Fara í efni

Í DAG FÓR HERINN – EN EKKI ARFLEIFÐIN

Bandaríski herinn er horfinn af landi brott, góðu heilli. Sögu hersetunnar á hins vegar eftir að gera skil. Það verður ekki gert fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Aldrei verður öðru tekið en að öll gögn sem máli skipta við skrásetningu þeirrar sögu verði opinberuð. Þetta skiptir máli sögunnar vegna og þekkingar okkar og skilnings á því sem gerðist. Í öðru lagi, og ekki síður, snýst þessi krafa um rétt þeirra einstaklinga sem í hlut eiga; þeirra sem sættu ofsóknum, þeirra sem um var njósnað, þeirra sem bornir voru ljúgvitni og sviptir kosningarétti fyrir þá "sök" að dirfast að taka þátt í lýðræðislegri baráttu gegn hersetunni. Í þriðja lagi skiptir það máli fyrir lýðræðið að þessi mál verði upplýst að öllu leyti. Öllum tilburðum til að leyna upplýsingum verður hafnað og ef einhver lætur sér koma annað til hugar, fer sá villur vegar.  Á því leikur enginn vafi.
Það er greinilegt að Þór Whitehead sagnfræðingur hefur strokið mörgum manninum öfugt í Kastljósþætti hinn 21. september síðastliðinn. Ekki leið langur tími þar til ég hafði fengið senda grein frá einum af svokölluðum frjálsum pennum þessarar síðu, Rúnari Sveinbjörnssyni. Rúnar er góður félagi í vinstripólitíkinni en hann á jafnframt sterk fjölskyldutengsl til verkalýðsbaráttu á Kaldastríðsárunum og þykist ég vita að honum renni blóðið til skyldunnar þegar dylgjað er um heiðvirða íslenska verkamenn, baráttufólk, sósíalista, og gefið í skyn að þeir hafi verið að berjast fyrir einhverju allt öðru, en þeir sjálfir, fólkið sjálft, jafnt konur sem karlar, töluðu fyrir. Ég hvet menn til að lesa pistil Rúnars. Hann er HÉR.
Þá hvet ég fólk mjög eindregið til þess að lesa grein Kjartans Ólafssonar í Morgunblaðinu í dag. Ég tek mér það bessaleyfi að birta grein hans hér að neðan. Ég birti einnig mjög góða og upplýsandi grein eftir Árna Björnsson, sem birtist í Morgunblaðinu hinn 6. júlí. Tilvísun mín í skrif þessara ágætu manna geri ég að kveðju minni til bandarískrar hersetu á Íslandi. Eitt er víst og verður hverjum og einum augljóst við lestur þessara greina að þótt herinn sé horfinn af landi brott þá gildir það ekki um arfleifð hans. Ef við ætlum að hreinsa þetta mál upp í vitund þjóðarinnar verður að setja öll gögn á borðið. Það er skilyrðislaus krafa.

--------------------------------------------------------------------------

Grein Kjartans Ólafssonar:

Í KASTLJÓSI sjónvarpsins þann 21. þessa mánaðar var Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, spurður hvort íslenskir kommúnistar hefðu verið vopnaðir og svaraði hann spurningunni hiklaust játandi. Ekki var annað að heyra á prófessornum en þar væri m.a. átt við okkur sem kallaðir vorum svo á árunum milli 1960 og 1970 en símar okkar voru þá hleraðir af útvöldum snuðrurum sem Þór vill nú gera að þjóðhetjum.

Staðhæfingin um vopnabúr íslenskra kommúnista eða annarra vinstrisinna á liðnum áratugum er grófari sögufölsun en nokkur önnur sem hér hefur verið borin á borð.

Lítum á hvað Þór hefur fram að færa um þessi efni í nýbirtri ritgerð sinni í tímaritinu Þjóðmálum:

Sagnfræðingurinn staðhæfir að árið 1979 hafi Þorsteinn Pétursson, aldraður frammámaður í Alþýðuflokknum, sagt sér að þegar hann var 18 ára unglingur, árið 1924 hafi hann lagt til í Félagi ungra kommúnista að menn kæmu sér upp vopnum og einhverjir þessara unglinga hafi eignast skammbyssur. Hvort þetta er rétt veit auðvitað enginn en hafi draumórar og byltingarrómantík leitt fáeina unglinga milli fermingar og tvítugs út í kaup á skammbyssum fyrir 82 árum þá varð að minnsta kosti aldrei vart við þær í hinum mörgu og hörðu átökum milli verkafólks og atvinnurekenda á millistríðsárunum. Þetta er þó eina dæmið hjá Þór sem ef til vill er hæpið að vísa með öllu á bug.

Þór segir íslenska kommúnista, sem stunduðu nám við Lenínskólann og Vesturháskólann í Moskvu á árunum upp úr 1930, hafa verið þjálfaða í vopnaburði. Eina dæmið um þetta hefur hann frá dr. Benjamín Eiríkssyni sem var við nám í Moskvu 1935 og 1936. Benjamín sagði Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni fyrir allmörgum árum að hann hefði einu sinni tekið þátt í heræfingu úti í náttúrunni og einnig verið látinn skjóta af byssu niðri í kjallara. Ætla má að þetta sé rétt en hér ber að hafa í huga að Benjamín var að eigin sögn í þeirri deild skólans sem ætluð var Þjóðverjum, útlögum frá Hitlers-Þýskalandi og hlaut sömu þjálfun og þeir. Í Norðurlandadeild Lenínskólans, þar sem flestir hinna Íslendinganna í Moskvu voru við nám, voru þeir og Skandinavarnir hins vegar búnir undir að starfa í löglegum flokkum sinna heimalanda og þjálfun í hernaði ekki á dagskrá. Sjálfur lætur Þór þess reyndar getið að í bréfi frá árinu 1931 hafi Íslendingarnir sem þá voru í Moskvu varað sterklega við öllum hugmyndum um leynilega og ólögmæta starfsemi hér á Íslandi. Þarf þá vart annarra vitna við.

Hinn virðulegi prófessor nefnir 30. mars 1949 og talar um fyrirhugaða valdbeitingu í því skyni að hindra störf Alþingis. Inngangan í Atlantshafsbandalagið var mikið hitamál og klauf þjóðina til langframa í tvær andstæðar fylkingar. Stór orð féllu á báða bóga en sú staðhæfing að Sósíalistaflokkurinn hafi undirbúið árás á Alþingi til að koma þannig í veg fyrir afgreiðslu málsins er fjarri sanni. Þó að langt sé um liðið er enn á lífi fólk sem sat fundinn í miðstöð flokksins daginn fyrir 30. mars en þar brýndi Einar Olgeirsson það alveg sérstaklega fyrir hinum yngri liðsmönnum sínum að varast allar óspektir. Sami boðskapur frá honum var borinn mönnum í símtölum þennan dag og einnig það að kæmi til óeirða kynni það að verða notað til að banna flokkinn. Þetta staðfestir reyndar Þór Whitehead í ritgerð sinni er hann segir að "æðstu forystumönnum Sósíalistaflokksins" hafi komið saman um að það væri þeim sjálfum hættulegt að skipuleggja árás á Alþingishúsið. Að svo hafi verið liggur reyndar í augum uppi.

Fólkið sem kom á Austurvöll 30. mars1949 og krafðist þjóðaratkvæðis um inngönguna í NATO var allt óvopnað en mörgum var heitt í hamsi og ekki róaðist hugurinn við að sjá þúsund manna liði úr harðasta kjarna Sjálfstæðisflokksins vera stillt upp framan við þinghúsvegginn, að baki lögreglunni. Fáeinum mönnum varð það á að kasta mold af Austurvelli og jafnvel steinum að þessari fylkingu fyrir utan unglinga sem hentu að þeim eggjum.

Vopnin voru ekki utandyra heldur innandyra í sjálfu Alþingishúsinu þennan sögufræga dag og til bardaga kom ekki fyrr en fimmtíu manna sveit úr flokki dómsmálaráðherrans vopnuð bareflum og með hjálma á höfði ruddist út úr þinghúsinu og tók að berja hvern þann sem fyrir varð í sama mund og lögreglan kastaði táragasi á mannfjöldann. Þá tóku ýmsir á móti og voru sumir dæmdir fyrir það.

Þetta er vert að rifja upp í tilefni að skrifum Þórs um vopnabúr kommúnista.

Þær víðtæku persónunjósnir með símahlerunum og skrásetningu á skoðunum og lífshlaupi hundraða ef ekki þúsunda manna, sem Þór gerir grein fyrir og virðist stoltur af, voru stundaðar áratugum saman eins og nú hefur verið upplýst og prófessorinn staðfestir. Frumkvæðið hafði sjálfur dómsmálaráðherrann og sérvaldir trúnaðarmenn hans innan lögreglunnar unnu verkið. Að sögn Þórs var það ekki aðeins ráðherrann sem fékk í hendur upplýsingar er þannig var aflað heldur líka sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg.

Lýsingin sem Þór gefur á allri þessari starfsemi minnir helst á ástandið í Bandaríkjunum á McCarthy tímanum þegar stjórnvöld þar vestra sáu kommúnista í hverju horni og spöruðu ekki ofsóknir á hendur öllum sem þau höfðu grunaða um vafasamar skoðanir. Það var þá sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hrópaði: "Rússarnir koma, Rússarnir koma," stökk síðan út um glugga og framdi þannig sjálfsmorð. Allri skýrslugerð snuðraranna fyrir bandaríska sendiráðið mætti einnig líkja við persónunjósnir STASI í Austur-Þýskalandi á sínum tíma.

En hver varð eftirtekjan hér af öllum þessum símahlerunum og langvarandi persónunjósnum? Leiddu þær í ljós að menn væru að safna að sér vopnum eða ógnuðu með öðrum hætti öryggi ríkisins? Sýndi sig að einhverjir sem hlerað var hjá sinntu njósnastarfsemi fyrir Rússa?

Svarið við öllum slíkum spurningum er nei og aftur nei. Eða dettur nokkrum í hug að dómsmálaráðherrann og "öryggisþjónustan" í lögreglustöðinni hefðu stungið þvílíkum upplýsingum undir stól og látið vera að nota annan eins hvalreka á pólitíska andstæðinga sína?

Hjákátlegastur er svo lokakaflinn í þessu sorglega leikriti, það að öll gögnin hafi verið brennd árið 1976 af því að helsti trúnaðarmaður dómsmálaráðherrans hjá lögreglunni hélt sig vera að verða hæstaréttardómara. Fari Þór Whitehead rétt með hvað þetta varðar sýnir það svo ekki verður um villst að spæjararnir töldu sér ekki henta að leyniskýrslur þeirra yrðu dregnar fram í dagsljósið.

En er eðlilegt að einn lögreglustjóri láti kveikja í gögnum embættis síns, sem varða meintar ógnir við öryggi ríkisins, af því hann heldur sig vera að hverfa úr starfi og nýr maður að taka við? Svo er að sjálfsögðu ekki. Brennan sýnir að hið mikla leyndarskjalasafn var hvorki eign lögreglustjóraembættisins né íslenska ríkisins heldur einkaeign örfárra útvalinna vina dómsmálaráðherrans. Íslensk tunga á mörg orð yfir slíkan hóp en ég veigra mér við að nota þau vegna þess að ég tel að nú skipti mestu máli að hófsamir menn í öllum stjórnmálaflokkum taki höndum saman um að leggja á borðið það sem enn er þó eftir af gögnum um hleranirnar og sameinist um að forða því í bráð og lengd að þau ósköp sem Þór Whitehead lýsir verði endurtekin.

Höfundur er fyrrverandi ritstjóri og fyrrverandi alþingismaður.

-------------------------------------------------------------------------------------------------

Grein Árna Björnssonar í Morgunblsðinu 6 . júlí:

ÞEGAR bandaríski herinn birtist hér öðru sinni fyrir rúmlega hálfri öld kom það fólki nokkuð í opna skjöldu að hann var af opinberri hálfu ævinlega nefndur varnarlið. Gamli herinn hafði jafnan verið nefndur setulið eða bara herinn.

Þetta var augljóslega sálræn herkænska. Það átti að innræta þjóðinni smám saman að herinn væri hér til varnar. Þess var stranglega gætt að yfirvöld notuðu ekki annað orð, til dæmis í útvarpinu. Bílar hersins voru merktir VL. Líklega skilaði sálfræðistríðið þeim árangri að mikill hluti þjóðarinnar vandist þessu orði.

Athygli vekur því að í nýlegri könnun virðist aðeins fjórðungur þjóðarinnar hlynntur því að halda í þennan herstöðvarsamning og aðeins einn tíundi mjög eindregið. Engan þarf að undra þótt viss kjarni í Sjálfstæðisflokknum vilji halda dauðahaldi í kanann því bandarísk herseta hefur nálgast trúaratriði á þeim bæjum. Að hinu leytinu þarf engan heldur að undra þótt þeir sem vilja troða okkur inn í Evrópusambandið skammi nú kanann eins og hund og vilji nota tækifærið til að útvega okkur evrópskan her í staðinn.

Það sem vekur helst undrun er að sumir þeirra sem að öðru leyti bregðast skynsamlega við og telja að ekki þurfi neinn erlendan her - í staðinn mætti til dæmis efla lögregluna og óska eftir tryggingum frá nágrannalöndum og stórveldum, - sumir þeirra rökstyðja þetta viðhorf með því að nú séu breyttir tímar, kalda stríðinu sé lokið, Sovétríkin úr sögunni, og því sé óhætt að breyta um stefnu. Með þessu er gefið í skyn að fyrir rúmum 50 árum hafi verið einhver þörf á varnarliði.

Við vitum mætavel að svo var ekki. Ekki af því að ráðamenn Sovétríkjanna væru einhver gæðablóð. Öðru nær, þeir voru bölvaðir fantar. Heldur blátt áfram af því að þeir voru samt ekki nein fífl, að minnsta kosti ekki á hernaðarsviðinu. Þeir hljóta allan tímann að hafa vitað að þeir höfðu ekkert að gera hernaðarlega í Vesturveldin eða Bandaríkjamenn þótt þeir hefðu sjálfsagt getað varist af hörku ef á þá yrði ráðist. Auk þess áttu þeir fullt í fangi með að hafa hemil á þeim þjóðum og löndum, sem þeir fengu úthlutað sem áhrifasvæðum í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Og þeim tókst það reyndar ekki nema í einn mannsaldur.

Vesturveldin reyndu heldur aldrei að skerast í leikinn á áhrifasvæði Sovétríkjanna þrátt fyrir blóðugt ofbeldi í Berlín 1953, Ungverjalandi 1956 og Tékklandi 1968. Það var látið nægja að harma þessa atburði og mótmæla í orði. Hinsvegar urðu þessi sömu grimmdarverk kærkomið tækifæri til að ráðast á verkalýðsflokka heima fyrir hvar sem var.

Eina dæmið um hernaðaríhlutun Sovétríkjanna utan þessa áhrifasvæðis var í Afganistan árið 1980, sem varð reyndar einn af þeirra banabitum. En Afganistan var ekki heldur partur af samkomulagi sigurvegaranna í lok heimsstyrjaldarinnar.

Við vitum þetta núna en það má vel vera að margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, hafi á þeim tíma ekki vitað um þennan hernaðarlega vanmátt Sovétríkjanna, enda börðust þeir við að halda honum leyndum. Annarsvegar með allt að því geðveikislegu öryggiskerfi og hinsvegar með hinum árlegu ógnvekjandi hersýningum 1. maí og 7. nóvember. Samt má ótrúlegt þykja ef bandaríska leyniþjónustan hefur ekki vitað nokkurn veginn að þeim gat ekki stafað nein árásarhætta af Rauða hernum. Það var hinsvegar í þágu hagvaxtar í Bandaríkjunum og víðar að viðhalda hinni ímynduðu stríðshættu. Og vissulega urðu aðilar kalda stríðsins vænisjúkir beggja vegna víglínunnar.

Sjálfsagt hefur verið auðvelt að telja óbreyttum íslenskum ráðherrum og alþingismönnum trú um að mikil hætta stafaði af Rússum, rétt eins og þeir gleyptu við því á lokuðum hálftíma fundi í bandaríska sendiráðinu fyrir þremur árum að sannanir væru fyrir því að Saddam Hussein réði yfir kjarnorkuvopnum. En þá töldu þeir Davíð og Halldór líka að það væri brýnt hagsmunamál vegna herstöðvarinnar á Miðnesheiði að kokgleypa allt sem Kaninn hélt fram hverju sinni.

Nokkuð svipuðu máli gegndi einmitt þegar gengið var í NATÓ 1949 og herinn samþykktur inn í landið 1951. Óttinn við Rússa hefði varla einn og sér dugað til að meirihluti þingmanna færi að ljá samþykki sitt svo umdeildum ákvörðunum nokkrum árum eftir stofnun lýðveldis. Það var annar og mun þyngri straumur sem rak á eftir: sjálft Atvinnulífið með stórum staf.

Það er mikið til í því, sem hinn alþekkti en fámáli bandaríski "Deep Throat" á að hafa sagt við rannsóknarblaðamenn Washington Post þegar þeir vildu fá frekari vísbendingar um hvar þeir ættu að leita að sönnunargögnum í Watergate-málinu fyrir aldarþriðjungi. Hann sagði: "Follow the Money". Gáið að hvar hagsmunirnir liggja.

Íslenskir athafnamenn höfðu komist rækilega á bragðið á hernámsárunum. Aldrei áður hafði litli athafnamaðurinn komist í aðrar eins kræsingar. Fjöldi þessara útsjónarsömu harkara missti drjúgan spón úr aski sínum þegar gamli herinn fór þótt fáeinir fengju svolitlar sporslur hjá bandaríska flugfélaginu sem rak Keflavíkurflugvöll frá 1946. Þessar sporslur sýndu þó hvaða framtíðarmöguleikar væru í stöðunni, ef þangað kæmi alvöru herstöð. Það var augljós og glæsileg hagnaðarvon fyrir ótalda íslenska verktaka fólgin í draumsýninni um nýja hersetu. Og þetta fólk sem vildi koma sér áfram, þetta voru upp til hópa kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Það væri vanmat á þessum mönnum að reikna ekki með að þeir hefðu viðrað sjónarmið sín við einhverja þá sem áttu innangengt hjá forystu flokkanna.

Það væri þó ósannlegt að nefna einungis svonefnda athafnamenn sem þrýstihóp til að bregðast vel við málaleitunum Bandaríkjanna um herstöðvar. Atvinnuleysi varð töluvert fyrstu árin eftir að gamla herliðið fór þótt það yrði aldrei neitt líkt því sem verið hafði á kreppuárunum fyrir stríð. En nú voru íslenskir verkamenn orðnir betra vanir en áður. Í hálfan áratug hafði atvinnuleysi varla þekkst. Því er ekki heldur að leyna að verkalýðshreyfingin sem heild var allan tímann heldur lin í andstöðunni við herinn þótt einstakir forystumenn gætu verið einarðir. En verkafólk var áreiðanlega með annað en árásarhættu bak við eyrað.

Stórefling verktakastarfsemi var einmitt það sem gerðist fljótlega eftir að herinn kom. Fjöldi sjálfstæðra iðnaðarmanna, smiða, múrara, málmiðnaðarmanna og rafvirkja auk ýmissa spekúlanta bast samtökum í fyrirtæki sem á endanum urðu að Íslenskum aðalverktökum og fengu innan skamms einkaleyfi til framkvæmda fyrir herinn. Þessir iðnaðarmenn höfðu flestir verið rétt sæmilega bjargálna en bráðduglegir og vinnusamir. Með uppgripunum fyrir herinn urðu margir þeirra sterkefnaðir á nokkrum árum, og þeim sjálfum næstum að óvörum. Ýmsir þeirra voru ágætismenn og hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum atvinnulífsins og margt verið til bóta. Því má vissulega segja að herinn hafi ekki verið hér alveg til einskis. En varnarþörfin var engin.

Höfundur er þjóðháttafræðingur.