Fara í efni

HVERJUM VILL RIO TINTO KOMA Á HNÉN?

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 26.02.16.
Verkalýðsfélögin í álverinu í Straumsvík hafa löngum fengið orð fyrir að halda vel utan um sín mál. Það hafa þau gert með því að stuðla að sem mestum kjarabótum fyrir félagsfólk sitt bæði í kaupi og réttindum og  þá einnig í öryggi og aðbúnaði. Og það sem meira er, verkalýðsfélögin hafa reynt að tryggja að ákveðið réttlæti ríkti í launadreifingunni. Þetta hefur þeim tekist bærilega í langan tíma með samstilltu félagslegu átaki, samstöðu manna innan skiplegra samtaka. Þetta fyrirkomulag hafa stjórnendur í Straumsvík almennt viðurkennt fram til þessa enda hefur ríkt um það þokkaleg sátt á Íslandi fram á þennan dag.

Vilja geta skammtað kjör og réttindi

Spuring er hvort við séum nú að verða vitni að tilraunum til að rjúfa þá sátt. Ekki af hálfu íslenskra atvinnurekenda, heldur erlendra eigenda álversins í Straumsvík. Það er nú í eigu Rio Tinto Alcan, sem kunnugt er. Á þeim bænum er lítil hrifning á tilvist verkalýðsfélaga almennt og þykir ákjósanlegra fyrirkomulag að mæta launamanninum einum á báti fremur en í félagi við aðra. Ferill fyrirtækisins erlendis ber þessu viðhorfi vott.
Veik verkalýðshreyfing þýðir launadreifing á forsendum atvinnurekandans, auk þess sem veikur mótherji leitar síður upp á dekk með ágreiningsmál. Verktökufyrirkomulag sem Rio Tinto krefst að verði innleitt í ríkari mæli en verið hefur, þýðir þannig aukin völd atvinnurekandans. Líki honum ekki verktakinn er auðvelt að losa sig við hann. Það er erfiðara að eiga við jaxla í broddi stórrar fylkingar.

Verkalýðsfélögunum vorkunn

Fyrir skömmu sótti ég upplýsingafund forsvarsmanna verkalýðsfélaganna í álverinu í Straumsvík um stöðu kjaradeilunnar þar. Á fundinum kom fram að forsvarsmennirnir höfðu áhyggjur enda umhugað um að tryggja framtíð vinnustaðarins. Þeim er vissulega vorkunn því nú glíma þeir við atvinnurekanda sem stöðugt hefur í hótunum að loka vinnustaðnum og svipta starfsfólkið þar með vinnunni, verði ekki samið einsog honum best líkar.

SA vorkunn líka

Samtök íslenskra atvinnurekenda hafa ekki alltaf verið mér að skapi, en þau mega eiga það að vilja almennt stuðla að félagslegu kjaraumhverfi. Að vísu á þetta umhverfi ekki að taka til þeirra sjálfra en látum það liggja á milli hluta að sinni. Þegar á heildina er litið hefur verið vilji af hálfu atvinnurekenda hér á landi að semja um kaup og kjör á félagslegum grunni. Þessi afstaða hefur verið mikils virði. Það þekkja þeir sem kynnst hafa raunverulegum frumskógarlögmálum einstaklingsbundinna samskipta atvinnurekenda og launafólks.
En jafnvel þótt SA hafi skilning á félagslegum samningum, á það ekki við um þann aðila sem þau starfa í umboði fyrir í Straumsvík. Ég get mér til um að símtölin frá honum hafi ekki alltaf verið auðveld fremur en við aðra þá sem kunna að skipa fyrir en ekki að hlusta. Að þessu leyti er SA því vorkunn.

Hvað er í húfi?

Þótt verkalýðsfélögunum kunni að vera vorkunn biðja þau ekki um vorkunnsemi. Aðeins skilning á því hvað það hefur í för með sér að brjóta niður félagslega aðkomu launafólks að kjarasamningum. Þann rétt eru félögin staðföst að verja og líkar mér vel sá baráttuandi sem einkennir afstöðu þeirra. Þarna eru þau að standa vaktina fyrir íslenskt samfélag í heild sinni! Sama þyrftum við að geta sagt um Samtök atvinnulífsins, að þau sýni vilja til að standa  vörð um samskiptaform á vinnnumarkaði sem reynst hefur farsælt.

Raforkuverðið

Annars hef ég grunsemdir um að hótanir um lokun beinist að fleirum en skipulagðri verkalýðshreyfingu. Afkoma álversins ræðst af markaðsverði á áli, rekstrakostnaði og síðast en ekki síst af raforkuverði.
Gæti verið að þegar allt kemur til alls þá sé það ekki bara verkalýðshreyfingunni og samtökum atvinnurekenda sem Rio Tinto vilji koma á hnén? Getur verið að á endanum sé það einn aðili til viðbótar sem ætlast sé til að knékrjúpi? Þar er ég að sjálfsögðu að tala um seljanda orkunnar, íslenska ríkið.
Það má aldrei verða að deilan verði leyst með því að stjórnvöld knékrjúpi með því að taka upp samninga um raforkuverð.
Þörf er á breiðri samstöðu í þjóðfélaginu til varnar miklum sameiginlegum félagslegum og fjárhagslegum hagsmunum. Þetta er ekki mál álversmanna einna!