Hvernig má tryggja sjálfstæði fjölmiðla?
Talsverð umræða hefur orðið í kjölfar uppsagna á Stöð tvo. Slæmt er að sjá á eftir mörgu góðu fólki þaðan úr starfi – alla vega í bili. Á síðum blaðanna hefur verið rætt um tengsl fjármagns og fréttamennsku og í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld bar einmitt þetta á góma. Þar voru mættir í boði Elínar Hirst þeir Árni Snævarr, Jónas Kristjánsson og Magnús Hreggviðsson. Umræðan var áhugaverð og fróðleg um margt. Fram komu áhyggjur yfir því að sterkir aðilar í viðskiptalífinu hösluðu sér völl í fjölmiðlum, hefðu þá sem "aukagetu " einsog það var orðað, ekki til að hagnast á þeim heldur til að nýta sér þá sem valdatæki ef svo bæri undir.
Það kom mér á óvart að enginn í umræðunum skyldi vekja máls á því að hér er komið að einni meginástæðunni fyrir því að mikilvægt er talið að tryggja kjölfestu í fjölmiðlun með útvarpi í almannaeign. Árni Snævarr gekk meira að segja svo langt að draga samasemmerki annars vegar á milli afskipta eigenda Stöðvar tvö af frétt um laxveiðiferð og hins vegar því að útvarpsstjóri á ríkisfjölmiðli gæti freistast til að biðja um gott veður hjá fjármálaráðherra ef hann sæi fram á að hann sprengdi ramma fjárlaga. Í þessu felst ákveðinn misskilningur. Ríkisútvarpið er rekið með lögbundnum iðgjöldum og auglýsingafé. Fari Ríkisútvarpið fram úr áætlun verður það að leita eftir lánsfé á markaði með tilheyrandi fjármagnskostnaði. Auðvitað kemur pólitíkin að ákvörðun um iðgjöldin en þræðirnir eru þar orðnir nokkuð langir. Það er gert með ásetningi til þess að stuðla að því að miðillinn verði sem minnst háður fjárveitingavaldinu.
Hitt er svo annað mál að það getur hent ríkisfjölmiðil að gerast hlutdrægur og of handgenginn stjórnmálaöflum. Þess vegna er mikilvægt að búa svo um hnúta, að sjálfstæði sé tryggt jafnframt því sem eðlilegt aðhald lýðræðislega kjörinna fulltrúa sé til staðar. Stjórnkerfi ríkisfjölmiðils þarf að sníða með þetta í huga og síðan þurfum við öll að tryggja hitt: Stöðuga gagnrýna umfjöllun um fjölmiðlun í landinu og hvatningu til þeirra að rækja skyldur sínar sem allra best.