. Hvað sem þessu líður taldi þingflokkur VG mjög brýnt að fá fund um fyrirhugaða yfirtöku KB banka á SPRON og heyra sjónarmið sparisjóðanna í landinu og freista þess að ná samkomulagi um lagabreytingar til varnar sparisjóðakerfinu ( sjá m.a. umfjöllun hér á síðunni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-vill-eydileggja-spron ).
Mér hefði þótt eðlilegt að Pétur H.Blöndal byðist sjálfur til þess að eigin frumkvæði að víkja sæti formanns Efnahags- og viðskiptanefndar á meðan fjallað væri um málið og tók því fegins hendi þegar sú tillaga kom fram frá stjórnarmeirihlutanum í nefndinni. Við þetta vildu fulltrúar Samfylkingar í Efnahags- og viðskiptanefnd hins vegar ekki una og þegar málið kom í framhaldinu til umfjöllunar í forsætisnefnd Alþingis, var fulltrúi þess flokks einnig við sama heygarðshorn. Samfylkingunni nægði ekki að Pétur H Blöndal viki úr sæti formanns heldur var sú krafa reist að hann yrði einnig gerður brottrækur af fundi nefndarinnar, með öðrum orðum að úrskurðað yrði að á vettvangi nefndarinnar mætti hann ekki einu sinni taka þátt í umræðu um málið!
Að mínu mati keyrir hér um þverbak og ég spyr hvaða tilgangi þessi málatilbúnaður þjóni og hvar málafylgja af þessu tagi komi til með að enda? Hver er yfirleitt hæfur til að tala og hver má hafa skoðun og þá á hverju?
Þegar deilt var um þessi efni í Efnahags- og viðskiptanefnd náðist samkomulag á milli stjórnarmeirihlutans og fulltrúa Samfylkingar að forsætisnefnd skyldi fá málið til umfjöllunar, hún myndi freista þess að kveða upp úr um hvort formaður nefndarinnar væri hæfur eða vanhæfur í umfjöllun um SPRON. Samfylkingin kvaðst þó hafa fyrirvara á um að hlíta úrskurði forsætisnefndar, gott ef málið ætti ekki heima hjá dómstólum. Ég taldi hins vegar að það ætti að útkljá á vettvangi Efnahags- og viðskiptanefndar en fyrst og síðast ætti úrskurðarvaldið heima í pólitískri samvisku Péturs sjálfs!
Á þessu máli eru hliðar sem vissulega er ástæða til að ræða í góðu tómi. En það sem upp úr stendur núna er að vegna deilna um formsatriði hefur ekki fengist umræða um stórmál sem varðar þjóðina alla. Þetta er skömm og hneisa. Og ef Pétur H. Blöndal mátti ekki fjalla um SPRON vegna persónulegra hagsmuna, hvers vegna stofnuðu menn þá ekki rannsóknarrétt um hver væri hæfur og hver vanhæfur að fjalla um eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra þegar það kom til kastsa Alþingis? Hver mátti flytja það mál, hver var hæfur til að ræða það í nefnd og hver var þess umkominn að greiða um það atkvæði?