Í BESTA FALLI LÁNÞEGAR
Í dag var mér kynnt nýtt hugtak á íslenskri tungu: lánþegi. Kannski er hugtakið alls ekki nýtt. En í þeirri merkingu sem mér var kynnt orðið er það nýlunda. Alla vega ekki ýkja gamalt. Hugtakið í hinni nýju merkingu átti við þegar Landsbanki og Búnaðarbanki voru "seldir". Þá var lánað fyrir sölunni og það sem síðan á annað borð var greitt, var borgað með arðinum af hinum keypta banka.
Nú stendur til að hópur fjármangara sem kalla sig Magma Energy, kaupi sig inn í orkugeirann á Reykjanesi. Fyrst í stað var því haldið fram að með þessum kaupum kæmi nýtt erlent fjármagn inn í landið. Nú kemur á daginn að ráðgert er að útborgun Magma sé aðeins 30% af kaupverðinu. Keypt er á hálfprís því svo lágt er krónan metin eins og sakir standa: 50% afsláttur þar.
Þau 70% sem eftir standa eru lánuð! Orkuveita Reykkjavíkur (les: orkuveitan okkar) lánar fjárfestunum 70% af kaupverðinu afborgunarlaust til 7 ára! Þá fyrst verður byrjað að borga. Hvernig? Með arðinum af hinni nýju eign. Kannast einhver við aðferðina? Er virkilega búið að gleyma þjófnaði útrásartímans?
Vorum við ekki búin að fá nóg af þessu? Vorum við ekki búin að fá að vita nóg um kúlulánin, lánin sem voru aldrei greidd og aldrei stóð til að borga; og fjárfestana sem voru engir fjárfestar þegar upp var staðið? Í besta falli lánþegar.
Eitt er víst að þegar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins setti einkavæðingarferlið í orkugeiranum á Suðrnesjum af stað vorið 2007 þá gagnrýndi sá sem þetta skrifar þá ákvörðun og varaði við að nákvæmlega það sem við nú verðum vitni að myndi gerast.