Fara í efni

HVÍ PASSAR BORGIN EKKI ÞÁ SEM BORGA BRÚSANN?

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 09.12.13.
Ástæða þess að Orkuveitu Reykjavíkur hefur ekki verið sundrað í nokkur aðgreind fyrirtæki samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, er sú að það hefur þótt veikja fyrirtækið. Í greinargerð með frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi sem opnar fyrir aðgreiningu OR í fyrirtæki sem „stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu og rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu, auk annarrar starfsemi sem hefur sambærilega stöðu", segir að þessu hafi ítrekað verið frestað „með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun."
Með öðrum orðum uppstokkunin hefur þótt veikja fyrirtækið og þess vegna verið  frestað!
Í samræmi við þetta er ekki undarlegt að við skulum hafa verið upplýst um það á Alþingi að önnur orkufyrirtæki í landinu sem hafi verið knúin undir regluverk ESB krefjist þess að OR búi við sama óhagræðið!
En getur þetta verið gott leiðarljós, jafnræði sem byggir á óhagræði fyrir alla? Væri ekki betra að hafa hagsmuni okkar neytendanna að leiðarljósi? Ber ekki ríki og  Reykjavíkurborg að passa upp á okkur sem borgum brúsann og njótum þjónustunnar?
Árið 2003 var raforkutilskipun Evrópusambandisins sett í íslensk lög. Allur raforkugeirinn mótmælti og sagði þetta leiða til verðhækkunar og óhagræðis. Það gekk eftir.
Framkvæmd laganna var hins vegar frestað gagnvart OR og hefur verið gert svo í fjórgang. Án vandræða. En nú um áramótin skal láta til skarar skríða.
Þetta er hið mesta óráð.  Enn ætti að fresta framkvæmdinni og nota tímann til að taka allt regluverkið til endurmats og freista þess að fá viðurkennda undanþágu frá tilskipun ESB en til þess eru allar forsendur.
Dæmi er um að tilskipanir hafi verið teknar til endurmats hvað varðar framkvæmd á tilteknum svæðum og nefni ég þar póst-tilskipunina.
Sannast sagna hafði ég lítt treyst á stjórnarflokkana í þessu efni, fremur Reykjavíkurborg, sem ítrekað hefur staðið fyrir frestun þar til nú að hún er komin niður á hnén. Hvers vegna, hví passar hún ekki upp á þá sem borga brúsann?