Í DAG DEYJA 10.OOO MANNS AF VATNSSKORTI
Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna fyrir vatni. Verkalýðssamtök og margvísleg hagsmunasamtök almennings efna til vitundarvakningar af ýmsu tagi í dag til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd að aðgengi að vatni telst til grundvallarmannréttinda og að með vatn eigi ekki að fara eins og hverja aðra verslunarvöru. Það kann að vera langsótt fyrir Íslendinga að berjast þurfi fyrir viðurkenningu á vatni sem mannréttindum. Fyrir fátækar þjóðir er sú hugsun hins vegar auðskiljanleg. Í dag munu um 10.000 manns, einkum börn, deyja sökum skorts á hreinu drykkjarvatni. Þetta gerist hvern einasta dag allan ársins hring. Þessa dagana hefur staðið alþjóðleg ráðstefna um vatn í Mexíkó, World Water Forum, og hefur
Frá World Water Forum berast þær fréttir, svo aftur sé vitnað í Pál H. Hannesson, að meginniðurstaða ráðgjafaráðs Kofi Annans aðalritara Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var á Mexíkóráðstefnunni sé sú “að opinberar veitur verði að gegna lykilhlutverki í að koma vatni til þess fjölda sem hefur engan aðgang í dag. Tillögur ráðsins endurspegla róttækar breytingar frá síðasta alþjóðlega vatnsþinginu sem haldið var I Kyoto, þar sem þung áhersla var lögð á hlutverk einkageirans. Það eru kerfisbundin mistök einkavæðingarinnar og síaukin andstaða sem hefur leitt til þess að aðrir valmöguleikar hafa verið hugleiddir.”
Þá hlýtur ekki síður að teljast fréttnæmt að Alþjóðabankinn kunni einnig að breyta stefnu sinni. “Bankinn viðurkennir að það eru engar vísindalegar sannanir fyrir yfirburðum einkageirans þegar kemur að skilvirkni. Jamal Saghir yfirmaður þeirrar deildar bankans sem sér um vatn og orkumál viðurkenndi á WWF í Mexiko að síðustu 15 árum hefði verið sólundað með einhliða áherslum á einkageirann. Hann tekur undir þau sjónarmið að framtíðin sé opinbera geirans og að allir eigi að sameinast í því að finna leiðir til að auka afkastagetu vatnsveitna sveitarfélaga.”
Miklar umræður fara fram í fjölmiðlum víðs vegar um heiminn í dag. Í Guardian í dag er vísað í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum þar sem segir að einkafyrirtæki séu að draga sig frá ýmsum þróunarríkjum vegna óvissu um framtíðina en vaxandi efasemdir eru nú víðast hvar um einkavæðingu á vatni. Sjá nánar HÉR.
Enda þótt þróuð iðnríki búi fæst við vatnsskort sambærilegan við þau ríki þar sem fólk fólk deyr beinlínis umvörpum af þessum sökum, þá þekkja þau vandann sem hlýst af einkavæðingu á vatni. Þess vegna er nú um heiminn allan að myndast breiðfylking gegn einkavæðingu á vatni: Líta ber á vatn sem mannréttindi og ekki sem hverja aðra verslunarvöru.