Fara í efni

HVERNIG VÆRI AÐ SELJA BÍLINN PÁLL?

Ruv bilinn PM 01
Ruv bilinn PM 01

Nýlega bárust fréttir af uppsögnum starfsmanna í RÚV ohf. Þessu mótmælti Svanhildur Kaaber, sem sæti á í stjórn stofnunarinnar fyrir hönd Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Hún benti á að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við fyrirheit sín um fjárframlög til stofnunarinnar. Menntamálaráðherra sagði eitthvað á þá leið að RÚV yrði einsog aðrir að haga seglum eftir vindi og nú blési ekki byrlega í þjóðarbúskapnum. Þessi svör duga ekki því fólki sem er með uppsagnarbréfin í höndunum. Það hélt að orð skyldu standa og sannast sagna þá er nú ekki farið að þrengja svo að ríkispyngjunni að ríkisstjórnin finni þar afsökun fyrir að uppfylla ekki fyrirheit sín.
Þar með eru stjórnendur RÚV þó ekki lausir við sínar skyldur. Þeim ber að leita ALLRA leiða til að jafna kjörin í stofnuninni, hækka þá mest í launum sem minnst hafa og spara þar sem unnt er ÁÐUR en gripið er til uppsagna. Í þessu samhengi leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til útvarpsstjórans hvort hann gæti ekki byrjað á að sýna góðan vilja í verki með því að afsala sér glæsikerrunni sem hann lét RÚV ohf kaupa undir sig. Þetta segi ég í mikilli alvöru og af góðum hug (þótt mér bjóði óneitanlega í grun að þessari tillögu verði ekki tekið fagnandi). En þegar þrengir að eiga stjórnendur að sýna í verki að þeim sé alvara: Þeir eiga að byrja á sjálfum sér.