HVERS VEGNA ÉG STYÐ SKULDALEÐIRÉTTINGUNA
16.11.2014
Því miður brást ríkisstjórnin í því að lagfæra skuldaleiðréttingarráðstafanir sínar og gera þær félagslega ásættanlegri eins og lagt var til þegar þingið lögfesti ráðstafanirnar síðastliðið vor. Ég gerði þá grein fyrir þeirri grundvallarafstöðu minni að ég væri þessum ráðstöfunum hlynntur en gæti ekki greitt þeim atkvæði mitt nema tilteknar breytingar yrðu gerðar á heildarpakkanum. Horfði ég þá til lánsveðshópsins, leigjenda og búseta sérstaklega auk þess sem tekjutengingar þyrftu að vera markvissari.
Þá hef ég sett þá fyrirvara sem standa mjög stífir af minni hálfu að öll fjármögnunin komi frá bönkunum og þá sérstaklega þrotabúum þeirra sem fram til þessa hafa ekki verið skattlögð. Ég gef mér enn að öll þessi fjármögnun komi úr þessari átt. Það er algert grundvallaratriði.
Hvers vegna er ég þessu fylgjandi? Allar götur frá því að ég fór að hafa afskipti af þjóðfélagsmálum hefur mér þótt skipta gríðarlegu máli að stemma stigu við vaxtaokri. Hefur þá einu gilt hvort hluti vaxtanna eru kallaðir verðtrygging eða einvörðungu vextir. Frá því við tókum upp verðtryggingu hefur almenna reglan verið sú að fjármagnseigendur hafa búið við varnir en lántakendur ekki. Tekjur þeirra hafa sveiflast til en verðtryggingin og breytilegir vextir hafa búið til beltið og axlaböndin fyrir lánveitendur. Þá hef ég og alla tíð bent á hættuna af því að færa verðmæti frá heimilum og framleiðslu yfir til fjármagnisins með háum vöxtum og óeðlilegri arðtöku.
Á árinu 1983 þegar launavísitalan var tekin úr sambandi í óðaverðbólgu varð alvarelgur forsendubrestur. Almenningur krafðist þess að því sem oftekið var yrði skilað aftur. Sigtúnshópurinn var hreyfingin yfirleitt nefnd sem að þessum kröfum stóð. Þar átti ég hlut að máli.
Í verkalýðsbaráttunni hamraði ég alla tíð á óhóflegum fjármagnsflutningum frá heimilum og almennu atvinnulífi yfir í fjármagnsgeirann. Í október 2008 lagði ég síðan, sem formaður BSRB, formlega til við þáverandi ríkisstjórn að lánskjaravísitalan yrði tekin úr sambandi og reyndar aðrar vísitölur tímabundið á meðan fyrirsjáanlegt verðbólguskot gengi yfir. Á þetta var ekki fallist. Verðbólguskotið kom og hækkaði öll vísitölulán í einu vetfangi um meira en tuttugu prósent. Það var þungt högg því ofan á vísitölunni voru til þess að gera háir vextir. Þessu var hafnað.
Við þessar aðstæður kom fram hreyfing (Samtök heimilanna) sem krafðist þess að lánveitendur annars vegar og lántakendur hins vegar, skyldu axla til jafns byrðarnar af verðbólguskotinu. Þetta var kölluð almenn aðgerð, gagnstætt 110% leiðinni til dæmis sem sögð var sértæk og gilti hið sama um stuðning með sérstökum vaxtabótum. Vandinn við hinar fyrri „sértæku" aðgerðir var sá að þær skildu eftir óbætta hjá garði alla þá sem ekki voru skuldsettir umfram 110% húsnæðiseignar sinnar og gátu greitt af lánum sínum þótt með herkjum væri. Frá því er skemmst að segja að illu heilli náðist ekki samstaða um það í kjölfar hrunsins að fara almenna niðurfærsluleið, enda eitur í beinum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjálfur var ég hins vegar alla tíð eindregið á þessari línu og studdi því þessa kröfu Samtaka heimilanna heilshugar.
Skuldaleiðréttingin gengur nákvæmlega út á þetta. Þess vegna þarf engum að koma á óvart að ég skuli vera henni hlynntur en með fyrrgreindum fyrirvörum. Ég lít á þessa ráðstöfun sem millifærslu frá lánveitendum til lántakenda og er hún fullkomlega réttmæt og eðlileg og ber ekki að blanda saman við almenna skattheimtu þótt af tæknilegum ástæðum millifærslan fari um ríkissjóð. Þá er á það að líta að þetta er tímabundin aðgerð.
Svo skulum við skattleggja fjármálakerfið til frambúðar á þann hátt sem við teljum eðlilegt og framar öllu setja því regluverk sem verja samfélagið.
Verkefnið nú er svo einnig að knýja stjórnvöld til að draga ekki úr vaxtabótum einsog gert er ráð fyrir á fjörlögum. Enda þótt miklu máli skipti að færa niður höfuðstól húsnæðislána verða mörg heimili eftir sem áður mjög þurfandi fyrir ríflegar vaxtabætur.
Hér gerði ég grein fyrir afstöðu minni síðastliðið vor:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gerdi-grein-fyrir-afstodu-minni
https://www.ogmundur.is/is/greinar/yfirbordskennd-sagnfraedi-um-skuldamal
https://www.ogmundur.is/is/greinar/vangaveltur-um-skuldaleidrettingu