Hvert stefnir í íslenskri fjölmiðlun?
Á stundum eins og nú reynir mjög á fjölmiðla. Bandaríkin og Bretland herja á Írak og bæði bandarískir og breskir fjölmiðlar fylgja ríkisstjórnum sínum mjög að málum. Íslenskir fjölmiðlar eru svo aftur háðir engisaxneskri fjölmiðlun á heimsvísu. Það heyrir til undantekninga að þeir brjótist út úr áróðursmaskínunni (Spegillinn, Útvarp Saga o.fl. hafa þó átt góða spretti). Jón Torfason skrifar mjög athyglisverða fjölmiðlagagnrýni á vefsíðuna í dag þar sem hann tekur á þessum málum. Grein hans heitir Ég sakna Þjóðviljans. Jón saknar reyndar einnig Alþýðublaðsins og Tímans. Hann segir m.a.: " Við brotthvarf þessara blaða er dagblaðaflóran orðin snöggtum fátæklegri. Hægri pressan er ráðandi og heldur uppi jöfnum og hörðum hægri áróðri. Erlendar og innlendar fréttir eru algjörlega bundnar við bandaríska og breska heimsmynd og því haldið fram leynt og ljóst að sú mynd af heiminum sé hin eina rétta. Af innlendum vettvangi eru aldrei birtar fréttir sem koma peningaöflunum eða Sjálfstæðisflokknum illa, nema þegar einstaka sinnum er komið í algert óefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig traustatök á ljósvakamiðlunum, sjónvarpinu algerlega og bylgunni og ríkisútvarpinu að mestu leyti. Áður fyrr birtu hin blöðin fréttir, sem komu við hægri öflin og sömuleiðis greinar um atburði í útlöndum sem sýndu önnur viðhorf en hin þröngu engilsaxnesku sem hér ríkja. Við brotthvarf áðurnefndra blaða, og sérstaklega Þjóðviljans, hefur því orðið mikil afturför. Félagsleg viðhorf eiga sér formælendur fáa og það kvak, sem kemst í gegn í hægri pressunni, er afar máttvana og skiptir litlu."
Grein Jóns Torfasonar er að finna í fjölmiðladálkinum á vefsíðunni í dag og hvet ég alla til að lesa hana.