Fara í efni

HVERS EIGA SUÐURNESJAMENN AÐ GJALDA?

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 24.02.14.
Á árinu 2011 var hafist handa um stórátak til að efla almenningssamgöngur, ekki aðeins á þéttbýlissvæðunum norðanlands og á höfuðborgarsvæðinu, heldur ekki síður í strjálbýlli byggðum landsins. Víða skorti samgöngunet sem hægt væri að reiða sig á innan byggðakjarna og á milli þeirra. Í samráði við sveitarfélögin var afráðið að fela landshluta-samtökum sveitarfélaga að annast verkefnið enda væri hagsmunum íbúanna þannig best þjónað þar sem þau hefðu besta yfirsýn og væru í bestri aðstöðu til utanumhalds, en að samningsgerðinni kæmi síðan Vegagerðin fyrir hönd ríkisins sem jafnframt hefði með höndum styrkveitingar til að halda uppi samgöngum þar sem slíkt væri nauðsynlegt.

Rök og gagnrök

Til að þetta gæti gengið eftir var gerð breyting á lögum um sérleyfishafa sem gerði landshlutasamtökum sveitarfélaga kleift að öðlast einkaleyfi.
Lagaheimild þessi er skýr og féll almennt í góðan jarðveg hjá sveitarfélögunum og hjá almenningi að því er best varð séð. En undantekningin sannar regluna því þeir voru til sem ekki var skemmt. Fyrst ber að nefna Samkeppniseftirlitið en frá upphafi mátti merkja að þar á bæ vildu menn hafa óhefta samkeppni sem frekast mætti á þessu sviði sem öðrum. Gagnrök við þessu viðhorfi hafa verið þau að þar með myndi það gerast að arðbærustu leiðirnar yrðu plokkaðar út af fyrirtækjum, sem sæju að þar væri hagnaðar von. Skattgreiðendur yrðu svo látnir um að fjármagna það sem ekki gæfi arð. Þetta er gömul saga og ný. Þessi fyrirtæki sem ætlað var að reka starfsemi sína innan almannakerfis í stað þess að sitja undir júgrum mjólkurkúnna einna, fóru nú í mikinn leiðangur til að reyna að fá hnekkt nýfenginni réttarstöðu sveitarfélaganna.

Í óþökk Suðurnesjamanna

Og viti menn! Þeir höfðu árangur af brölti sínu því við ríkisstjórnarskiptin urðu straumhvörf í málinu. Nýr innanríkisráðherra hlustaði á áeggjan og umkvartanir Samkeppniseftirlitsins og einstakra fyrirtækja og tók þær framyfir óskir sveitarfélaganna. Hinn 19. desember var samningurinn við sveitarfélögin á Suðurnesjum settur í uppnám með því að taka einhliða út úr honum sérleyfið á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur! Fáheyrt er að samningi af þessu tagi sé rift einhliða. Átti ég orðastað um þetta efni við innanríkisráðherra á Alþingi. Kvaðst ráðherra ekki hafa átt annarra kosta völ en að segja upp þessum þætti samninga við Suðurnesjamenn vegna andstöðu Samkeppniseftirlitsins og síðan hins, að einkaleyfi sveitarfélaganna stríddu gegn EES rétti.

Samkeppniseftirliti og EES ranglega veifað

Nú vill svo til að hvorugt er rétt. Samkeppniseftirlitið hefur ekki ákvörðunarvald í þessu efni. Það getur komið með ábendingar og hlutast til þar sem óvéfengjanlegt er að lög hafi verið brotin en vald þess er ekki umfram sérlög sem Alþingi setur. Í annan stað þá stríðir þetta ekki gegn EES rétti. Almenningssamgöngur eru í höndum sveitarfélaga eða samtaka þeirra á flestum ef ekki öllum Norðurlandanna. Framkvæmdastjórn ESB hefur í ofanálag staðfest að heimilt sé að veita sérleyfi og ríkisstyrki þótt ein leið í kerfi standi undir sér ef kerfið í heild stendur ekki undir sér.

Hvað er svona merkilegt við Helsinki?

Í höfuðborg Finnlands, Helsinki, eru samgöngur til og frá  alþjóðaflugvellinum, sem er í nokkurri fjarlægð frá miðborginni, hluti af almannakerfinu.
Hvers vegna skyldu samgöngur á milli Helsinkiflugvallar og miðborgarinnar koma sérstaklega upp í hugann? Jú, það er vegna þess að þarna stendur hnífurinn í kúnni í hinni íslensku deilu. Í Helsinki nýtur borgin samlegðar með fólksflutningum til og frá alþjóðaflugvellinum sem þannig reynist höfuðborginni ákveðin auðlind.
Hér á landi virðast sumir hverjir hreinlega ekki geta unnt sveitarfélögum á Suðurnesjum þess að fá notið þeirrar auðlindar sem nálægð við alþjóðaflugvöllinn gæti verið þeim hvað samgöngur varðar. Reynslan sýnir að sveitarfélögin fara með vald sitt af mikilli varfærni og ábyrgð. Sveitarfélögin hafa haft umrætt sérleyfi á sinni hendi og keyra Kynnisferðir á grundvelli þess leyfis. Ítrekað hafa komið fram kröfur um að hækka verðið umfram það sem sveitarfélögin hafa viljað heimila, þannig að það er þeim að þakka en ekki kostnaðarsamri samkeppni að verðið hefur haldist tiltölulega hófsamt. Góð þjónusta og hófstillt verð er ekki þrátt fyrir aðkomu sveitarfélaganna heldur vegna hennar!

Væri ráð að hlusta?

Það eina sem vakir fyrir sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum, að því er ég best veit, er að reyna að nýta möguleg samlegðaráhrif inn í samgöngukerfi Suðurnesja. Sveitarfélögin þar eru ekki svo fjárhagslega burðug að þau geti rekið öflugt  sjálfbært samgöngunet. Með samnýtingu og samlegð í rekstri gæti hins vegar verið unnt að stíga framfaraskref samfélaginu til hagsbóta. Hvers vegna á að banna það? Hvers vegna þarf að láta einkahagsmuni ganga fyrir? Hvers vegna er hlustað á óskir Samkeppniseftirlitsins og orð þess og ábendingar lögð að jöfnu við lagabókstaf - og langt ofar óskum samfélagsins?
Þetta er pólitískt mál en ekki endilega flokkspólitískt því margir pólitískir samherjar innanríkisráðherra í Sjálfstæðisflokknum eru á öndverðum meiði við ráðherrann. Væri ráð að hlusta á þá?