HVERJIR GAGNRÝNA SVANDÍSI OG HVERS VEGNA?
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sætir nú gagnrýni og segir á forsíðu Morgunblaðsins “að nú hitni undir ráðherra”. Forsætisráðherrann “leitar að bóluefni”, segir blaðið og vísar í símtöl sem Katrín Jakobsdóttir hafi átt við aðskiljanlega aðila, þar á meðal Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Inni í blaðinu sjáum við síðan lyfjainnflytjendur bera sig illa og barma sér vegna nýrrar reglugerðar um lyfjamál, alls óskylt þessu: “Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um lyfjaverð kann að stefna lyfjaframboði á Íslandi í stórhættu. Framleiðendur og lyfjaheildsölur hafa gert margháttaðar athugasemdir við framkomin drög að reglugerð … Þar sé öll áhersla lögð á óraunhæfa aðhaldskröfu…” Það er nefnilega það. Verið er að þrengja um of að lyfjainnflytjendum, það á að reyna að draga úr kostnaðui ríkis og sjúklinga vegna lyfja.
Ég man vel slíkan málflutning sem ég þurfti að gríma við sem heilbrigðisráðherra á sínum tíma þegar við vorum að færa lyfjaverð niður. Og nú langar mig til að segja eftirfarandi:
Svandís Svavarsdóttir hefur að mínu mati staðið sig vel sem heilbrigðisráðherra. Hún hefur gert það sem í hennar valdi hefur staðið til að efla heilsugæsluna, draga úr sjúklingagjöldum og sporna gegn einkavæðingu. Í öllu þessu stend ég algerlega með henni.
Það gera hins vegar ekki allir. Verum vakandi fyrir “gagnrýni” þeirra sem nú tengja alls óskylt mál til að koma höggi á heilbrigðisráðherrann. Gagnrýni er góð og nauðsynleg, hvort sem er á innlenda aðila eða erlenda sem við tengjumst en menn þurfa þá líka að koma hreint til dyranna og setja gagnrýni sína fram á réttum forsendum. Ég hef grun um að ógagnsætt og gruggugt vatn bóluefnasamninga vilji einhverjr nota eiginhagsmunum sínum til framdráttar. Þar vísa ég m.a. til framsetningar Morgunblaðsins í dag.
Með fullri virðingu fyrir símtölum forsætisráðherra út til Brüssel, sem þarna er fjallað um, þá hef ég grun um að svona gerist kaupin einfaldlega ekki á eyrinni. Ekki nema um einhverja táknræna sýndargerninga sé að ræða. Stóru málin ráðast af öðrum og meiri kröftum nema náttúrlega þar sem einræðisstjórnir eiga í hlut. Þá er hægt að slá á þráðinn ef slíku sauðahúsi þykir það þjóna sínum hagsmunum. Ekki vildi ég eiga mitt undir þeim. Þetta segi ég í ljósi þeirrar umræðu sem nú fer fram í ýmsum fjölmiðlum um meintar bráðalausnir sem meint ofurmenni geti tryggt okkur.
Samningar um bóluefnin snúast um gríðarlegar peningaupphæðir. Þar má því miður ætla að hver sé sjálfum sér næstur. Það eru fátæk ríki heimsins að uppgötva enn eina ferðina.
Hitt virðist vera tilfellið ef marka má þýska rímartitð Der Spigel að Evrópusambandið hafi ekki haldið eins vel á þessum málum og óskandi hefði verið en þar erum við með í för að einhverju marki alla vega. Ekki hefur það reynst sérlega áreiðanlegur félagsskapur og því full ásætða í þessu máli sem öðrum að styðjast við eigin dómgreind. Hún er þó dæmd til að hrökkva skammt í ljósi þeirrar miklu óvissu sem ríkir í þessum málum. Þess vegna kannski rétt að fara varlega í alla stóru-dóma.
Hér er upplýsandi grein um stöðu mála vestan hafs og austan: https://www.mbl.is/frettir/erlent/2020/12/19/esb_missti_af_boluefnislestinni/