HVOR GEKK AF FUNDI VEGNA VERÐLEYNDAR, STEINUNN VALDÍS EÐA ÁLFHEIÐUR INGADÓTTIR?
Í Morgunblaðinu sl. laugardag segir frá fundi í stjórn Landsvirkjunar daginn áður þar sem til umfjöllunar var nýr raforkusamningur við Alcan vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Á fundinum var þess krafist að stjórnarmenn hétu því að fara leynt með upplýsingar um raforkuverðið! Álfheiður Ingadóttir, stjórnarmaður í Landsvirkjun og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, lagði þá fram tillögu um að leynd yrði aflétt og færði fyrir því rök. Enginn stjórnarmaður treysti sér til að styðja tillögu Álfheiðar en einn sat hjá, væntanlega Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fulltrúi Samfylkingar. Í Morgunblaðinu er haft eftir Steinunni Valdísi “að litlu hafi mátt muna að hún hafi fylgt í fótspor Álfheiðar Ingadóttur og gengið af stjórnarfundi” vegna kröfunnar um verðleynd. Þetta þótti Morgunblaðinu greinilega slík tíðindi að með fréttinni af útgöngu Álfheiðar var birt mynd af stjórnarmanninum sem næstum gekk út en ekki hinum sem lagði fram tillöguna og vék af fundi þegar tillagan var felld!
Eftrifarandi er yfirlýsing og bókun Álfheiðar Ingadóttur vegna þessa máls:
Á síðasta stjórnarfundi sameignarfyrirtækis Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og ríkisins um Landsvirkjun, sem haldinn var í dag, 15. desember 2006 var lagt fram til kynningar og sem trúnaðarmál samkomulag um raforkusölu til stækkunar álvers Alcan í Straumsvík. Áður en til þess kom var tillaga mín um að létta leynd af verðákvæðum samkomulagsins felld með atkvæðum allra stjórnarmanna. Þar sem ég tel að þjóðin sem er eigandi bæði Landsvirkjunar og þeirra náttúruverðmæta sem verið er að selja til stóriðju, eigi rétt á að fá upplýsingar um andvirði þeirra get ég ekki tekið við slíkum upplýsingum undir því fororði að eiga að leyna þeim fyrir Reykvíkingum eða öðrum landsmönnum.
Ég hlaut því að víkja af fundi með eftirfarandi bókun:
„Ég tel óverjandi að Landsvirkjun semji um raforkuafhendingu til stóriðju án þess að upplýsa þjóðina, sem er eigandi fyrirtækisins, um hvaða verð og verðtryggingar er samið. Á stjórnarfundinum hafa þau rök ein verið færð fyrir þessari málsmeðferð að Alcan á Íslandi hf., áður Íslenska álfélagið hf., óski eftir leynd um þessi atriði. Ég er fulltrúi Reykvíkinga í stjórn Landsvirkjunar og mótmæli ég því harðlega að því aðeins fái ég þessar upplýsingar í hendur að ég haldi þeim leyndum fyrir borgarbúum. Það brýtur í bága við opna og lýðræðislega stjórnsýslu. Ég afþakka því að taka við sem trúnaðarmáli upplýsingum um raforkuverð og verðtryggingar í nýjum og gömlum samningum um álverið í Straumsvík og undirstrika þá afstöðu mína með því að víkja af fundi.
Ég mótmæli einnig því verklagi að nú, á síðasta fundi stjórnar sameignarfyrirtækisins Landsvirkjunar, skuli veifað samningi um raforkusölu til álverksmiðju Alcan í Straumsvík – sem trúnaðarmáli – án þess að stjórnin eigi að taka afstöðu til hans sem slíks. Það bíður nýrrar stjórnar sem tekur við innan 17 daga. Enga brýna nauðsyn ber til að hefja fyrir jólin gerð útboðsgagna eða bjóða út ráðgjafarþjónustu vegna virkjana í Neðri-Þjórsá. Tímasetningin vekur tortryggni og ber vott um lítilsvirðingu gagnvart fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu Hafnfirðinga um stækkun álvers í bæjarlandi sínu.“
Sú ákvörðun mín að taka ekki við trúnaðarupplýsingum um raforkuverð til Alcan breytir engu um afstöðu mína til málsins í heild. Ég greiddi atkvæði gegn viljayfirlýsingu stjórnar Landsvirkjunar um einkaviðræður við Alcan fyrr á árinu og var reyndar ein um þá afstöðu sem naut aðeins stuðnings þriggja stjórnarmanna ríkisins en tveir sátu hjá. Landsvirkjun er ekki fjárhagslega í stakk búin til að hefja umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir á meðan framkvæmdum við Kárahnjúka er ekki lokið Þá er vaxandi andstaða við frekari stóriðjuframkvæmdir á kostnað náttúruverðmæta, m.a. í blómlegri byggð við Neðri-Þjórsá. Framkvæmdir við þrjár virkjanir þar á næsta ári fyrir 3-4 milljarða króna munu hafa áhrif til enn frekari lækkunar á eiginfjárhlutfalli fyrirtækisins. Slíkt getur haft áhrif á lánshæfi Landsvirkjunar og kallað á bein fjárframlög úr ríkissjóði, sem um áramót verður eini eigandi fyrirtækisins.
Við ríkjandi aðstæður tel ég brýnt að draga úr skuldsetningu Landsvirkjunar. Ég tel að fyrirtækið eigi fullt í fangi með að ljúka yfirstandandi framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og því beri að leggja áherslu á djúpborunarverkefnið og rannsóknir sem hafnar eru á háhitasvæðum fremur en að hefja virkjunarframkvæmdir á nýjum svæðum eins og fyrirhugað er í Neðri-Þjórsá.
Þá vek ég athygli á að meirihluti stjórnar Landsvirkjunar ákvað á síðasta fundi að halda áfram að veita fé til undirbúnings Norðlingaölduveitu þvert ofaní áform um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Því bendir margt til að samningurinn sem nú er verið að gera við Alcan leiði til þess að áformum um Norðlingaölduveitu verði hrint í framkvæmd. Slíkum áformum hef ég ítrekað mótmælt og lagt fram tillögur í stjórn Landsvirkjunar um að horfið verði endanlega frá þeim.
Raforkuverð er lykilatriði í arðsemismati virkjunarframkvæmda og sú fyrirætlan Landsvirkjunar að leyna samningi um raforkuverð til stækkunar álversins í Straumsvík sýnir að menn hafa lítið lært af deilum um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar, þar sem raforkuverðið til Alcoa var og er enn leyndarmál. Auk samnings um raforkusölu vegna stækkunarinnar er fyrirhugað að gera breytingar á gildandi raforkusamningi til álversins sem Alcan starfrækir nú í Straumsvík og leyna einnig þeim fjárhæðum sem þar eru tilgreindar. Hér er brotið í blað því raforkusamningurinn sem upphaflega var gerður við Alusuisse 1966 var opinber.
Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til kapphlaups þriggja álfyrirtækja um síðustu gígawattstundirnar sem íslensk stjórnvöld telja sig geta ráðstafað til stóriðju fram til 2012 í skjóli „íslenska ákvæðisins“ í Kýótó-bókuninni. Stjórnvöld ýta undir kapphlaupið og etja landshlutum saman með því að gefa álfyrirtækjunum í skyn að af orkusölu geti orðið. Slíkar áætlanir eru innistæðulausar nema stjórnvöld hafi í hyggju að fara langt fram úr þeim losunarheimildum sem fyrir hendi eru samkvæmt Kýótó-bókuninni. Verði álverið í Straumsvík stækkað eru íslensk stjórnvöld ekki aflögufær um losunarheimildir fyrir álver á Húsavík, svo dæmi sé tekið. Nú er ákveðið að reisa þrjár virkjanir í Neðri-Þjórsá og yfirlýst að verði ekki af álversstækkun í Straumsvík muni þær nýttar í álver í Helguvík eða annars staðar.
Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er greinilega enn í fullu gildi.
Reykjavík 15. desember 2006
Álfheiður Ingadóttir.