Fara í efni

HVERNIG VÆRI AÐ KJÓSA AFTUR OG SVO AFTUR?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23/24.10.21.
Hálf dapurlegt er að fylgjast með vandræðaganginum yfir úrslitum kosninganna. Eða öllu heldur við að finna það út hver úrslitin raunverulega voru. Öllum er eiginlega vorkunn. Og ekkert okkar kann ráð sem allir yrðu sáttir við. Spurt er hvort telja eigi aftur eða kjósa eigi aftur eða láta gott heita við svo búið. Ég hef helst verið á því síðastnefnda en er nú að hallast að valkosti sem mér finnst hafa margt til síns ágætis: Kjósa aftur og ekki bara í einu kjördæmi heldur í landinu öllu.

Ég hef hreyft þessari tillögu við nokkra einstaklinga sem réttilega gruna mig um að vera að grínast. En svo vitum við að öllu gamni fylgir nokkur alvara.
Mótbárurnar hafa ekki látið á sér standa. Bent er á að þegar fólk kjósi eigi það helst ekki að vita hvað aðrir kusu eða hvers vegna skyldu skoðanakannanir vera bannaðar í sumum löndum rétt fyrir kosningar? Það er til þess, bæta viðmælendur mínir við, að enginn viti hvað aðrir hugðust fyrir eða hver yrði líkleg niðurstaða í fyrirhuguðum kosningum. Allir eigi að vera óbundnir hugarfarslega svo þeir velji þann kost sem þeim raunverulega finnst vera bestur óháð því hvað aðrir geri.

Það er nokkuð til í þessu.

En svo má spyrja hvort það sé ekki einmitt ágætt að menn sjái útkomuna og hvernig kaupin gerast á eyrinni við stjórnarmyndun og geti síðan endurskoðað hug sinn í því ljósi. Til dæmis ef tilvonandi stjórnarflokkar sjá ekkert athugavert við að grunninnviðir þjóðarinnar verði bröskurum að bráð.

Til lengri tíma litið mætti ná þessu markmiði að einhverju leyti með tíðari kosningum. Kjósa til dæmis á tveggja ára fresti í stað fjögurra ára eða jafnvel árlega. Kosningar eru miklu minna mál en þær voru fyrr á tíð, ég tala náttúrlega ekki um eftir að þær verða rafrænar en líklegt má heita að svo verði í náinni framtíð.

Stjórnmálalflokkunum gæfist þá minni tími til að færa verk sín eða verkleysi yfir á auglýsingaplaköt sem segja okkur hvað þeir vilja að við höldum að þeir séu. Svo er hitt til í dæminu að flokkarnir vilji að við hættum að gera okkur rellu út af stjórnmálum, varla þess virði að rýna ofan í kjölinn á þeim, “ætli ég kjósi ekki bara Framsókn”. Þetta síðastnefnda er komið úr vinsælustu auglýsingunni en hún þótti svo brilljant að rétt væri að verðlauna hana þótt hún væri náttúrlega eins ómálefnaleg og hægt er að komast. En hvaða máli skiptir það ef hún gerir sitt gagn?  

Þegar kosningarnar voru afstaðnar og auglýsingavíman runnin af kjósendum rann hversdagurinn upp að nýju. Þá blasti við niðurstaðan úr fjörinu frá kvöldinu áður, hvernig þjóðin í sameiningu hafði skipað til sætis við Austurvöll. Þá, eins og verða vill í timburmönnum, hugsuðu eflaust einhverjir að helst hefðu þeir viljað breyta á annan veg í kjörklefanum en þeir gerðu.

Nú væri það of seint. Nema náttúrlega ef kosið yrði aftur. Og síðan aftur og aftur þannig að stjórnmálamenn kæmust aldrei undan glansmyndunum sem segja okkur hvað þeir vilja að við höldum að þeir séu.

Tíðari kosningar gætu þannig breytt stjórnmálunum – kannski gert stjórnmál að stjórnmálum á ný, í stað baráttu um falsímyndir á ljósaskiltum.