HVERNIG VÆRI AÐ TAKA Á SPILAVÍTISVANDANUM?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 16/17.09.17.
Fyrir nokkru síðan beindi fréttamaður til mín þeirri fyrirspurn hvort eftirliti með spilafyrirtækjum hefði verið sinnt sem skyldi í minni tíð sem ráðherra dómsmála. Var sérstaklega vísað í lagagrein sem kveður á um endurskoðun og eftirlit ráðherra með reikningum Íslandspila sem eru regnhlífarsamtök SÁÁ, Landsbjargar og Rauða krossins. Fyrirspurnin var síðan ítrekuð þannig að ég spurðist fyrir um það innan stjórnsýslunnar hvort fyrir henni væri fótur. Svo var því miður en síðar hafði verið bætt úr þessum mistökum sem skrifast vissulega á ráðherra sem fara með yfirstjórn málaflokksins.
En hvað sem þessu líður stendur sú nöturlega staðreynd óhögguð að eftirlit með fjárhættuspilum hefur verið og er enn í molum, svo gallað er allt lagumhverfið og þar með sjálft eftirlits- og aðhaldskerfið.
Fá mál hef ég lagt mig meira eftir að skilja en þetta kerfi og þar með rennslið á þeim tugum milljarða sem fara um hendur Íslandsspila og Háskóla Íslands sem sér sóma sinn í því að reka illræmdustu spilabúllurnar undir heitunum Gullnáman og Háspenna. Þær nafngiftir segja sína sögu!
Ég gerði mér grein fyrir því að við ramman yrði reip að draga við breytingar á þessu kerfi og að bæði yrði þörf á málamiðlunum og að gefa yrði nokkurn aðlögunartíma ef árangur ætti að nást. Ekki hafði mig þó órað fyrir því að fyrirstaðan yrði jafn mikil og raun bar vitni. Reyndar hefði þetta ekki átt að koma á óvart. Spilafíknin getur nefnilega af sér tvenns konar fíkla, annars vegar þá sem hætta eigin fjármunum og síðan hina sem njóta góðs af.
Og báðir hópar eiga síðan aðstandendur. Þeir síðarnefndu eiga sér meðal annars aðstandendur innan vébanda Alþingis sem vita sem er að skerðing á tekjustreymi upp úr vösum spilafíkla kallar á ný fjárhagsleg úrræði fyrir þiggjendur fjárins og síðan er náttúrlega hitt að það er ekki talið til vinsælda fallið að ganga gegn hagsmunum þjóðþrifastofnana og samtaka á borð við Landsbjörg, SÁÁ, Rauða krossinn, Háskóla Íslands og síðan Öryrkjabandalagið, ungmennafélögin og íþróttahreyfinguna en allir þessir aðilar nærast á spilafíkninni.
Þessu kynntist ég vel á Alþingi í umræðu um þessi mál og er eflaust skýringin á því að þingsalurinn tæmdist jafnan þegar þessi mál bar á góma. Þó létu yfirleitt einhverjir sig hafa það að koma sér fyrir í skotgröfunum þegar grípa þurfti til varna fyrir kerfið.
Þau áform sem ég hafði á prjónum voru þessi: Happdrætti og spilavítisvélar yrðu sett undir einn hatt og þar með komið í veg fyrir innbyrðis samkeppni sem byggði á því að finna árangursríkustu lokkunarleikina. Í annan stað yrði netspilun viðurkennd sem staðreynd en komið á hana böndum. Í þriðja lagi yrði sett á fót sjálfstæður eftirlitsaðili sem gerði ekkert annað frá morgni til kvölds en sinna þessum málum með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.
Allt þetta kemur nú upp í hugann þegar blaðamenn á DV leiddu í ljós fyrir fáeinum dögum að Íslandsspil hefðu fengið Gallup fyrirtækið til að hafa uppi á spilafíklum til að taka þátt í tilraunum á sjálfum sér til að finna út hver væri árangursríkust leið til að hafa af þeim fé. Með öðrum orðum, taka þátt í tilraun þeim sjálfum til höfuðs!
Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis í sálarlífi þessa kerfis og aðstandenda þess þegar svona er komið. Hvernig væri nú að gera gangskör að því að færa þessi mál til betri vegar? Það er hægt.
Undirbúningsvinnan hefur þegar verið unnin.